Sjúkraflug um Hvassahraun, aths.

Nýútkomin skýrsla Rögnunefndarinnar um flugvallakosti annars staðar en í Vatnsmýri, gerir aðeins að umtalsefni áhrif þess á sjúkraflugsþjónustu ef sá kostur verður ofan á sem nefndin mælir helst með, þ.e. Hvassahraun.

Þar á meðal má lesa fullyrðingar um þá viðbót við flutningstíma sem það hefði í för með sér, ef sjúkraflugvélin yrði að lenda þar suður frá. Þar segir að ferðatími með sjúkrabíl frá flugvelli að LSH lengist um 7,5 til 11,5 mínútur frá því sem nú er. Þetta munu vera niðurstöður tímamælinga Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, eftir að hafa sviðsett forgangsakstur frá mislægum gatnamótum Hvassahrauns og Reykjanesbrautar og til bráðamóttöku LSH annars vegar í Fossvogi og hins vegar við Hringbraut, og síðan dregið frá þessu meðalaksturstímann, þ.e. ekki í forgangsakstri, frá núverandi stæði sjúkraflugvélarinnar í Vatnsmýri til sömu staða.

Og áður en ég held lengra með þetta mál ætla ég að vitna í viðtal við slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins, Jón Viðar Matthíasson, frá því í gær sem sjá má á visir.is undir fyrirsögninni "Telur ólíklegt að aukinn ferðatími breyti miklu". Þar er þetta haft eftir Jóni: "...að alla jafna sé ekki talin þörf á forgangsakstri frá flugvellinum þar sem sjúklingar séu þegar komnir undir hendur heilbrigðisstarfsfólks í flutningunum". Þetta orðalag "alla jafna", þýðir því miður ekki "aldrei", heldur aðeins "oftast" eða "Í flestum tilfellum". Enn og aftur sjáum við andstæðinga flugvallarins okkar í Vatnsmýrinni leggja út af þessu með alhæfingu, líkt og þessi fjölmiðill sem hér er vitnað í. Þ.e.a.s. að hér er gert lítið úr afgangsstærðinni, þessum fæstu tilfellum sem út af standa. Því þessi fullyrðing sem höfð er eftir slökkviliðsstjóranum felur beinlínis í sér, og það réttilega, að eftir stendur einhver minnihluti tilfella þar sem forgangsaksturs er þörf. Ég hef ekki haldbærar tölur um fjölda þessara tilfella, enda skiptir það engu máli, heldur hitt að þessi tilfelli eru til staðar, þau koma upp af og til. Og það eru einmitt þessi tilfelli, hversu lítið hlutfall sem þau eru af heildarfjölda sjúkrafluga, sem eiga að skilgreina umræðuna þó svo þessi fréttamiðill reyni hið gagnstæða og alhæfi þau nánast út af borðinu í umfjöllun sinni. Það er staðreynd að endrum og sinnum koma upp hrein neyðartilfelli í flutningi sjúkra og slasaðra, hvað sem líður undirbúningi og viðbúnaði meðan á flutningnum stendur. Fjöldi dæma sanna að síðustu metrar og mínútur flutningsins skipta oft engu minna máli en fyrri stig hans. Jafnvel sjálfur slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins getur ekki talað í kútinn þessa einföldu staðreynd, að sjúkraflutningar í forgangi eru ævinlega í beinu kapphlaupi við tímann, ef viðhalda á sem mestum lífs- og batalíkum þeirra sem fluttir eru. Undirbúningur fyrir og ummönnun sjúklings í flutningi er aðeins til þess fallið að lágmarka lífshættu hans en getur sjaldnast eytt henni.

Þá aftur að aksturstímanum frá Hvassahrauni. Mældur var aksturstími í forgangsakstri, en frá honum dreginn núverandi aksturstími, ekki í forgangsakstri! Ég hefði nú talið réttast, til að fá raunhæfann og sanngjarnan samanburð, að tímamæla einnig forgangsaksturinn frá Reykjavíkurflugvelli til LSH og draga þá niðurstöðu frá hinni mælingunni. Því ég geri ráð fyrir að flestir vilji sjá rauntölur miðað við neyðartilfelli. Þá er engin tilraun gerð til að áætla aksturstímann frá áðurnefndum gatnamótum og að væntanlegum flugvelli í hrauninu, því vart getur annað verið en að sú vegalengd kosti einhverjar mínútur. Hér er ég þegar búinn að draga fram tvö atriði þar sem þessi aukning flutningstímans er vanáætlaður.

Ekki er þó allt búið enn. Í skýrslunni er þessi meinti en vanreiknaði mismunur aksturstímans (7,5 til 11,5 mínútur) lagður réttilega við aukinn flugtíma, því vissulega er Hvassahraun fjær Vatnsmýrinni frá nær öllum landshornum séð. Þessi viðbót nemur einni heilli mínútu! Þannig er lokaniðurstaða skýrslunnar hvað þetta varðar, aukinn flutningstími upp á 8,5 til 12,5 mínútur. Nú er vegalengdin milli miðju flugvallanna í Vatnsmýri og (hins hugsanlega) í Hvassahrauni, u.þ.b. 15 km en ef á að komast yfir það spottakorn á sléttri mínútu er nauðsynlegt að halda hraðanum 900 km/klst. Það er um 2,5 sinnum flughraði hinna hraðskreiðustu flugvéla sem fljúga hér innanlands- og sjúkraflug. Aftur er um að ræða grófa vanáætlun á þessari aukningu flutningstímans sem hér er stefnt að.

Samanlagt tel ég að þessi áætlaða tímaaukning sé vanreiknuð sem nemur 5 til 10 mínútum. S.s. um er að ræða ca korter til tuttugu mínútur. Það munar um minna í forgangssjúkraflutningi. Og þetta á einungis við í bestu akstursskilyrðum! En hér er greinilega illa dulin tilraun gerð til að gera sem minnst úr þessu "smá"atriði og fegra þannig hlut Hvassahrauns í þessari umræðu.

Nú ætla ég ekki að setja mig upp á móti því að orðið verði við tilmælum nefndarinnar um að möguleiki á Hvassahrauni sem flugvallarstæðis (vantrúaður eins og ég er þó) verði skoðaður til hlítar, en ég verð að segja að ef það á að gerast með þeim sömu gleraugum og notuð voru við þessa tímaáætlun sjúkraflutninga, þá er vart að vænta raunsannrar niðurstöðu. M.ö.o. þá eigum við ekki að nota Isavia/Eflu- aðferðina í þessari skoðun því við viljum jú öll raunsanna niðurstöðu, ekki satt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er langur texti með leiðinlegum bakgrunni sem gerir lestur óþægilegan. Vonandi sagðir þú ekkert merkilegt.

Jós.T. (IP-tala skráð) 27.6.2015 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband