"Mýflug 77, heimil lending braut 06".

Ég fæ ekki oft þessa heimild því þessi flugbraut Reykjavíkurflugvallar (eða braut 24 sem er þó sama brautin í gagnstæða stefnu) er sú stysta af þeim þremur og minnst notuð þess vegna. En þegar ég þarf að nota hana, þá stendur sérstaklega á. Þessi braut nýtist nefnilega þegar kári blæs af hvað mestum móð, annað hvort af norðaustri eða suðvestri. Slíkt gerist af og til. Og þá er veðurlag gjarnan þannig á landinu að fréttnæmt þykir, aðvaranir um storm gefnar út af veðurstofunni o.s.frv. Og þegar hvössustu byljirnir ganga yfir Faxaflóasvæðið, þá blása þeir semsagt oft af norðaustri eða suðvestri, sem einmitt gerir þessa gömlu, litlu flugbraut nauðsynlega. Því án hennar væri þá ekki hægt að lenda eða taka á loft í borginni, og raunar hvergi á suðvesturhorni landsins. Þessu er sýndur sá skilningur af núverandi borgaryfirvöldum og innanríkisráðherra að nú á að láta þessa flugbraut víkja og troða í hennar stað 3000 manna íbúðarhverfi í litlum krika, sem þá verður til inn af Skerjafjarðarhverfinu. Það þarf nefnilega að "þétta byggðina". Það er víst mikilvægara en að flugstarfsemi geti áfram farið fram af jafnmiklu öryggi í Vatnsmýrinni eins og hingað til. Nú verð ég  biðja lesendur forláts á "tilfinningaklámi", áður en lengra er haldið, vegna þess að þeir farþegar sem ég flyt til borgarinnar í vinnunni minni, eiga oftast brýnna erindi þangað en flestir aðrir flugfarþegar. Erindi þeirra er að komast í hjartaþræðingu, fæðingarhjálp eða nýburagjörgæslu, meðferð vegna alvarlegra meiðsla og ýmislegt fleira í þeim dúr. Og mikilvægi þessara aðgerða rýrnar ekkert þó kári blási hraustlega hvort heldur það er af norðaustri eða suðvestri. Það hvað þessum kúnnum mínum liggur á minnkar ekki heldur. Þess vegna er ómetanlegt að geta lent á braut 06 eða 24, þegar svo ber undir. Stundum kemur sér einnig vel að hafa val um þessa braut vegna ókyrrðar, en ég og kollegar mínir þurfum stundum að leggja okkur fram um að forðast hana, til að hlífa kúnnum okkar sem t.d. hafa hlotið alvarleg beinbrot. Á síðustu vaktatörn minni kom ég suður með konu í barnsnauð og stóð þannig á að allhvass vindur stóð af austri og braut í notkun var 13, þ.e.a.s. sú sem stefnir í suðaustur. En þar sem vindstefnan var mitt á milli brauta 06 (NA) og 13 (SA) kaus ég og fékk að nota gömlu brautina (06) vegna þess að aðflugið að henni bauð upp á mun kyrrara loft og þ.a.l. mýkra flug, heldur en gjarnan vill verða í aðflugi að 13 í þessari vindátt. Nú hef ég ekki reynslu af því að vera óléttur (þó annað megi virðast að sögn sumra) og þaðan af síður af því að hafa misst vatnið, sem mér skilst að geti skapað óþægindi fyrir bæði móður og barn, en ég held samt að þetta val mitt hafi verið til bóta fyrir þau tvö í þessu tilfelli. Og nú skora ég á þær Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, Hildi Sverrisdóttur, Áslaugu Maríu Friðriksdóttur, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og aðrar kynsystur þeirra í hópi "þéttinga byggðarsinna" að reka þetta ofan í mig ef ég fer hér með fleipur, ef þeim finnst að engu hefði breytt þótt ég léti hina verðandi móður hristast með krílið sitt inni í sér, dempunarlaust, niður lokaaðflugið að braut 13. 

Ýmis hugtök gerast teygjanleg þessi misserin og má sjá nýjasta dæmið um það í þessu svokallaða samkomulagi sem gert var milli ríkis og borgar um flugvöllinn nýverið. Þar segir borgarstjórinn að "flugvöllurinn muni verða starfræktur í núverandi mynd til 2022" skv. þessu samkomulagi. Þessi "núverandi mynd" er þó með þessum annmörkum, að braut 06/24 á að víkja strax á þessu ári fyrir tilstuðlan hans sjálfs og m.a. þeirra kvenna sem ég minntist á hér að ofan,  en þrjár þeirra bjóða sig fram í prófkjöri xD sem fram fer í dag. 

Góða helgi.

mbl.is Ný 800 íbúða byggð í Skerjafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Jóns Gnarr, borgarstjóra.

Sæll Jón. Varstu nokkuð nýkominn frá Denver þegar þú veittir viðtalið við Kjarnann um daginn? Forláttu að ég spyrji, en þú lýstir einhverju sinni hrifningu á sérstökum búllum þar í borg og það kæmi svo vel saman við það sem haft var eftir þér í þessu viðtali. Mér þykir í fyrsta lagi leitt að sjá að þú skulir ekki virða lýðræðið meir en þú gerir, því þú hefur valið að gera samfylkingarisma að þínu viðhorfi til þess. Þú ert nú orðinn einn af þeim stjórnmálamönnum sem hugsa þetta svona: Jújú mikil ósköp, ég virði að sjálfsögðu lýðræðislegan rétt fólksins til að tjá hug sinn um þetta mál, en ég ætla nú samt að ráða þessu! Og til að réttlæta vanvirðingu þína gagnvart 70 þúsund manna undirskriftalista ásamt afgerandi niðurstöðum þriggja nýlegra skoðanakannana um flugvallarmálið, setur þú fram hreinar lygar varðandi framkvæmd sjúkraflugsþjónustunnar og gjaldfellir um leið það sem þú segir annars staðar, að þú hafir haft fyrir því að kynna þér þetta mál og takir mið af þekkingu sérfræðinga í öllum málum og blablabla... Sem sagt, það var þá einhver "þekkingaröflun" sem varð til þess að þú blaðraðir þetta um sjúkraflugið:

"Það má hugsa þetta svona: Þú ert á Flateyri og ert að vinna þetta viðtal. Svo færðu einhver eymsli í magann og ákveður að hringja í lækninn á Ísafirði. Hann er í skírnarveislu og segist ætla að renna á þig. Hann klárar kaffið sitt og kleinuna sína og er snöggur til þín. Það tekur hann kannski hálftíma. Hann greinir þig og segir þér að þú sért með botnlangakast og að það þurfi að skutla þér suður í aðgerð. Hann hringir á sjúkrabíl sem er ekki nema annan hálftíma að koma og svo er hringt til Akureyrar, þar sem sjúkraflugið er. Þeir hafa klukkutíma til að undirbúa sig áður en þeir fara í loftið. Þú bíður eftir þeim í sjúkrabílnum á meðan. Svo kemur flugvélin frá Mýflugi og flýgur með þig til Reykjavíkur. Þarna eru líklega liðnir 4-5 klukkutímar að lágmarki áður en þú lendir á Reykjavíkurflugvelli og þér finnst þú eðlilega vera helvíti kvalinn. alveg að drepast. Þú ert drifinn upp á Landspítala og inn á skurðstofu og það síðasta sem þú manst er að þú sérð flúrljósin á skurðstofunni. Síðan vaknar þú og læknirinn heldur í hendina á þér og segir að það hefði ekki mátt muna einni mínútu, þá værir þú ekki hérna í dag. Og þú hugsar að þú eigir Reykjavíkurflugvelli líf þitt að þakka. En þetta er ekkert þannig. Þetta er ákveðin dramatísk tilfinningasemi."

Í allri þessari lygalangloku gerir þú lítið úr læknum og áhöfnum sjúkrabíla, berð Mýflugi á brýn að fara langt út fyrir samningsbundinn viðbragðstíma og meira en tvöfaldar þann rauntíma sem hefði átt við í dæminu sem þú setur upp. Ef þetta er ekki atvinnurógur, hvað viltu þá kalla þetta? Þær manneskjur sem hafa komið fram með reynslusögur sínar, þar sem engu mátti muna til að lífsbjörg þeirra yrði að veruleika, þær sögðu ekkert nema blákaldann veruleikann. Hliðstæð dæmi eru mörg, en í niðurlagi langlokunnar þinnar lýgur þú upp á þetta fólk að þau ljúgi til um þessi örlög sín ("En þetta er ekkert þannig"). Það hefur áður gerst að maður í þínu núverandi embætti varð að víkja úr því, hafandi orðið uppvís að lygum. Finnst þér ekki við hæfi, sérstaklega í ljósi þess að þú sækist nú eftir að gegna þessari stöðu áfram, að sýna embættinu þá virðingu að læra af þeirri nöturlegu reynslu? Og finnst þér ekkert öfugsnúið af manni sem temur sér þá framkomu sem þú sýnir með þessu viðtali, að hann skuli sjálfur í sífellu vera sífrandi um einelti?

Eitt að lokum, má Eiríkur bæjarstjóri hér á Akureyri fara að vænta svars frá þér, við bréfinu sem hann sendi þér síðasta vetur?

Með bestu kveðjum frá Akureyri,

Þorkell Ásgeir Jóhannsson,

flugstjóri hjá Mýflugi og stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri.


Mótrökin sem vantaði.

Þór Saari finnst ekkert að marka undirskriftarsöfnunina á lending .is, úr því við sem að henni stöndum, Hjartað í Vatnsmýri, leyfum okkur að undanskilja rök flugvallarandstæðinga í umfjöllun okkar á vefsíðunni (Flugvallarmálið og stóra samhengið, Fbl. 31.8). Þar sem við vorum svona glámskyggnir við gerð síðunnar, þá er ekki úr vegi að bæta úr því hér með. Byrjum t.d. á nokkrum slagorðum sem fræg hafa orðið, m.a. frá samtökunum um Betri Byggð því þau frómu samtök hafa haft sig einna mest í frammi í þessu máli og Þór hampar þeim einmitt í grein sinni:

"Það er ábyrgðalaust og siðferðilega rangt að flytja sjúklinga í vængjuðu flugi. Alla bráðveika sjúklinga á að flytja með þyrlum". (Fjölmargar blaðagreinar Arnar Sigurðssonar og Gunnars H. Gunnarssonar.) Á þessu byggist sú "röksemd" að engin þörf sé á flugvelli í borginni vegna sjúkraflugs, heldur aðeins þyrlupöllum við spítalana.

"Sjúkraflugsþjónustan eru þröngir sérhagsmunir". (Sömu einstaklingar í mbl-grein "Bábiljum svarað", 8. janúar 2010).

"Í lang flestum tilfellum er engin hætta á ferðum fyrir sjúkling þótt ferðatíminn lengist, m.a. ef krækja þarf með sjúkraflugi til Keflavíkur". (Áðurnefnd samtök oftsinnis, ásamt Degi B. Eggertssyni en hann lét þessi orð falla á ráðstefnu HR þ. 19 janúar 2012).

"Aðeins er þörf á að viðhafa flýti fyrir fyrstu aðkomu á vettvag slysa eða bráðra veikinda, en eftir fyrstu umönnun þar liggur ekkert á". (Samtök um B.B. enn og aftur og einnig Dagur B. Eggrtsson á sömu ráðstefnu og nefnd var hér að ofan).

Eitt til viðbótar frá Degi B. Eggrtssyni, á kynningarfundi um nýt aðalskipulag Reykjavíkur þ. 30 maí s.l: "Það hefur aldrei verið sannað að nálægð flugvallarins við sjúkrahús bjargi mannslífum".

"Verðmæti landsins í Vatnsmýri nemur hundruðum milljarða". (Tölur að vísu nokkuð mikið á reiki. Samtök um B.B. ítrekað. Til glöggvunar kostuðu 11 hektarar lands í Skerjafirði í nýlegri sölu, 400 milljónir).

Í Vatnsmýrinni á að rísa 70 þúsund manna byggð í stað flugvallarins. (Samtök um B.B. Nýja aðalskipulagið gerir ráð fyrir um 20 þúsund manna byggð þar).

"Dreifð byggð skapar offituvandamál". (Fulltrúi samtakanna um B.B. á kynningarfundi um skoðanakönnun á vegum F-listans, í Norræna húsinu haustið 2005).

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs, gaf þetta út í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2, 26.8. s.l., eftir að hafa sagst skilja áhyggjur fólks vegna sjúkraflugsins: "...en málið er bara það að fyrir Reykjavík, þá er mjög mikilvægt að þétta borgina. Og þetta er ofboðslega mikilvægur hluti í því og eiginlega órjúfanlegur hluti þess að Reykjavík verði þétt og góð borg".

Og Þór Saari leggur sjálfur til nokkur "rök" í grein sinni, fyrst þetta um í hvaða röð honum finnst borga sig að vinna þessi mál (en hér þarf að hafa í huga að skv. aðalskipulagi því sem nú er í auglýsingaferli verður flugvöllurinn eyðilagður eftir þrjú ár): "....fyrsta skrefið er breyting á aðalskipulagi þeirra sem fara með skipulagsvald á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborgar. Næstu skref eru svo útfærsluatriði sem vinnast í ákveðinni röð í samvinnu borgaryfirvalda og ríkisvaldsins, þar með talið hvort annar flugvöllur verði byggður á Hólmsheiði, flugið flutt til Keflavíkur, hvernig samgöngur verða tryggðar við nýja staðsetningu flugvallar og síðast en ekki síst með hvaða hætti sjúkrafluginu verður fyrirkomið."

"Háværustu talsmenn óbreytts ástands eru sérhagmunaöfl af ýmsum toga svo sem flugmenn, flugumferðarstjórar, flugáhugafólk, einkaflugsgeirinn og nokkrir alþingismenn sem nota innanlandsflugið eins og strætó til og frá vinnu." (Þór Saari, sama grein).

"Ýmislegt bendir einnig til þess að fingarför ritstjóra Morgunblaðsins séu á málinu og væri það vægast sagt kaldhæðni örlagana ef það kemur upp úr dúrnum að vel meinandi landsbyggðafólk hefur nú með undirskrift sinni stutt Sjálfstæðisflokkinn til valda í Reykjavík með Friðrik Pálsson sem borgarstjóraefni og þar með gleypt við smjörklípu sem á sér sennilega enga hliðstæðu." (Þór Saari, sama grein).

"Það að taka svona einstök dæmi um hugsanlegar afleiðingar þess að færa flugvöllinn og þess vegna eigi hann að vera þarna um aldur og ævi er bara asnalegt og ómálefnalegt...". (Þór Saari í færslu á fésbók 19.8 s.l.).

"Þetta mál þarf að ræða af skynsemi og leysa af skynsemi en ekki með svona vitleysistali um einstaka flutninga á fólki". (Þór Saari í færslu á fésbók 19.8 s.l.).

Fréttastofa Stöðvar 2 lagði svo nokkuð til málanna s.l. mánudag þegar stuðst var við þessa tilvitnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjúkraflug, sem kom út þá um daginn: "Mikilvægt er að hafa í huga að þó mínútur geti skipt sköpum í sjúkraflutningum hefur aðbúnaður sjúklinga og aðstaða lækna, sjúkraflutningamanna og aðstandenda veruleg áhrif." (skáletrun mín). Með þessari klausu taldi fréttastofan sannað að framburður okkar sem stöndum að undirskriftasöfnuninni, um að mínútur geti skipt sköpum í sjúkraflugi, væri rangur sbr. fyrirsögn fréttarinnar: "Ósamræmi er í málflutningi talsmanna flugvallarins í Vatnsmýri ef litið er til nýútkominnar skýrslu ríkisendurskoðunar um sjúkraflug."

Ég vona að mér fyrirgefist þó eitthvað vanti upp á að þessi yfirferð á mótrökum gegn flugvellinum sé tæmandi , en þetta var svona það helsta sem rifjaðist upp við ritun þessarar greinar. Svona fyrir utan nýyrðið sem nú loðir við okkur sem höfum m.a. stutt rökin okkar um mikilvægi sjúkraflugsins; "tilfinningaklám".


mbl.is Framtíðarstefnu skortir í sjúkraflugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smekkur Egils.

Eins glæsilega og undirskriftasöfnun okkar hefur gengið virðast sumir eiga svolítið bágt vegna hennar þessa dagana.

Egill Helgason segir í pistli í kvöld (28.8):

„Áróðursherferðin sem er farin fyrir Reykjavíkurflugvelli undir því fororði að mannslífum sé teflt í hættu er á mörkum hins smekklega“.

Og þá skyldi maður ætla að framhald þessa pistils gefi tóninn um eitthvað smekklegra. Það má svo sem vera að ég hafi numið inntak þessa hugtaks eitthvað skakkt, því alla vega höfum við, ég og Egill, ekki sama skilning á því hvað telst vera smekklegt. Stuttu eftir þennan inngang hans segir:

„Ef sjúkraflug lenti ekki í Vatnsmýri, þyrftu menn að finna aðra leið til að láta það ganga upp. Í samfélagi sem vill halda uppi almennilegri heilbrigðisþjónustu yrði það auðvitað gert“

Nú held ég að við séum samfélag „sem vill halda uppi almennilegri heilbrigðisþjónustu“, þ.e.a.s. flestir aðrir en þorri borgarfulltrúa og skipulagsyfirvöld borgarinnar. En nýverið birtist auglýsing frá Reykjavíkurborg um nýtt aðalskipulag hennar þar sem gert er ráð fyrir því að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri um leið og LHS er fest í sessi við hringbrautina, en hvergi nokkurs staðar er að finna „aðra leið til að láta það (sjúkraflugið innsk.) ganga upp“, hvorki í téðu aðalskipulagi né yfir höfuð nokkurs staðar. En Egill hampar þó síðar í þessum sama pistli „lausninni“ á þessu með tilvitnun í lækni við Háskólasjúkrahúsið í Osló:

„Það eru um 48km frá Keflavíkurvelli inn á Landspítalann og aðeins styttra á Landspítalann í Fosvogi (gamla Borgarspítalann)“.

Og bætir við skömmu seinna:

„Það tekur vart meira en 25 mín að keyra með sírenum með sjúkrabíl frá Keflavík og enn styttri tíma með þyrlu“.

Og áður en kom að þessari tilvitnun í doktorinn í Osló mátti einnig sjá þetta frá Agli:

„Í bráðatilvikum eru þyrlur, mannaðar læknum, náttúrlega miklu betri kostur en flugvélar sem hafa takmarkaða kosti bæði til flugtaks og lendingar“.

Þetta á líklga að heita smekklegt hjá Agli enda blæs hann af hreinni smekkvísi á allar staðreyndir sem bornar hafa verið á borð í þessu sambandi.

Kannski hefur maðurinn ekki séð nýlega fésbókarfæslu sem þó fékk gríðarleg viðbrögð, „like“ og deilingar sem líklga slógu öll met, en reyndar einnig hina furðulegustu gagnrýni, m.a. frá fyrrverandi (blessunarlega) alþingismanni. Þessa færslu átti faðir drengs sem fæddist fyrir fimmtán árum með hjartagalla og lýsti hann því í stuttu máli hvernig tókst að bjarga barninu á fyrstu klukkustundum þess í þessum heimi. Það fól m.a. í sér að flytja þurfti drenginn með sjúkraflugi suður til Reykjavíkur og áfram til LHS við Hringbraut þar sem gera skyldi á honum bráðaaðgerð. Sú aðgerð varð reyndar bráðari en til stóð því svo hætt var barnið komið að skera varð það strax í anddyri sjúkrahússins! Þetta er eitt þeirra dæma sem sýna hvað við sem stundum sjúkraflutninga, erum oft í miklu kapphlaupi við tímann. En kannski hefur Egill einmitt séð þessa frásögn og er þá í hópi þeirra sem finnast svona frásagnir „á mörkum hins smekklega“. Og kemur fyrir vikið með hina „smekklegustu“ lausn á vanda þeim sem landsmenn standa frammi fyrir þegar ekki verður lengur unnt að lenda sjúkraflugvélum í borginni, hvorki með bráðatilfelli né önnur, nefnilega Keflavík! Og jújú, vissulega eru ekki nema 48 km frá Keflavíkurflugvelli á Lansann og vera má að slökkviliðsmenn syðra komist þá vegalengd á 25 mínútum (með sírenum nefnilega), og vissulega yrði þyrlan enn sneggri þarna á milli. En nú ætla ég að vera svo ósmekkvís að benda á fáein aukaatriði í þessu sambandi og byrja á að vitna í vefsíðuna lending.is:

Gerð er krafa um jafnþrýst farþegarými í sjúkraflugi, til verndar sjúklingum með t.d. loftbrjóst, heilablæðingu eða höfuðmeiðsl. Engin þyrla er þannig útbúin. Engin þyrla hefur afkastagetu til að halda lágmarkshæðum í blindflugi yfir hálendi Íslands, fari svo að annar tveggja mótora hennar bili. Engin þyrla nær viðlíka flughraða og sjúkraflugvélar okkar og er munurinn u.þ.b. tvöfaldur. Þær eru þ.a.l. óviðunandi flutningstæki í sjúkraflugi. Kostnaður við útgerð þyrlu er margfaldur, miðað við sambærilega flugvél að stærð og burðargetu. Þyrlur eru stórkostleg björgunartæki á rúmsjó eða á hálendi fjarri flugvöllum. En þær skortir hraða, hagkvæmni, afkastagetu í blindflugi og jafnþrýstiklefa til að geta tekið við sjúkraflugsþjónustu hér innanlands.

Þá er þess einnig að geta að þyrlur eru mun viðkvæmari fyrir ísingu á skrúfublöðum sínum en flugvélar á vængjum sínum. Þetta helgast af þeim mikla hraða sem þyrilblöðin fara á gegnum loftið í snúningi sínum, íssöfnunin er að sama skapi hraðari. Það vill síðan þannig til að þau veðurskilyrði sem valda ísingu á loftförum eru þau hin sömu og hamla ferðum bíla, jafnvel með sírenur, vegna þæfings eða hálku svo sömu veðurskilyrði geta hæglega aftrað báðum þessum farartækjum. Þá er það misskilningur að treystandi sé á að þyrlur geti lent á þar til gerðum pöllum inni í byggð í öllum skilyrðum. Þær þurfa, jafnt eins og önnur loftför, að fljúga blindflug þegar þannig viðrar og búnaði til blindaðflugs, sem og aðflugsferlum, verður ekki komið við í byggð eins og við Hringbrautina eða í Fossvogi. Þá geta sviptivindar að auki skapað hættu við slíkar aðstæður í slíku umhverfi. En sorry, það er auðvitað eins og hver önnur smekkleysa að draga þetta allt fram. Og ekki batnar það þegar ég fullyrði, og tala af margra ára reynslu í sjúkraflugi, að flugvöllurinn bjargar mannslífum einmitt vegna nálægðar sinnar við spítalann, en verði hann tekinn af okkur munu tapast mannslíf af þeim sökum.

Fyrirgefið mér smekkleysuna.


mbl.is Mikilvægt fyrir þróun lýðræðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband