Niðurlæging Sjálfstæðisflokksins.

Það er til marks um vilja stjórnmálaafla til góðra verka, þegar þau koma fram með gagnsæja málefnaskrá sem samþykkt hefur verið af landsfundum þeirra með lýðræðislegum hætti. Trúverðugleikinn byggist á því að viðkomandi stjórnmálaafl framfylgi málefnaskrá sinni eins og hún hefur verið kynnt kjósendum. Þetta er vitaskuld lágmarkskrafa hvers kjósanda, að hann geti treyst því að sá flokkur sem hann kýs framfylgi sínum málum eins og málefnaskráin kveður á um.

Nú höfum við horft upp á það um árabil að borgarfulltrúar á vegum Sjálfstæðisflokksins hafa gengið fram af hörku gegn einu mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar, Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir mjög einarðlegar ályktanir landsfunda flokksins til varnar flugvellinum. Þessir borgarfulltrúar hafa jafnvel gengið svo langt að fullyrða að þeir telji sig óbundna af þessum landsfundarsamþykktum. Það er afar merkileg framganga kjörinna fulltrúa sem vilja láta taka sig alvarlega. En reynslan hefur sýnt undanfarið að sumir þeirra sem komið hafa fram með þessum hætti hafa nú hellst úr lestinni, t.a.m. þau tvö sem harðast gengu  fram í þessu, þau Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson. Þau fylla ekki lengur raðir stjórnmálamanna.

Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn náð að halda að mestu trúverðugleika sínum í þessu viðkvæma en mikilvæga samfélagsmáli.

Nú í dag hefur það hins vegar gerst að einn alvarlegasti vendipunktur í þessari dæmalausu aðför gegn flugvellinum okkar til þessa, er orðinn að veruleika með fulltyngi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Á fundi borgarráðs í morgun var lagt fram afsal frá 11. ágúst s.l. þar sem ríkið afsalar borginni landinu í Skerjafirði á grundvelli samkomulags fyrri ríkisstjórnar. Þetta er landspilda sem liggur undir syðri/vestari enda neyðarbrautarinnar. Þess verður því væntanlega ekki langt að bíða að ráðist verði að þessum enda brautarinnar til að tryggja eyðileggingu hennar, í samræmi við önnur vinnubrögð borgaryfirvalda.

Þetta gerist í trássi við eftirfarandi:

1) Niðurstöður margítrekaðra skoðanakannana mörg undanfarin ár sem sýna afdráttalausan vilja yfirgnæfandi meirihluta landsmanna, þ.m.t. borgarbúa, fyrir áframhaldandi veru flugvallarins þar sem hann er.

2) Kröfu nærri 70.000 kjörgengra Íslendinga í næststærstu undirskriftasöfnun á landsvísu til þessa, um að Reykjavíkurflugvöllur skuli vera áfram og í óbreyttri mynd.

3) Ítrekaðar ábendingar fagaðila um alvarlega ágalla og ófagleg vinnubrögð í undirbúningi þess að leggja niður neyðarbrautina, m.a. varðandi útreikninga nothæfisstuðuls flugvallarins án neyðarbrautarinnar.

4) Ítrekaðar ábendingar um hagsmunatengsl þeirra aðila sem að áðurnefndum undirbúningi þessarar aðgerðar koma.

5) Ítrekaðar ábendingar um alvarlegar afleiðingar þess þegar aðgengi að Landsspítala Háskólasjúkrahúsi með sjúkraflugsþjónustu skerðist í tilteknum veðurskilyrðum, þar sem þessi flugbraut hefur komið að notum til þessa.

En til viðbótar ofantöldu bendi ég sérstaklega á eftirfarandi klausu úr ályktun 42. landsfundar Sjálfstæðisflokksins, umhverfis og samgöngunefnd, frá því s.l. haust, undir millifyrirsögninni "samgöngur í lofti", 2. mgr:

"Reykjavíkurflugvöllur verði óskertur í Vatnsmýri. Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri er þýðingarmikil miðstöð íslensks áætlunarflugs, áfangastaður til eina hátæknisjúkrahúss landsins...."

Feitletrun er mín. Ég var sjálfur viðstaddur þegar þessi klausa hlaut samþykki landsfundarins í haust, algerlega mótmælalaust. Ætla má að þessi klausa sé mjög í samræmi við vilja almennings samanber áðurnefndar skoðanakannanir og undirskriftasöfnun.

En nú bregður svo við að það eru ekki bara einstakir brokkgengir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem telja sér sæma að traðka á eigin landsfundarsamþykktum, heldur sjálfur formaður flokksins! Fjármálaráðherra er nefnilega sá aðili sem fyrir hönd ríkisins gefur út áðurnefnt afsal. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fyllir nú þann sorglega hóp sem mun bera fulla ábyrgð á því þegar næst verður bráð þörf fyrir neyðarbrautina en hún verður ekki til staðar. Í stað þess að fylgja landsmönnum að málum, og þá um leið vilja flokkssystkyna sinna, og spyrna við fótum gegn þessari ofstækisfullu valdníðslu borgaryfirvalda, þá traðkar formaður Sjálfstæðisflokksins á þessari landsfundarsamþykkt í meðvirkni sinni.

Það eru nefnilega öll tæki og tól til staðar og tiltæk ráðherrum og þingheimi, til að snúa þessu máli til farsælla lykta. En því miður virðist fjármálaráðherra þora frekar að fylgja ofstækisöflum og lóðabröskurum að málum en stuðla að fullu öryggi landsmanna varðandi aðgengi að sjúkrastofnunum sínum. 

Hvernig er nú komið fyrir trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins í þessu gríðarlega öryggis- og hagsmunamáli landsmanna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband