Svar til Isavia vegna öryggisskerðingar á Akureyrarflugvelli

Í svarbréfi Isavia sem birt er m.a. á ruv.is og visir.is í kvöld, er því vísað á bug að "ekki sé gætt að öryggismálum á Akureyrarflugvelli". En um leið gengur þetta bréf Isavia út á að réttlæta það að Þjónustustig flugvallarins sé niðurfært meir en hálfan sólarhringinn næstu misserin, með því að veita flugumferð um völlinn aðeins upplýsingaþjónustu (AFIS, Aerodrome Flight Information Service) í stað flugumferðastjórn (ATC, Air Traffic Control). Þetta stemmir engan vegin því það er kristaltært að öryggisstig flugvallarins skerðist verulega um leið og AFIS-starfsmaður mætir til starfa í stað flugumferðastjóra. Samanburður við aðra flugvelli landsins er einskær fyrirsláttur því Akureyrarflugvöllur hefur algera sérstöðu vegna landslagsins umhverfis völlinn auk þess sem þar er langmest flugumferð á landinu utan stóru flugvallanna í Reykjavík og Keflavík. Þess utan flækist málið enn vegna nálægðar flugumferðar um Húsavíkurflugvöll. Lykilþáttur í þessu máli er sú staðreynd að AFIS-menn hafa ekki réttindi til að starfrækja radar sem þjónustar flugvöllinn á Akureyri og hefur reynst stórkostlegt öryggistæki og þarft vegna landslagsins hér.

Í svarbréfi Isavia stendur þetta: "Í nokkrar vikur hefur verið fyrirséð að mönnun flugumferðarþjónustu á Akureyri með eingöngu flugumferðarstjórum verði tímabundið nokkrum vandkvæðum háð. Ástæða vandkvæðanna er að búið var að ganga frá ráðningu í starf sem hafði losnað en áætlanir viðkomandi breyttust sem gerði það að verkum að ekki reyndist unnt að ráða flugumferðarstjóra í stöðuna. Það stendur til bóta með þjálfun nýs starfsfólks..."

Það var ljóst fyrir meira en ári síðan að sú staða sem hér um ræðir myndi losna, en sú "ráðning" í staðinn sem hér er minnst á hafði á sér nokkuð vandræðalegt yfirbragð þar sem viðkomandi hafði þurft að sýna óvenjulega biðlund eftir svörum og staðfestingum í þessu sambandi, til að geta gert sínar persónulegu ráðstafanir varðandi húsnæði, skólavist o.s.frv. og hætti að lokum við eins og fram kemur. Það var síðast liðið sumar. Vissulega stendur nú til bóta "með þjálfun nýs starfsfólks" en ráðning þess varð ekki fyrr en í lok síðasta árs svo óhætt mun að segja að "nokkrar vikur" hafi liðið þar á milli, að ekki sé talað um tímann síðan þessi þróun varð fyrirsjáanleg. Svo lái okkur það hver sem vill þó þetta hafi leitt af sér sterkan grun um að það hafi í raun alltaf staðið til að troða upp á okkur AFIS-starfsmönnum (með fullri virðingu fyrir þeirri starfstétt) því þeir þiggja umtalsvert lægri laun en flugumferðastjórar, enda með aðeins brot af þeirra þjálfun, réttindum og ábyrgð.

Isavia talar um að ekki verði unnt að manna allar stöðurnar í turninum á Akureyri, á meðan þjálfun nýliða stendur yfir, með aðeins þeim þremur flugumferðastjórum sem eftir verða hér á meðan. Þó er það þannig að þau þrjú hafa lagt fram tillögu um aukið framlag sitt og þar með sölu á orlofsdögum, meðan þetta ástand varir. Þetta er ítarlega útdærð tillaga þar sem tekið er fullt tillit til reglna um vaktatíma og sett fram til að freista þess að halda hér uppi ítrasta öryggisstigi þar til fleiri kollegar þeirra bætast í hópinn. Óhætt er að segja að það styrki áðurnefndan grun okkar enn frekar að Isavia skuli alfarið hafna þessum tillögum. En "lausnin" á eftir sem áður að felast í bakvöktum þessara flugumferðastjóra, ef og þegar aðstæður kalla eftir radarþjónustu. Þannig að þó reynt verði að haga þessu þannig að flugumferðastjórar standi vaktina á annatíma yfir daginn en AFIS-vaktin um kvöld og nætur, þá gæti sá flugumferðastjóri sem á að mæta næstur orðið að mæta um miðja nótt fyrir radarleiðsögn og taka síðan ellefu tíma hvíld, og hvað þá? Er þá ekki AFIS-maðurinn lentur á dagvaktinni með alla traffíkina sem þá er? Engu er líkara en þetta fyrirkomulag sem Isavia er að kynna í bréfi sínu státi af þessari næturbakvakt upp á punt því ekki sé gert ráð fyrir að bakvaktin gæti verið kölluð út? M.ö.o, hvað er unnið með þessu í samanburði við tillögur þeirra um fulla mönnun flugumferðastjóra? Það sem meira er, þá liggur fyrir að þeir flugumferðastjórar sem áður störfuðu á Akureyri og hafa flutt suður hafa lýst sig reiðubúin til að hlaupa hér undir bagga meðan þetta ástand varir. Fyrirsláttur Isavia um að þau megi ekki missa sín fyrir sunnan er svolítið hjákátlegur þegar litið er til þess að það hlýtur að vera einfaldara að leysa slíkt á 50 manna vinnustaðnum þar syðra heldur en á þessum fjögurra til fimm manna vinnustað hér. Og ef þetta leggst saman við tillögu hinna þriggja um aukið vinnuframlag, þá er vandséð þörfin til að nota AFIS-menn ríflega hálfan sólarhring á móti þeim.

Þegar litið er til þess að fyrir liggur áhættumat sem sýnir fram á óásættanlega áhættu af þessari þjónustuskerðingu, auk þess sem þjónustusamningur milli Isavia og innanríkisráðuneytis um starfrækslu flugvalla, flugleiðsögu og flugumferðaþjónustu kveður á um að á Akureyri sé ATC-þjónusta, þá hefði maður haldið að Isavia væri nokkuð í mun að taka tilboði flugumferðastjóranna um að láta enda ná saman svo ATC-þjónustan vari allan sólarhringinn, eða alla vega sem mest af honum. En á fundi sem haldinn var í dag (mánudag 1. feb.) í ráðhúsi Akureyrar í boði bæjarstjórnar, fékkst ekkert svar frá fulltrúa Isavia, við ítrekuðum spurningum um það hvers vegna þessu tilboði væri ekki tekið til að stytta eins og unnt væri og helst eyða þeim tíma sem styðjast þyrfti við AFIS-þjónustu. Hins vegar afhjúpaði hann rækilega með hvaða hugarfari hann sat þennan fund þegar talið barst að þessum þjónustusamningi. Það er nefnilega þannig að sá samningur gildir aðeins almanaksár í senn en samkvæmt "venju" dregst endurnýjun hans svolítið fram á nýja árið svo á þessum tímapunkti er enginn nýr samningur kominn fyrir 2016. Og þegar ég leyfði mér að benda á ákvæðið um ATC-þjónustu Akureyrarflugvallar, þá sagði fulltrúi Isavia þessi fleygu orð: "Það er enginn samningur í gildi núna"! Og þetta sagði í raun allt um framgöngu Isavia.


mbl.is Mótmæla skertri þjónustu á Akureyrarflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að það hafi verið radarvöktun á Akureyrarflugvelli sem bjargaði mínu lífi og vinnufélaga minna, þegar flugstjórinn stefndi flugvélinni á fjallið Kerlingu í stað flugvallar og flugturninn kallaði í talstöðina abort abort abort og þotann flaug beint upp með hreifla í botni.

Baltic air 25.10.2013 frá keflavík til Akureyrar

Dagur Bragason (IP-tala skráð) 4.2.2016 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband