Nú skal manninn reyna!

Ég kaus ekki núverandi forseta þjóðarinnar í það embætti. Forsendurnar fyrir því voru aðallega tvær. Annars vegar líkaði mér alls ekki hvað hann gerði lítið úr þeirri baráttu sem þjóðin okkar varð að heyja í þrígang til að öðlast full yfirráð yfir landgrunni okkar og auðlindalögsögu. Hins vegar þykir mér ævinlega tortryggilegt þegar frambjóðendur til þessa embættis reyna að hylma yfir fortíð sína, eins og með því að láta gömul ummæli sín í netheimum hverfa. þeir sem ekki kannast við eigin ummæli né draga þau öðrum kosti til baka með afsökunarbeiðni ef þurfa þykir, eiga að mínu mati lítið erindi í embætti æðsta þjóðhöfðingja landsins.

En Guðni karlinn hefur til þessa vaxið í þessu embætti og reynst yfir höfuð farsæll. Ekki hnökralaus en í heildina farsæll. Aðall hans er alþýðleikinn, hann samsamar sig fólki og tekur sig fjarri því hátíðlega. Hann hefur öðlast vaxandi vinsældir fyrir vikið og það verðskuldað. En til þessa hefur ekki reynt á mannin í embættinu eins og forveri hans fékk að reyna. Enn hefur ekki reynt á það hvort hann, eins og Ólafur Ragnar Grímsson, stendur með þjóð sinni og svarar kalli hennar þegar myndast hefur gjá milli hennar og þingsins. Þetta gæti breyst fyrr en síðar því nú er það að gerast að hyldýpisgjá er orðin milli þings og þjóðar í einu mesta hagsmunamáli hennar síðan Icesavegjörningurinn reið yfir. Sú stórundarlega staða er uppi að ríkisstjórnarflokkarnir hafa allir þrír snúist gegn grasrótarhreyfingum sínum, málefnaskrám og landsfundarsamþykktum í þessu tiltekna máli. Um leið hafa þeir snúist gegn kjósendum sínum og meirihluta þjóðarinnar eins og skýrt kemur fram í skoðanakönnunum um málið. Og eins og þingmaðurinn Ólafur Ísleifsson bendir á í Mbl-grein sinni í dag, "Orkupakkinn fer um hendur forseta Íslands", stefnir í að málið sem þar um ræðir endi á borði forseta. Því þó hér sé á ferðinni þingsályktunartillaga í stað frumvarps, er jafnframt um að ræða milliríkjasamning og því mun forseti verða að ljá málinu undirskrift til að það öðlist gildi. Hann Guðni Thorlacius Jóhannesson forseti mun því finna sig í lykilstöðu varðandi framvindu þessa máls innan skamms ef að líkum lætur.

Nú ætla ég ekki að reifa málið sem um ræðir sem slíkt heldur aðeins benda á nokkur atriði er varða hlutverk forseta í málum sem þessum. Áður en Ólafur greip til málskota sinna birtust ummæli ýmissa málsmetandi manna þess efnis að ef til slíks kæmi hjá forseta væri hann að brjóta hefðarrétt sem fælist í því að málskotsrétti hefði fram að því aldrei verið beitt, og hefðarréttur fæli í sér lagalegt gildi. Annað eins bull og þetta kom m.a. frá fyrrum hæstaréttardómara þrátt fyrir að eitt af allra fyrstu grundvallaratriðum sem byrjendur læra í lögfræðinni er alger forgangur stjórnarskrárinnar (hvar málsskotsrétturinn skipar sinn sess í 26. grein) og jafnframt að hefðarrétturinn skipar eitt af neðstu sætum á forgangslista þessara fræða. Ólafur beitti þessum stjórnarskrárvarða rétti þjóðarinnar (því mun réttara er að tala um málskotsrétt þjóðarinnar fremur en að hann sé forsetans) í þrígang og sætti engum viðurlögum fyrir það, enda var hann vitaskuld að vinna vinnuna sína og virkja lýðræðið í sinni tærustu mynd. Þannig rættist það sem hann sagði í kjölfarið, að stjórnarskráin "er sá rammi sem hélt!"

Ég efa ekki að þeir sem styðja þingið og ríkisstjornina þarna hinum megin við gjána, munu benda á fordæmi hins gagnstæða, sem vissulega er fyrir hendi. Annar fyrrum forseti, Vigdis Finnbogadóttir, beitti aldrei 26. grein stjórnarskrárinnar í sinni embættistíð, þó vissulega hafi reynt á þann möguleika. Þó kom fyrir að hún tæki sér umþóttunartíma en niðurstaða hennar var þó ætíð sú að grípa ekki fram fyrir hendurnar á sitjandi stjórnvöldum. Þó ég hafi verið andvígur þeirri afstöðu hennar, get ég ekki annað en virt hana því hún var í þessu algerlega samkvæm sjálfri sér. Vigdís gerði nefnilega kjósendum sínum fulla grein fyrir þessari afstöðu sinni fyrirfram, strax í sinni kosningabaráttu. Hún sagði: "Ég er þingræðissinni"! Það fór því aldrei á milli mála hvernig hún myndi umgangast þennan málskotsrétt. Og með þetta í farteskinu náði hún kjöri. Kjósendur höfðu þessa afstöðu hennar alltaf á hreinu.

Guðni Th. Jóhannesson hefur hins vegar enga slíka afsökun. Hann kvað aldrei upp úr með það í sinni kosningabaráttu, að hann væri þingræðissinni, líkt og Vigdís gerði. Þvert á móti sló hann úr og í og gaf eitthvað í skyn, t.d. aðspurður um hvernig hann myndi bregðast við hliðstæðu Icesave-málsins, ef reynt var að fá upp afstöðu hans í þessu. Það þýðir einfaldlega að hann getur með engum rétti vikist undan að virkja málskotsrétt þjóðarinnar, ef ríkir hagsmunir og vilji almennings knýja á um það. Og það er ekki hans að meta hvort hagsmunir þeir sem tekist er á um hér eru nógu miklir til að réttlæta þetta. Þjóðin hefur þegar gert það. Allur vafi um slíkt á enda að vera metinn henni í vil. Forsetinn er fulltrúi þjóðarinnar en ekki stjórnvalda eða erlendra ríkjasambanda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég segi það sama. Ég kaus ekki Guðna og hafði ekki trú á honum í þetta embætti. Þótt maðurinn sé kannske sæmilegur fræðimaður, þá er ekki þar með sagt, að hann geti verið forseti. Til þess þarf annað og meira. Ég hef verið að segja, að Ólafur Ragnar hefði þurft að vera á Bessastöðum í dag. Honum einum hefði verið treystandi að stoppa orkupakkann og taka slaginn við þingið um hann. Guðni er forseti, sem Rúv valdi handa þjóðinni. Það reynist aldrei vel, þegar hin og önnur fyrirtæki út í bæ eru að velja forseta fyrir þjóðina. Ég hef enga trú á Guðna í eitt eða neitt, þegar að álitamálum kemur, og treysti honum ekki til þess að standa með þjóðinni á úrslitastundum, eins og Ólafur Ragnar gerði. Það er bara í fótboltaleikjum, sem Guðni stendur með þjóðinni. Búið.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.7.2019 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband