Opið bréf til þín borgarstjóri og læknir

Sæll meistari. Til að svara þér hér nota ég sem heimild myndbandsupptöku af fundi borgarstjórnar s.l. þriðjudag, sem finna má (eða mátti um tíma) á vefnum reykjavik.is undir liðnum "Upptökur frá fundum borgarstjórnar, Fundur 5. janúar 2016, 1. mál". Þú hélst þar skörulega ræðu og veittir einnig hin skörulegustu andsvör, sjálfstraustið uppmálað eins og þú hefðir allt á hreinu sem þú varst að segja. Því skýtur það skökku við hversu margt af ummælum þínum þarfnast leiðréttinga. Ég reyni að stikla hér á stóru.

Í upphafi ræðu þinnar settir þú ofan í við annan borgarfulltrúa með orðunum: "....ég held við eigum ekki að leggja í vana okkar að vera að sneiða að þeim sem eru fjarstaddir umræðuna í þessum sal og geta ekki borið hönd yfir höfuð sér." Þetta var í sjálfu sér afar göfugmannleg áminning. En þess heldur var ræða þín sjálfs athyglisverð þegar á leið. Þegar upptökutíminn sýnir 01:01:43 sendir þú þessa augljósu sneið til innanríkisráðherra: "....eða er það þannig að þegar einkur ráðherra Sjálfstæðisflokksins gerir sig líklegan til að ganga á hagsmuni borgarinnar, á fjárhagslega hagsmuni borgarbúa, að þá megi alltaf treysta því að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lyppist niður?" Nú væri gaman að vita hvort Ólöf Nordal hafi verið viðstödd til að "bera hönd yfir höfuð sér"? Sjálfur fékk ég svo mína sneið hjá þér síðar, en ekki minnist ég þess að hafa verið staddur í þessum sal á þessum tíma né nokkru sinni.

Ég hleyp nú yfir hluta ræðunnar en þegar upptökutíminn sýnir 01:13:20 hefst afar athyglisverður kafli í henni. Svona er hann orðréttur:

"Ég get svo ekki látið hjá líða, vegna þess að hér hefur verið talað um lendingar á þriðju braut Reykjavíkurflugvallar, eins og það séu ný tíðindi, að benda borgarfulltrúum á að kynna sér úttekt á áhrifum brauta 06/28 (?), nothæfistíma fyrir áætlunarflug og sjúkraflug, sem Efla vann, fyrir Isavia og birt var í nóvember 2014. Þar var nebblega skoðað níu ára tímabil, til þess að leggja sem raunhæfast mat á nothæfistíma einstakra flugvéla með gögnum sem lýsa aðstæðum á Reykjavíkurflugvelli, með tilliti til hliðarvinds, bremsuskilyrða, hliðarvindshámarka, flugrekstraraðila, auk skyggnis og skýjahæða. Á þeim tíma sem þanna um ræðir, var lent a neyðarbrautinni af og til. Ekki oft en af og til. Það sem er merkilegt við þessa úttekt, er að hún sýnir fram á að í nær öllum tilvikum hefði verið hægt að lenda á hinum brautunum. Þegar farið er yfir allan þennan árafjölda... eru... segir að í skýrslunni að jafnaði um skamman tíma að ræða þar sem að einkur frávik eru frá hliðarvindsskilyrðum, ogu.. í 27% þeirra tilvika er hliðarvindur kominn innan marka innan tíu mínútna, í 67% tilvika innan einnar klukkustundar og aðeins í þremur tilvikum á þessum níu árum var um lengri samfelldan tíma þar sem hliðarvindur var yfir mörkum. En þá í a.m.k. tveimur tilvikum var svo vitlaust veður á landinu öllu að það var hvort eð er ekki flugfært, og það er ekki vitað um þriðja skiptið. Hvað er ég að segja með þessu? Jú, að það sé ýmislegt sem bendi til þess, að í sumum þeirra tilvika sem verið er að lenda á þriðju brautinni, væri hæglega hægt að lenda annars staðar. Mér fyndist athyglisvert að skoða það sérstaklega fyrir nýjársnótt, þar sem mér skilst samkvæmt fréttum morgunsins, að lent hafi verið og ekkert var að veðri. Það var bara ekkert að veðri. Og eru einhver vitni að því? Já, hálf þjóðin var nebblega úti að skjóta upp flugeldum. Þá var lent á neyðarbrautinni. Guði sé lof held ég að hafi staðið í mogganum um morguninn. Það er nú ekki víst að það sé rétt eftir haft, frekar en annað sem er í mogganum. Og þá á ég við að ég hafi rétt eftir mogganum. Því mogginn segir auðvitað alltaf satt. Ene... ég held að í þessari umræðu þá blandist tvennt saman, sem að í raun séu aðskilin mál. Fyrsta lagi dómsmálið, þar sem borgin þarf að sjálfsögðu að standa vörð um hagsmuni sína og knýja á um efndir þar sem nú blasa við vanefndir ríkisins. Blöndum því ekki saman við þetta deiliskipulag. En í öðru lagi er deiliskipulagið sem er mikilvægt að sé í gildi og byggir á sameiginlegri vinnu ríkis og borgar, árið 2013. Þar hafa komið í ljós ákveðnir hnökrar, og burt séð frá því hvort að það hafi átt að valda ógildingu skipulagsins er langbest að auglýsa skipulagið aftur og samþykkja það aftur, og í þriðja lagi er auðvitað síðan sjónarmiðin um þriðju brautina og lokun hennar. Það er rétt að við höfum það ekki á valdi okkar, innanríkisráðherra hefur það, og þessna erum við að knýja á um það með dómi að við samninga, fyrirvaralausa samninga um það verði staðið. En efað það eru einkurar áhyggjur af öryggi eða ástæða til þess að ætla að það þurfi slíka braut á suðvesturhorni landsins, eins og sumir hafa fullyrt, nú þá hefur innanríkisráðherra það í hendi sér að opna slíka braut í Keflavík. Það er ekki hægt að beina því að Reykjavíkurborg að breyta skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll, það verður ráðherra að gera eins og ráðherra er skuldbundinn til samkvæmt skriflegum fyrirvaralausum samningum. Borgarstjórn getur heldur ekki opnað þriðju brautina á Keflavíkurflugvelli en það getur ráðherra, og er ekkert mál, það kostar peninga en er að öðru leyti ekkert mál. En við hvað er þar að glíma? Mig grunar að þar sé við það að glíma að flugrekstraraðilar og þeir sem nota flugvellina á suðvesturhorninu, telja einfaldlega enga ásæðu til þess. Tíma ekki að borga fyrir það í gegn um lendingargjöld í Keflavík, og Isavia telur engin... ekki fagleg rök fyrir því. Hvað þá fjárhagsleg. Að gera það. Þar liggur nebblega hundurinn grafinn. En þetta gæti engu að síður innanríkisráðherra gert, efað uppi eru áhyggjur af öryggi sem fylgir því.. einkuru óöryggi sem fylgir því að loka þriðju brautinni og því sjónarmiði hefur borgin beint að ráðuneytinu. Að ef það eru uppi einkurar slíkar áhyggjur, þá beri ráðherra einfaldlega að opna þá braut."

Fyrst langar mig að falast eftir skýringum á því á hvaða grundvelli þú ("borgin") getur sagt innanríkisráðherra til verka, eins og þú lýsir í niðurlagi ræðunnar hér að ofan? Þá hefur oftsinnis komið fram áður að aukning flutningstíma sjúklinga sem koma utan af landi með sjúkraflugi mun aukast að lágmarki um þrjú korter við bestu veður- og akstursskilyrði, nái fyrirætlun þín fram að ganga. Bestu veður- og akstursskilyrði eru hins vegar sjaldnast í boði á Reykjanesbrautinni þegar vindar knýja okkur til að velja neyðarbrautina. Ýmsir draumóramenn meðal skoðanasystkyna þinna í þessu máli hafa uppi hugmyndir um að nýta þyrlur milli Keflavíkur og Reykjavíkur til að stytta þennan tíma en hér er fljótlegast að vísa í sjálfa flugmenn LHG sem hafa margsinnis lýst annmörkum þessa. Ég geri svo ekki ráð fyrir því að borgin ætli að styrkja opnun flugbrautar í Keflavík þó þið séuð að heimta lokun samsvarandi brautar í Reykjavík svo þessi tilætlan ykkar að ríkið bregðist við fyrirætlunum borgarinnar með tilheyrandi fjárútlátum minnir satt að segja óþægilega á þessa tilvitnun: “The problem with socialism is that you eventually run out of other people's money.” (Margaret Thatcher). Þetta gefur væntanlega líka tóninn um það hverjir skulu bera kostnaðinn af gerð nýs flugvallar t.d. í Hvassahrauni ef til kemur eins og skipulagshugmyndir borgarinnar næstu árin gefa í skyn.

Þetta brambolt ykkar gegn neyðarbrautinni virðist byggja á einhverjum fyrri samningum um lokun hennar milli ríkis og borgar, eða eins og þú kallaðir í ræðu þinni "fyrirvaralausa samninga". Nú hafa allir samningar sem ég hef séð um þetta haft í för með sér fyrirvara, m.a. opnun samsvarandi flugbrautar í Keflavík, byggingu samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli, sölu lands sem ríkið á undir flugvellinum, en þó þig bresti minni varðandi þetta er staðan sú að engir þessara fyrirvara hafa haldið, alþingi hafnaði m.a. sölu þessa lands og svo átt þú sjálfur hlut að máli þegar þú og Jón nokkur Gnarr genguð á fund ráðherra og höfnuðuð fyrir hönd borgarinnar að reist yrði samgöngumiðstöð. Svo þú ert e.t.v. tilbúinn að upplýsa mig og fleiri um hvaða samningar það eru sem þið eruð að krefja ríkið um efndir á?

Varðandi Eflu-skýrsluna sem þú vitnar í, þá er það rétt sem kom fram í gagnrýni annarra fundarmanna að hún er marklaus samanber afgreiðslu Samgöngustofu á henni. Efla-verkfræðistofa vann hana eftir forskrift forráðamanna Isavia, þannig að með því að gefa út tvær skýrslur, aðra um nothæfisstuðul eins og reglur kveða á um, og hina um nothæfistíma sem er hugtak án fordæmis og án skilgreiningar, tekst að falsa forsendurnar sem þú kýst að nota. Í skýrslunni um nothæfisstuðul (sem er sú eina sem gefa hefði átt út) lætur Efla undir höfuð leggjast að leggja til grundvallar útreikningum sínum lykilþætti sem reglurnar kveða á um að nota skuli, með fjálglegum afsökunum um að það sé svo erfitt. En þó varð Eflu engin skotaskuld að beita þeim reikningskúnstum í hinni skýrslunni, þeirri marklausu, en tilurð hennar var eingöngu til að Efla og Isavia gætu sagt, jú víst var reiknað með öllum breytum sem lögboðnar eru! Eftir stendur að í útreikningum um nothæfisstuðul var það þó ekki gert, en þess í stað diktað upp nýtt hugtak og ný skýrsla til að fela það. Það er því merkilegt, en kemur raunar ekki á óvart, að þú kýst að tala eingöngu um falsskýrsluna! Þessi vinnubrögð minna á ýmislegt annað í gerðum ykkar borgaryfirvalda þegar kemur að flugvallarmálinu.

Þegar þú stekkur svo með hausinn á undan í sömu gryfjuna og Efla gerði með þessum dæmalausu fullyrðingum: "....í 27% þeirra tilvika er hliðarvindur kominn innan marka innan tíu mínútna, í 67% tilvika innan einnar klukkustundar...." ertu kominn í þvílíka vitleysu að það er hreint aumkunarvert. Hvernig dettur þér í hug að flugstjórar í atvinnuflugi fari í biðflug yfir áfangastaðnum í þeirri von að vinna í þessu happadrætti, að þeir falli inn í þessi 67% eða helst í 27% og treysta þá í blindni á að lenda ekki í þeim 6% sem út af standa? Jafnvel leikmenn hljóta að sjá að þannig gengur ábyrgur flugrekstur aldrei fyrir sig, enda gilda stífar reglur um eldsneytirforða til að mæta töfum á áfangastað og fljúga síðan til varaflugvallar. Klukkustundar biðflug er aldrei valkostur í þessu, sér í lagi ekki upp á von og óvon. Og ef við nú heimfærum þetta á sjúkraflugsþjónustuna, þá er varla erfitt fyrir læknismenntað fólk að sjá neikvæðu áhrifin af slíku biðflugi fyrir forgangssjúklinginn um borð eða hvað?

Ég vil svo í tilefni af þessum orðum þínum: "En þá í a.m.k. tveimur tilvikum var svo vitlaust veður á landinu öllu að það var hvort eð er ekki flugfært,...." benda þér á að þó svo innanlandsflug liggi niðri vegna veðurs, m.a. vegna viðvarana Veðurstofu um ókyrrð, er ekki þar með sagt að sjúkraflug liggi niðri því eðli málsins samkvæmt gerum við það sem í okkar valdi stendur þegar tilefnin kalla eftir því. Bráð veikindi og slys einskorða sig ekki við veðurfar. Hér bendi ég í þessu sambandi á frétt Stöðvar 2 þ. 30. des. s.l. Þess utan er þessi niðurstaða Eflu út í hött, sem varla er nema von miðað við vinnubrögðin þar á bæ. Þú tiltekur hér þrjú tilfelli á níu ára tímabili þar sem ekki hefði verið unnt að lenda þarna syðra ef neyðarbrautin hefði ekki verið til staðar. Nú hef ég undir höndum gögn frá Isavia yfir þriggja ára tímabil frá 2012 til 2014, sem sýna hreyfingar sjúkraflugvélar Mýflugs á neyðarbrautinni ásamt með vindupplýsingum, og þar hef ég fundið 11 til 12 lendingar sem ekki hefðu getað átt sér stað ef neyðabrautin hefði ekki verið. Hér ber því svolítið í milli. Tugir annarra tilfella eru þar einnig þar sem lendingar á öðrum brautum hefðu þurft að fara fram nærri getumörkum flugvélarinnar. Þér finnst e.t.v. lítið til um það en þú átt líka svo gott að þurfa ekki sjálfur að glíma við þetta. Neyðarbrautin hefur komið sér afar vel í öllum þessum tilfellum og fyrir vikið gert þessa starfsemi svo miklu öruggari.

imageÞá gerir þú að umtalsefni lendingu mína á neyðarbrautinni á nýársnótt og hafðir orð á því að hálf þjóðin hefði orðið vitni að því á þeim tíma að ekkert væri að veðri! Um leið og ég þakka þér umhyggju þína og áhuga á því hvernig ég vel mér flugbraut til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, langar mig m.a. að benda á að þó svo aðrar flugbrautir séu nothæfar vegna vindafars þá og þá stundina, er yfirleitt valin sú brautin sem snýr best við vindinum ef hann blæs að einhverju ráði, einfaldlega öryggisins vegna. Og þannig vildi til að það átti við um neyðarbrautina þessa nótt. Þessu til glöggvunar birti ég hér myndir, fyrst af útprentaðri veðurspá fyrir imageReykjavík á þeim tíma sem okkar var von þar, en þar sést (vonandi) að reiknað var með 210 gráðu vindstefnu og vindstyrk upp á 18 hnúta en hviðum upp í 30 hnúta. Þá aðra mynd af upplýsingum um raunvind, handrituðum á flugplanið okkar og uppgefnum af flugturninum skömmu fyrir lendingu okkar, en þar sést að þetta var heldur óhagstæðari vindur en spáð var, þ.e. 230 gráðu vindstefna (sem þýðir um 40 gráðu mun m.v. brautarstefnu suðurbrautarinnar eða braut 19, en aðeins 10 gráður m.v. braut 06, s.s. neyðarbrautina og þ.a.l. mun hagstæðari hliðarvindsstuðul), og enn með vindhviður upp í 30 imagehnúta. Að síðustu er graf þar sem fundinn er út hliðarvindsstuðull m.v. tiltekna brautarstefnu og uppgefna vindstefnu og styrk en þar hef ég merkt inn niðurstöðuna sem við á ef við berum raunvindinn saman við þá flugbraut sem skást hefði átt við ef ekki hefði verið neyðarbrautin, þ.e. braut 19 (með 40 gráðu horn við ríkjandi vind). Þar sést að hliðarvindsstuðullinn á þeirri braut var á þessum tíma um 18 hnútar. Reyndar vel undir hámörkum flugvélarinnar (25 hnútar), en bíðum þó við, því hámarksgildi hliðarvindsstuðuls er eingöngu nothæft í bestu skilyrðum, og þannig með óskert hemlunarskilyrði. Nú var bestu hemlunarskilyrðum alls ekki fyrir að fara því nokkur úrkoma hafði verið og þó brautin hafi verið sópuð fyrir okkur var ísingarlag á henni. Taktu t.d. eftir uppgefnu lofthitastigi á fyrstu myndinni sem var á þessum tíma +0,8 gráður, sem eru kjörskilyrði fyrir fljúgandi hálku á blautu malbiksyfirborði. Þar með hefðum við farið að daðra hættulega mikið við getumörk flugvélarinnar ef við hefðum að þessu sinni reynt lendingu á braut 19. Þess þurfti sem betur fer ekki því blessunarlega höfðum við neyðarbrautina. Og afsakaðu að ég er ekki eins svalur flugmaður og þú, að ég skuli ekki láta mig, áhöfn mína og farþega hafa það að lenda við getumörk flugvélarinnar þó hagstæðari flugbraut sé í boði (ennþá!).

Til frekari glöggvunar merkir "hliðarvindsstuðull" heildarverkun vinds þvert á flugvél sem er í flugtaki eða lendingu. Ef t.d. stendur á hana um 30 hnúta vindur með u.þ.b. 30 gráðu horni framanvert á hana jafngildir það nærri 15 hnúta vindi þvert á hana, sem þá væri hliðarvindsstuðullinn í því tilfelli. Allar flugvélategundir hafa ákveðið hámarksgildi hliðarvindsstuðuls sem framleiðendur þeirra hafa prófað þær í. En ef raunaðstæður bjóða t.d. upp á skert hemlunarskilyrði eða vindhviður, dugar vitaskuld ekki að miða við þetta hámarksgildi heldur verður að taka mið af hámarks vindstyrk í hviðunum og lækka enn fremur hliðarvindsstuðulinn skv. þar til gerðum töflum ef um skert hemlunarskilyrði er að ræða. Og úr því Þú kýst að agnúast út í notkun mína á neyðarbrautinni í ræðustóli borgarstjórnar, fýsir mig að vita hví þú fettir ekki fingur út í tvær lendingar sem ég átti á henni með forgangsútköll þann 30. des. s.l. Þær hafa báðar orðið fréttaefni í fjölmiðlum, sér í lagi hin fyrri þar sem aðstæður voru þannig að engin önnur flugbraut þar syðra kom til greina vegna of hárra hliðarvindsstuðla. Kannski hentar ekki málstaðnum þínum að draga þessi tilfelli inn í umræðuna? Ég vil nú skýra þetta nánar.

imageHvoru tveggja var einmitt fyrir að fara á Reykjavíkurflugvelli þennan dag, hálli flugbraut og sterkum vindhviðum. En jafnvel þó hemlunarskilyrði hefðu verið með besta móti nægði vindstyrkurinn einn og sér til að aðrar brautir flugvallarins lentu vel út fyrir imagemörk sjúkraflugvélarinnar, sem eru 25 hnúta hliðarvindsstuðull. Vindurinn sem uppgefinn var í flugvallarveðurspá gerði ráð fyrir 240 gráðu vindstefnu með hviðum allt að 45 hnútum, sem samsvara 22 til 23 m/s (sjá mynd). Þegar við komum til lendingar var raunvindur með sömu vindstefnu og spáð hafði verið og vildi þannig til að stóð beint á neyðarbrautina, en hæstu hviður reyndust vera 41 hnútar eða 20 til 21 m/s (sjá mynd, handskrifaðar uppl. Vindur 240 gráður, 31 hnútar, gustar í 41 hnúta). Þó þarf að gæta þess að þrátt fyrir að vindmælingar flugturns hafi gefið til kynna að hæstu hviður undanfarnar tíu mínútur hafi verið 41 hnútar er það engin trygging fyrir því að það haldist og því óábyrgt að gera ekki ráð fyrir möguleikanum sem spáin gerði ráð fyrir, þ.e. 45 hnúta vindi. Sú flugbraut önnur sem komst næst því að snúa við þessum vindi er suðurbrautin, þ.e. braut 19, en munurinn á stefnu hennar og vindsins var nú um 50 gráður. Svo sem sjá má á töflu hér fyrir neðan þar sem fundinn er hliðarvindsstuðull með 50 gráðu stefnumun og vindstyrk upp á 41 hnút (raunhviður) og einnig 45 hnúta (m.v. spá), var um að ræða hliðarvindsstuðul upp á 31 til 34 hnúta á braut 19. Ath. að enn er þá eftir að taka með í reikninginn skert hemlunarskilyrði þar sem gengið hafði á með slydduéljum og brautin því í besta falli blaut og mátti jafnvel gera ráð fyrir ísingu. Eins og áður segir, er hámarksgildi hliðarvindsstuðuls eingöngu nothæft í bestu skilyrðum, og þannig með óskert hemlunarskilyrði. Lending á braut 19 við þessi skilyrði var því út úr kortinu. Neyðarbrautin ein var nothæf við þessi skilyrði. Nú langar mig að vita hvort þú hr. borgarstjóri og læknir og sérfræðingur í flugbrautarvali ert mér sammála um þetta, úr því þú ert þess umkominn að meta fyrir mína hönd hvaða flugbraut flugvallarins er heppilegast fyrir mig að nota hverju sinni.

 

Rétt er að geta þess að þótt tilfelli okkar hjá Mýflugi séu tiltölulega fá þar sem neyðarbrautin er hin eina nothæfa vegna aðstæðna, þá varða þau tillfelli undantekningarlaust bráðatilfelli því við slík veðurskilyrði sem þá er um að ræða er eingöngu flogið með forgangstilfelli. Þá vil ég að lokum gera að umtalsefni þann siðprúða þannkagang þinn sem lýsir sér í þessum setningum úr ræðu þinni:

"Það sem er merkilegt við þessa úttekt, er að hún sýnir fram á að í nær öllum tilvikum hefði verið hægt að lenda á hinum brautunum".

"Hvað er ég að segja með þessu? Jú, að það sé ýmislegt sem bendi til þess, að í sumum þeirra tilvika sem verið er að lenda á þriðju brautinni, væri hæglega hægt að lenda annars staðar".

Tilvitnun lýkur. Nú hef ég áður spurt þig um þetta en þú líklega ekki talið taka því að svara mér, svo ég geri hér eina tilraun enn: Úr því þú getur aðeins fullyrt að í flestum tilfellum hefði verið hægt að lenda á öðrum flugbrautum Reykjavíkurflugvallar, hefði neyðarbrautin ekki verið til staðar, hvað hefðum við þá átt að gera við þá sjúklinga sem ekki falla undir "flest tilfelli"? Því "flest" er vissulega ekki "allt", svo hér sitjum við uppi með afgangsstærð, þessa "fæstu", einhvern vissan fjölda fólks sem þrátt fyrir bráð veikindi eða slys fær ekki þá aðhlynningu sem það þarf til að eiga von um bata eða jafnvel áframhaldandi líf (afsakaðu tilfinningaklámið). Eins og ég gat um ofar hef ég talið saman 11 til 12 tilfelli á árunum 2012 til 2014 þar sem þetta á við, s.s. við hefðum ekki getað skilað þeim sjúklingum suður nema vegna þess að við höfðum neyðarbrautina. Svo, hvað vilt þú að verði gert við þetta fólk í staðin, þegar þú og borgaryfirvöld undir þinni forystu hafið skellt í lás með lokun þessarar flugbrautar? Er þetta kannski svo hverfandi fjöldi að þessi afgangsstærð skipti engu máli í þínum huga? Eða, ef við miðum við uppdiktuðu forsendurnar frá Eflu, sem þú tileinkaðir þér sjálfur í ræðu þinni og segjum að þetta séu aðeins þrjú tilfelli á níu árum, er það nógu lág tala til að það sé bara allt í lagi? Ert þú, Dagur Bergþóruson Eggertsson, tilbúinn að fórna þremur manneskjum á níu árum fyrir hann Mammon vin þinn?

En minn kæri, hafðu ekki stórar áhyggjur af því þó þú slysist svona oft til að mismæla þig í umræðunni um flugvöllinn og sjúkraflugsþjónustuna, ég skal glaður leiðrétta þig eins oft og ég þarf. Hafðu hins vegar hugfast að ef þróun mála verður í samræmi við málatilbúnaðinn þinn og þá þegar afleiðingin verður sú að við munum tapa mannslífi vegna aukins flutningstíma til sjúkrastofnana í borginni, þá skal ég minna þig og raunar alla íslendinga á ábyrgðina þína.

Hafðu það sem best.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Öll rökin hefurðu í málinu, Þorkell Ásgeir, og þakka þér fyrir að leggja á þig þessa miklu, ýtarlegu ritvinnu til að berjast áfram í þessu lífshagsmunamáli í þágu sjúklinga og annarra farþega og þar með þjóðarinnar allrar sem aðstandanda þeirra, sem ella gætu verið hér í lífshættu.

Þakka þér einnig drengilegan málflutning, siðfágaðan og röklegan, og megi Guð gefa þér og þínum samherjum í málinu fullan sigur að lokum.

Jón Valur Jensson, 9.1.2016 kl. 03:44

2 identicon

Mannslíf  samlanda okkar virðast "sum" einskisverð í augum læknisins ef ég skil afstöðu hans rétt. Þorkell þakka þér alla þína  vinnu sem þú hefur innt af hendi í þágu okkar samlanda þinna. Réttsýni og óbeygðar staðreyndir tala sínu/þínu máli. Ísingarskilyrði ganga jafnan yfir svo ekki er víst að þörfin fyrir svo ríka inngjöf verði mikið lengri. :)

Linda (IP-tala skráð) 9.1.2016 kl. 06:26

3 identicon

Þakka þér innilega fyrir þennan pistil Þorkell. Ég hef þurft á ykkar þjónustu að halda, sjúkraflugi frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Og þar áður með sjúkrabíl frá Neskaupstað í fljúgandi hálku. Ég hefði ekki viljað vera í mínútu lengur á þessu ferðalagi. Þess vegna fagna ég allri umræðu um flugvöllinn og neyðarbrautina. 

Sigrún Ásgeirsdsóttir (IP-tala skráð) 9.1.2016 kl. 12:57

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Flottur pistill hjá þér Þorkell.

Reykjavíkurflugvöllur, er öryggismál, samgöngumál og atvinnumál.

Óðinn Þórisson, 9.1.2016 kl. 14:11

5 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Kærar þakkir þið öll fyrir hvatningu og deilingar. Það er sagt að ég sé orðinn athyglissjúkur og ég skal alveg gangast við því, en það er ekki fyrir mína hönd heldur málstaðarins. Hafið það gott.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 9.1.2016 kl. 15:51

6 identicon

Vel gert eins og venjulega "vopnabróðir".  Það væri til mikils að vinna ef DBE fengist til að lesa þetta og svara þessu heiðarlega og hreinskilnislega, en við vitum að það gerir hann eflaust aldrei.  Þar að auki væri MJÖG fróðlegt að vita hvers vegna upptaka fundarins var tekinn af netinu snögglega eftir hún var birt, en satt að segja grunar mig að ástæðan sé sú að þarna sé um mikilvægt sönnunargagn í komandi dómsmáli að ræða.  

"We shall defend our island, whatever the cost may be, we shall fight on the beaches, we shall fight on the landing grounds, we shall fight in the fields and in the streets, we shall fight in the hills; we shall never surrender."

Winston Churchill

Matthías Arngrímsson (IP-tala skráð) 9.1.2016 kl. 17:16

7 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það var og er rétt hjá Thatcher, “The problem with socialism is that you eventually run out of other people's money.”.

Sannleikanum er hver sárreiðastur. Nú þegar Degi tekst áfram, hjálparlaust, að afhjúpa sjálfan sig og verðleggur líf "þessa fólks úti á landi" svona pent, þá á maður engin lýsingarorð til að ná yfir mannfyrirlitninguna sem skín í gegnum þá hugmyndafræði sem gerjast í kollinum á þessum manni.

Það er ekki nema von að hann geti ekki praktíserað það sem hann lærði.

Sindri Karl Sigurðsson, 9.1.2016 kl. 17:39

8 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ekki er mikil von til thess ad Dagur svari thessu, frekar en ödru, thar sem rökfestu, thekkingu og skýra hugsun tharf til. Hann hefur "nebblega" ekkert vit á "einkurum" flugbrautum. Afar gott og vel rökum hladid bréf hjá síduhöfundi. Hafdu thakkir fyrir. Borgarstjóri faer um leid skömm í hattinn fyrir innihaldslaust bladur, um málefni sem hann virdist lítid vita um, annad en thad sem ad honum er rétt, af hagsmunaadilum. 

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan. 

Halldór Egill Guðnason, 9.1.2016 kl. 18:08

9 Smámynd: Gunnlaugur Hólm Sigurðsson

Bjóða honum Coca þá kanski vill hann tala........

Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 10.1.2016 kl. 01:31

10 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka frábæra grein studda gildum rökum

Heimir Lárusson Fjeldsted, 10.1.2016 kl. 05:10

11 Smámynd: Örn Ingólfsson

Vonandi lendir læknirinn sá frægi Dagur aldrei í því að vera fluttur í sjúkraflugi sem þarfnast forgangs! Og þessi flugbraut er búin að vera notuð ansi oft undanfarna áratugi og ef að Dagur veit ekki meira þá ætti hann að hafa samband við Hörð hjá Flugfélaginu Ernir því hann og hans flugmenn hafa farið ótalmörg sjúkraflug þar sem að lífshættan var fyrir hendi en alltaf skilaði Hörður og hans flugmenn sjúklingum heilu og höldnu til Reykjavíkur. Og ef ekki hefði verið fyrir neyðarbrautina þá hefðu margir sjúklingar látist ef hefði þurft að fara til Keflavíkur eða eitthvað annað!

Örn Ingólfsson, 10.1.2016 kl. 06:36

12 Smámynd: Örn Ingólfsson

En það væri þá ágætt að senda læknirinn ásamt skipulagsfulltrúanum í púngaprófið á bátum til að reikna sjálfur út vind, ölduhæð, reikna út stefnu og gera ráð fyrir vindi úti á hafi og inni á fjörðum þá kannski gæti hann gert sér grein fyrir því sem hann kann ekki ásamt að læra að tala ekki niður til fólks!!! Því á sjónum voru svona gúbbar reknir á staðnum!!

Örn Ingólfsson, 10.1.2016 kl. 06:43

13 identicon

Takk fyrir þessa vel rökstuddu og málefnalegu grein. Vonandi verður þetta til þess að læknirinn hugsi sinn gang og hætti að sýna fólki hroka og yfirgang.

Þórir Baldursson (IP-tala skráð) 10.1.2016 kl. 11:50

14 identicon

Vel skrifuð grein sem mætti alveg taka fyrir á fundi borgarstjórnar.
Tel ég þó litlar líkur á því að Dagur eða undirmenn hans í meirihluta borgarstjórnar opni fyrir þetta án hans samþykkis.
Oft læðist að manni sá grunur að miðað við framgöngu og ákafa Dags og t.d. fulltrúa pírata í þessu máli að útkoma þessa máls hafi á einhvern hátt áhrif á persónulega hagsæld þeirra félaga.
Það að Píratar hafi svo gjörsamlega dottið í vasann hjá Degi er líka umhugsunarefni en þeir þurfa kannski að hafa einhvern sem að stjórnar þeim.
Eina vonin til að þessi grein fá svar frá Degi er sú að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eða fulltrúar Flugvallarvina taki þetta upp á fundi borgarstjórnar.
Mikið væri það nú gaman ef að minnihlutinn mundi nú vakna upp og gera eitthvað (svona til tilbreytingar) og leiða þetta mál til lykta.

Þórður Sigfriðsson (IP-tala skráð) 10.1.2016 kl. 12:56

15 identicon

Frábær pistill hjá þér. En því miður er þessi borgarstjóri einn sá versti sem Reykjavík hefur haft. Bullar og ruglar um hluti sem hann hefur ekki hundsvit á, en það á við flesta ef ekki alla vinstri-samfó elítuna eins og hún leggur sig. Ef vel væri skoðað, þá rekur hann borgina ásamt sínu vonlausa liði, sem líknardeild. Bara eftir að gefa út dánarvottorðið. Þá fyrst verður þetta hyski ánægt.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 10.1.2016 kl. 15:35

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það grátlega við þetta mál er það að 70% neyðarbrautarinnar eru inni í brautakerfi hinna brautanna og að vel væri hægt að breyta skipulagi Hlíðarendareitsins þannig að brautin geti verið nothæf áfram en reiturinn nýst engu að síður.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2016 kl. 00:28

17 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Sæl öll og takk aftur fyrir innlit og stuðning.

Rétt er það að ég á ekki von á að drengurinn svari þessu frekar en öðru sem ég hef sent honum. 

Það er líka hárrétt hjá þér Ómar, og hefur verið bent á áður, að það má vel hnika til þessu byggingamagni þannig að flugvöllurinn skerðist ekki. En allar slíkar hugmyndir stranda á blessuðum lækninum. Enda stóð hann líklega einmitt fyrir þeirri ráðstöfun að hæstu hindranirnar rísi sem næst brautarendanum.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 11.1.2016 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband