Ábyrgur "fréttaflutningur"?

Í Reykjavík Vikublaði í gær (09.05.2015) getur að líta grein á bls. 10 og 11 sem ber fyrirsögnina "Upphlaup og áróður" og er skrifuð af Atla nokkrum Þór Fanndal. Þeir sem eru með þetta "upphlaup og áróður" eru víst allir þeir sem hafa andæft þeim framkvæmdum að Hlíðarenda, sem þegar eru hafnar, og eiga að enda með 4ra til 5 hæða húsum upp við enda flugbrautar 06/24, sem fengið hefur gælunafnið "neyðarbrautin". Með þessu yrði bundinn endir á notkun þessarar flugbrautar og notkunarstuðull Reykjavíkurflugvallar mun skerðast verulega, en það hefur orðið tilefni til margháttaðra athugasemda og mótmæla varðandi framgöngu borgaryfirvalda og fleiri aðila í þessu furðulega máli.

"Rökin" sem Atli þessi notar eru t.d. þessi setning sem höfð er eftir Guðna Sigurðssyni, talsmanni Isavia: "Framkvæmdirnar sem standa yfir núna hafa engin áhrif á flugið á 06/24 brautinni". Hér er einn hængur á, því þessar framkvæmdir "núna" eru aðeins undanfari frekari framkvæmda sem munu enda með því að þessi flugbraut verður ónothæf og er óskiljanlegt hvers vegna þessi talsmaður Isavia sér ástæðu til að gera lítið úr þessu. Isavia er nefnilega einmitt sá aðili sem á að gæta hagsmuna flugvallarins og notenda hans í þessu máli. Ekki hafa þó forráðamenn Isavia séð ástæðu til ábendinga varðandi þetta, eins og innanríkisráðuneytið sendi frá sér nýverið. Þetta er sem sagt meginstef "blaðagreinarinnar", að úr því þessar framkvæmdir sem hafnar eru séu aðeins til undirbúnings, þá sé andúðin gegn þessari ráðstöfun "upphlaup og áróður". Til hvers er þá þetta verk sem hafið er ef ekki er að vænta þess framhalds sem búið er að skipuleggja og á að enda með 4ra til 5 hæða byggingum við enda neyðarbrautarinnar og eyðileggja þannig notkunarmöguleika hennar?

Þessi sömu "rök" liggja víst til grundvallar þessari setningu í upphafi greinarinnar: "Bréf innanríkisráðherra til borgarinnar þar sem skorað er á borgina að virða skipulagsreglur og stjórnsýslumeðferð virðist því byggt á afar veikum grunni". Það væri e.t.v. ekki úr vegi fyrir blaðamann þennan að lesa þetta bréf innanríkisráðherra, áður en hann gerir svona lítið úr því. Þá gæti hann t.a.m. séð að þar er vísað til þess að þessar framkvæmdir, sem þegar eru hafnar, byggjast á deiliskipulagi borgarinnar fyrir þetta svæði sem gengur út frá lokun brautarinnar, án þess að enn liggi fyrir úrskurður Samgöngustofu varðandi áhættumat um þessa skerðingu flugvallarins, sem ber að framkvæma skv. reglugerð um flugvelli (25. gr. laga nr. 464/2007) og að ennfremur brýtur þetta í bága við Skipulagsreglur um Reykjavíkurflugvöll (682/2009), sem kveða á um takmörkun hindrana í nágrenni flugvallarins, aukinheldur með tilvitnun í 2. mgr 59. gr. laga nr. 60/1996 um loftferðir. Ljóst er alla vega að þetta hefur farið fram hjá blaðamanninum svo ekki hefur hann lesið gaumgæfilega þetta bréf, því í niðurlagi greinarinnar stendur þetta: "Bréf innanríkisráðherra krefur borgina um að fylgja lögum en skilgreinir ekki hvernig framkvæmdaleyfið gengur gegn lögum eða samkomulagi"! Dæmi hver fyrir sig um gæði þessarar blaðamennsku Atla Þórs Fanndal.

Loks kemur fram aftarlega í greininni fullyrðing sem ekki verður betur séð en að eigi við um braut 06/24, og segir: "Þá er i gildi samkomulag um að brautin verði í notkun til ársins 2022". Hér bendi ég á "litla" sérsamkomulagið sem þau Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, undirrituðu sín á milli eingöngu, í Hörpu þann 25. október 2013, samhliða undirritun stærri samnings með þáttöku forsætisráðherra og forstjóra Icelandair, en þessi minni samningur tvímenninganna gengur einmitt út á að þessari flugbraut sé gert að víkja. Hér er því blessaður blaðamaðurinn staddur úti á túni.

Þá er þessum blaðamanni RV bersýnilega í nöp við samtökin Hjartað í Vatnsmýri. Hann eignar þeim samtökum nafngiftina "neyðarbrautin" og segir: "Með nafngiftinni er þriðju braut vallarins sem áður hefði eflaust verið kölluð varabraut aukið vægi. Þá gefur nafnið sjálfkrafa til kynna að lokun brautarinnar sé lífshættuleg ákvörðun enda aðeins nýtt í neyð". Ég get ekki þakkað heiðurinn fyrir hönd samtakanna, þó ég sé bendlaður við þau, þar sem fullyrðing Atla Þórs um þetta er ekki rétt. Hjartað í vatnsmýri var stofnað 8. júlí 2013, eftir skamman undirbúningstíma það sumar, en nafngiftin var vel þekkt löngu áður enda til komin vegna þeirrar ráðstöfunar sem hefur gilt í áraraðir, að leyfa notkun brautarinnar aðeins í þeim tilfellum þegar aðrar flugbrautir vallarins eru ill- eða ónýtanlegar vegna aðstæðna og þar með í neyðartilfellum. Ég leyfi mér hér með að vitna í grein um málefni flugvallarins í Dagblaðinu Vísi (DV) þ. 29.11.1996, bls. 16, þar sem þessi setning er höfð eftir Þorvaldi S. Þorvaldssyni, forstöðumanni Borgarskipulags Reykjavíkur: "Það hefur verið talsverð umræða um þessa braut og hvort henni verði haldið inni sem neyðarbraut og notuð sem slík". Meistari Fanndal blaðamaður var því ekki enn á fermingaraldri þegar hugtakið "neyðarbraut" var orðið til í stjórnsýslu borgarinnar og íslenskum fjölmiðlum, í umfjöllun um flugbraut 06/24 í Reykjavík. Ég bendi því blessuðum manninum aftur á þann möguleika að hann kynni sér umfjöllunarefni sín betur áður en hann geypar um þau á opinberum vettvangi.

En þó langt sé til jafnað, þá eru ummæli Atla Þórs um undirskriftasöfnun Hjartans í Vatnsmýri dæmalausust alls þess sem hann býður okkur upp á í þessari "blaðagrein". Það hefur tíðkast um langt skeið að gefa fólki kost á nafnleynd í öllum stærri og vandaðri undirskriftasöfnunum. Það á m.a. við um eina sem nú er í gangi og telur nú yfir 30.000 manns. Öllum kúnstarinnar reglum var beitt til að tryggja sem best áreiðanleika listans sem Hjartað í Vatnsmýri stóð fyrir, en svo virðist að þessum Atla Þór blaðamanni sé ekki mikið í mun að kynna sér allar staðreyndir í þessu frekar en öðru, áður en hann lætur vaða. Eða alla vega er honum ekki í mun að hleypa þeim öllum að í umfjöllun sinni. Slíkt er kallað að fara með hálfsannleik. Og þykir öllu jöfnu ekki bera vott um vandaða blaðamennsku.

Fleira "fróðlegt" um flugvallarmálið týnir Atli Þór til í máli sínu, t.a.m. einhver spörð um s.k. sparnað, minnkun slysatíðni og mengunar, ef byggð rís í stað flugvallarins og vitnar þar í skýrslu frá 2007. Burt séð frá því hversu umdeilanlegar niðurstöður þessarar skýrslu eru hvað þetta varðar, þá er t.d. ekki tekið mið af því að verið sé að úthýsa u.þ.b. 1000 manna vinnustað og arðsemisáhrif þess, né heldur nokkur gaumur gefinn að því að með lokum innanlandsflugs í Reykjavík muni umferðarálag á þjóðvegakerfinu stóraukast með tilheyrandi aukinni mengun og slysatíðni. Það sem Atli Þór blaðamaður kallar "Umtalsverðan þjóðhagslegan ábata" er því í besta falli "borghagslegur" ábati, ef það þá nær því að kallast ábati. "Þjóðhagslegur ábati" verður þetta alls ekki. Um það gæti hlutlaus og gagnrýnin fréttamennska vitnað.

Enn fleira kemur fram í "blaðagrein" meistara Fanndals blaðamanns en það sem ég hef nefnt hér, en ég verð að játa að ég satt að segja skildi það ekki allt. Svo þetta læt ég nægja að sinni.

Þessi "blaðagrein" er ekki fréttamiðlun í þeim skilningi að hún grundvallist á fagmennsku fréttamanns, heldur er þetta pistill fullur af persónulegri óskhyggju, gersneiddur hlutlausri gagnrýni. Enda er svona hálfsannleikur í bland við hreinar rangfærslur ekkert annað en fréttafölsun. Reykjavík Vikublað er enn einn fjölmiðillinn sem lætur sér sæma að troðast óboðinn í póstlúgur hjá stórum hluta landsmanna, en sé þessi "fréttaflutningur" Atla Þórs Fanndal dæmigerður fyrir það sem lesendur blaðsins eru mataðir á, þá rís blaðið ekki undir þeirri ábyrgð að flytja vandaðar fréttir. Og það var vart á bætandi í þessari deild íslenskrar fjölmiðlunar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Frábært að fá hér þína faglegu sýn á þetta mál, Þorkell.

Forsíða blaðsins Reykjavík vikublað sló mig illa í gær, en ég hef bara ekki komizt til að lesa grein þessa Atla Þórs, sem hingað til hefur komið mér fyrir sjónir sem einhver rammhlutdrægasti blaðamaður landsins og jafnvel rætinn út í allt sem er hægra megin við vinstrið.

Læt þetta nægja í bili.

Jón Valur Jensson, 10.5.2015 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband