Smekkur Egils.

Eins glæsilega og undirskriftasöfnun okkar hefur gengið virðast sumir eiga svolítið bágt vegna hennar þessa dagana.

Egill Helgason segir í pistli í kvöld (28.8):

„Áróðursherferðin sem er farin fyrir Reykjavíkurflugvelli undir því fororði að mannslífum sé teflt í hættu er á mörkum hins smekklega“.

Og þá skyldi maður ætla að framhald þessa pistils gefi tóninn um eitthvað smekklegra. Það má svo sem vera að ég hafi numið inntak þessa hugtaks eitthvað skakkt, því alla vega höfum við, ég og Egill, ekki sama skilning á því hvað telst vera smekklegt. Stuttu eftir þennan inngang hans segir:

„Ef sjúkraflug lenti ekki í Vatnsmýri, þyrftu menn að finna aðra leið til að láta það ganga upp. Í samfélagi sem vill halda uppi almennilegri heilbrigðisþjónustu yrði það auðvitað gert“

Nú held ég að við séum samfélag „sem vill halda uppi almennilegri heilbrigðisþjónustu“, þ.e.a.s. flestir aðrir en þorri borgarfulltrúa og skipulagsyfirvöld borgarinnar. En nýverið birtist auglýsing frá Reykjavíkurborg um nýtt aðalskipulag hennar þar sem gert er ráð fyrir því að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri um leið og LHS er fest í sessi við hringbrautina, en hvergi nokkurs staðar er að finna „aðra leið til að láta það (sjúkraflugið innsk.) ganga upp“, hvorki í téðu aðalskipulagi né yfir höfuð nokkurs staðar. En Egill hampar þó síðar í þessum sama pistli „lausninni“ á þessu með tilvitnun í lækni við Háskólasjúkrahúsið í Osló:

„Það eru um 48km frá Keflavíkurvelli inn á Landspítalann og aðeins styttra á Landspítalann í Fosvogi (gamla Borgarspítalann)“.

Og bætir við skömmu seinna:

„Það tekur vart meira en 25 mín að keyra með sírenum með sjúkrabíl frá Keflavík og enn styttri tíma með þyrlu“.

Og áður en kom að þessari tilvitnun í doktorinn í Osló mátti einnig sjá þetta frá Agli:

„Í bráðatilvikum eru þyrlur, mannaðar læknum, náttúrlega miklu betri kostur en flugvélar sem hafa takmarkaða kosti bæði til flugtaks og lendingar“.

Þetta á líklga að heita smekklegt hjá Agli enda blæs hann af hreinni smekkvísi á allar staðreyndir sem bornar hafa verið á borð í þessu sambandi.

Kannski hefur maðurinn ekki séð nýlega fésbókarfæslu sem þó fékk gríðarleg viðbrögð, „like“ og deilingar sem líklga slógu öll met, en reyndar einnig hina furðulegustu gagnrýni, m.a. frá fyrrverandi (blessunarlega) alþingismanni. Þessa færslu átti faðir drengs sem fæddist fyrir fimmtán árum með hjartagalla og lýsti hann því í stuttu máli hvernig tókst að bjarga barninu á fyrstu klukkustundum þess í þessum heimi. Það fól m.a. í sér að flytja þurfti drenginn með sjúkraflugi suður til Reykjavíkur og áfram til LHS við Hringbraut þar sem gera skyldi á honum bráðaaðgerð. Sú aðgerð varð reyndar bráðari en til stóð því svo hætt var barnið komið að skera varð það strax í anddyri sjúkrahússins! Þetta er eitt þeirra dæma sem sýna hvað við sem stundum sjúkraflutninga, erum oft í miklu kapphlaupi við tímann. En kannski hefur Egill einmitt séð þessa frásögn og er þá í hópi þeirra sem finnast svona frásagnir „á mörkum hins smekklega“. Og kemur fyrir vikið með hina „smekklegustu“ lausn á vanda þeim sem landsmenn standa frammi fyrir þegar ekki verður lengur unnt að lenda sjúkraflugvélum í borginni, hvorki með bráðatilfelli né önnur, nefnilega Keflavík! Og jújú, vissulega eru ekki nema 48 km frá Keflavíkurflugvelli á Lansann og vera má að slökkviliðsmenn syðra komist þá vegalengd á 25 mínútum (með sírenum nefnilega), og vissulega yrði þyrlan enn sneggri þarna á milli. En nú ætla ég að vera svo ósmekkvís að benda á fáein aukaatriði í þessu sambandi og byrja á að vitna í vefsíðuna lending.is:

Gerð er krafa um jafnþrýst farþegarými í sjúkraflugi, til verndar sjúklingum með t.d. loftbrjóst, heilablæðingu eða höfuðmeiðsl. Engin þyrla er þannig útbúin. Engin þyrla hefur afkastagetu til að halda lágmarkshæðum í blindflugi yfir hálendi Íslands, fari svo að annar tveggja mótora hennar bili. Engin þyrla nær viðlíka flughraða og sjúkraflugvélar okkar og er munurinn u.þ.b. tvöfaldur. Þær eru þ.a.l. óviðunandi flutningstæki í sjúkraflugi. Kostnaður við útgerð þyrlu er margfaldur, miðað við sambærilega flugvél að stærð og burðargetu. Þyrlur eru stórkostleg björgunartæki á rúmsjó eða á hálendi fjarri flugvöllum. En þær skortir hraða, hagkvæmni, afkastagetu í blindflugi og jafnþrýstiklefa til að geta tekið við sjúkraflugsþjónustu hér innanlands.

Þá er þess einnig að geta að þyrlur eru mun viðkvæmari fyrir ísingu á skrúfublöðum sínum en flugvélar á vængjum sínum. Þetta helgast af þeim mikla hraða sem þyrilblöðin fara á gegnum loftið í snúningi sínum, íssöfnunin er að sama skapi hraðari. Það vill síðan þannig til að þau veðurskilyrði sem valda ísingu á loftförum eru þau hin sömu og hamla ferðum bíla, jafnvel með sírenur, vegna þæfings eða hálku svo sömu veðurskilyrði geta hæglega aftrað báðum þessum farartækjum. Þá er það misskilningur að treystandi sé á að þyrlur geti lent á þar til gerðum pöllum inni í byggð í öllum skilyrðum. Þær þurfa, jafnt eins og önnur loftför, að fljúga blindflug þegar þannig viðrar og búnaði til blindaðflugs, sem og aðflugsferlum, verður ekki komið við í byggð eins og við Hringbrautina eða í Fossvogi. Þá geta sviptivindar að auki skapað hættu við slíkar aðstæður í slíku umhverfi. En sorry, það er auðvitað eins og hver önnur smekkleysa að draga þetta allt fram. Og ekki batnar það þegar ég fullyrði, og tala af margra ára reynslu í sjúkraflugi, að flugvöllurinn bjargar mannslífum einmitt vegna nálægðar sinnar við spítalann, en verði hann tekinn af okkur munu tapast mannslíf af þeim sökum.

Fyrirgefið mér smekkleysuna.


mbl.is Mikilvægt fyrir þróun lýðræðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Frosti Heimisson

Brilljant! Var kominn með upp í kok á endalausum yfirlýsingum um yfirburði þyrla fram yfir flugvélar en þú skrifaðir það sem ég ætlaði að skrifa. Það er svona þegar kokkur tjáir sig um málmsuðu við hjartaskurðlækni.

Frosti Heimisson, 29.8.2013 kl. 09:36

2 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Sæll og takk. Það er rétt að þessir draugar í umræðunni eru vaktir upp aftur og aftur, þetta fólk tekur engu tali né rökum.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 29.8.2013 kl. 11:47

3 Smámynd: Jack Daniel's

Ánægður með þetta hjá þér enda bullið í Agli tekið og tætt í sundur með rökum. Góðum rökum.

Jack Daniel's, 29.8.2013 kl. 13:36

4 identicon

Menn eru nú að gleyma það eru ekki skjúkravélar út á landi, sá aukatími sem tekur flugvélina að fljúga til dæmis vestur er meiri en að keyra á milli Keflavíkur og Landsspítala. Menn ættu frekar að rífast yfir því en hvar völlurinn sé?????

Fjölnir (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 13:48

5 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Takk Jack Daniel's. Fjölnir, nú fatta ég ekki hvað þú ert að fara, sjálfur starfa ég við sjúkraflug og með starfstöð á Akureyri, sem ég hélt að teldist vera "út á landi". En þó þú og ýmsir fleiri teljið ykkur hafa eitthvað að athuga við framkvæmd sjúkraflugsþjónustunnar, skýrðu endilega fyrir mér hvernig það ætti að afsaka að bæta ca þremur korterum við flutningstímann að öllum jafnaði með því að nota Keflavíkurflugvöll?

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 29.8.2013 kl. 14:23

6 identicon

Ég er á því að ef Reykjavíkurborg ætlar að standa við það koma flugvellinum burtu, þá er næsti slagur að fá sjúkrahúspeningana norður!! Og raunar er ég farin að lýta á það sem betri kost. Þessi flugvallar slagur verður endalaus.

Hátæknispítala á Akureyri!!

Höfuðborgarbúar taka þá leigubíl út á flugvöllinn í Keflavík (ætti ekki að taka nema 30-40 mínútur á góðum degi) og lenda spölkorn frá sjúkrahúsinu á Akureyri til að komast í þjónustuna þar. Ekkert mál!

Arnheiður (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 14:35

7 identicon

Ég held að fólk viti almennt ekki hvað hátæknisjúkrahús er. Það er stór eining þar sem sjúklingurinn fær strikamerki og læknir fyllir út í tölvu hvaða lyf hann á að fá. Sjúkraliði skannar hann daglega og fær lyfin í lyftu upp á hæðina sína. Það er eiginlega allt og sumt. Restin er sami barningurinn í að betla pening fyrir tækjum og fá nægt fjármagn fyrir rekstrinum, en það hefur sýnt sig í flestum löndum að engan sparnað er að finna í slíkum spítala.

Góðkunningi minn rak apótek í hátæknisjúkrahúsi sem var flottast í heiminum er það var smíðað fyrir nokkrum árum. Hann gafst upp þrem árum síðar vegna síendurtekina bilana í kerfinu sem leiddi til rangrar lyfjagjafar og meiri rekstrarkostnaðar en fjárveitingar leyfðu.

Jón Páll Garðarsson (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 19:24

8 identicon

Góður pistill hjá þér Keli, ég er alveg sammála um hagkvæmni flugvéla í sjúkraflug fram yfir þyrlur, hraði, jafnþrýsti búnaður, hærri flughæðir til sleppa við flest veður. þyrlur hafa sín takmörk og flugvélar hafa sín.

Í Swiss til dæmis leysa þeir sjúkraþjónustuna mest með þyrlum en þar eru 24 sjúkra þyrlur og viðmiðið er að hún sé kominn á slysstað innan 15 mín frá útkalli.

Þetta myndi þýða svona 30 þyrlur á Íslandi ef það ætti að nota sama standard og þeir, en þetta verður aldrei ríkið er nú þegar með brækurnar á hælunum að reka 3 þyrlur og hreint ótrúlegt hvernig LHG tekst að leysa hlutina með þær litlu fjárframlög sem þeir fá.

Annað ef það ætti að leysa þetta allt með þyrlum þá fyrst færi nú grátkórinn af stað.

Núna eru fljúgandi 9 þyrlur á landinu sem allar eiga heimahöfn í Reykjavík og tuðið undan ónæði frá er víst alveg tilstaðar og einmitt mest hjá þessa sama blessaða fólki sem er að predika um að nota þyrlur í sjúkraflug, núna henntar það afþví þá getur flugvöllurinn farið.

Reynir Freyr Pétursson (IP-tala skráð) 30.8.2013 kl. 00:18

9 identicon

Ég vil gjarnan taka það fram að persónulega hef ég ekkert á móti Reykjavíkurflugvelli og hef aldrei amast við honum. Það er hins vegar firra að spyrða sjúkrahúsið við flugvöllinn og stenst illa skoðun enda hef ég bent á að það heyrir í raun til algjörar undantekningar að sjúkrahús séu á flugbrautarenda. Eflaust eru aðrar gildar ástæður að hafa flugvöllinn þarna í byggðinni en það var hernámslið Breta sem byggði hann í seinni heimstyrjöldinni án þess að hafa verið að spyrja Íslendinga um en það er önnur saga.

Mér finnst það umhugsunarvert að það skuli vera einungis eitt félag sem sér um sjúkraflug á Íslandi, með 60 mín útkallstími áhafnar hjá Mýflugi og einungis frá Akureyri og útkall nr. 2 þeas varaáhöfn er að ræða (ef hin vélin er í loftinu) þá er útkallstíminn skv. samningi við Velferðarráðuneytið næstum 2 tímar (105 mín) og þetta miðast við tímann þegar vélin fer í loftið frá Akureyri. Það er sök sér ef flogið er beint til Reykavíkur. En ef td. vélin eftir að fljúga til Ísafjarðar eða til Egilstaða lenda þar og hvað þá minni flugvalla sem þarf kanski að ryðja snjó ef þetta er að vetri til og eiga síðan fara til Reykjavíkur þá getur þetta orðið mjög langur tími. Það er í raun heildartíminn sem skiptir máli og faglega séð er best að fá æfða áhöfn með sérfræðing í bráðalækningum/svæfingum og reynda sjúkraflutningamenn (paramedics) að koma sem fyrst að málum. Flugmenn tala um flughraða þyrlunnar í samanburði við flugvél ættu þá kanski að rifja upp hina sígildu dæmisögu Æsops um kapphlaup hérans og skjaldbökunar þegar málið er skoðað í heild.

Mér finnst í raun merkilegt að íbúar meginþorra landsbyggðar sætti sig við þetta og nánast öll orkan fari í staðsetningu flugvallarins um þessar síðustu 20 mín í sjúkraflutningum.

Það er svo að við vissar lífshættulegar aðstæður vilja menn forðast að fljúga hátt. Það gildir alvarlega heilaáverka þar sem það getur aukið hættu á heilabjúg og þá er valin þyrla sem flýgur lægra þetta getur einnig verið í vissum tilfellum við alvarlega brjóstholsáváverka og það er oft ekki ljóst þegar ástandið er óvisst. Lykilatriðið er að það komi reynt fólk á staðinn.

Óháð staðsetningu flugvallarins er það í raun furðulegt að ekki sé hægt að hafa 1 eða 2 "standby" þyrlur með mannskap til sjúkraflutninga á Íslandi allar þjóðir sem við viljum líkja okkur við taka sér ráð á því og auk þess að vera með herkostnað á sínu framfæri, meðan Íslendingar eru herlaus þjóð. En augljóslega getur flugvél verið vænlegri kostur og gott að geta valið.

Ragnar (IP-tala skráð) 30.8.2013 kl. 01:13

10 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Sælir Reynir Freyr og Ragnar, og takk fyrir innlitið.

Það er rétt að staðsetning þyrlna á landsbyggðinni myndi efla sjúkraflugsþjónustuna í heild og á það höfum við svo sem bent. Það myndi þó helst koma björgunarþættinum til góða, þ.e. varðandi fyrstu aðkomu að vettvangi slysa og veikinda, sér í lagi fjarri alfaraleið og á rúmsjó. Þær myndu þó aldrei leysa sjúkraflugvélar af hólmi þegar kemur að flutningi þeirra sjúklinga til Reykjavíkur. Fyrir því eru nokkrar veigamiklar ástæður sem varða takmarkanir þyrlunnar, s.s. kemur fram í pistlinum mínum hér að ofan (tilvitnun í lending.is). Enda höfum við séð þess dæmi að eftir svona björgun, t.d. á sjó, hefur þyrlan skilað sjúklingnum til næsta flugvallar, t.d. á Akureyri eða Egilsstöðum, þar sem við hjá Mýflugi tökum við honum og fljúgum með hann suður, á tvöföldum hraða þyrlunnar, yfir veðrum sem hafa í sér ísingu og / eða ókyrrð, og í öruggri hæð yfir hálendi landsins.

Ragnar, mig langar að sjá rökstuðning fyrir þessari fullyrðingu þinni: "Það er hins vegar firra að spyrða sjúkrahúsið við flugvöllinn og stenst illa skoðun". Það að þú teljir slíka staðsetningu flugvallar gagnvart sjúkrahúsi til undantekninga eru því miður engin rök, en það sem við höfum bent á með vísan í okkar reynslu eru einfaldlega staðreyndir og ég hef engan séð hrekja þær efnislega. Getur þú það? Þá er það sem þú segir um hernámslið Breta rangt og er búið að benda á það með skjalfestum heimildum, m.a. á þessum vettvangi, að Reykjavíkurborg var á undan bretum að þessu leyti, þó þeir hafi síðan tekið að sér sjálfa uppbygginguna, okkur til góðs. Ég bið þig einnig að fara rétt með þegar þú fjallar um starfshætti Mýflugs skv. samningi um sjúkraflugsþjónustuna. Útkallstíminn okkar er skv. þeim samningi 35 mínútur, frá útkalli og þar til við erum tilbúnir að ræsa hreyfla, þá búnir að ræsa út starfsmenn þeirra flugvalla sem við þurfum að heimsækja og fá hjá þeim allar nauðsynlegar upplýsingar um veður og ástand flugbrauta, gera flugáætlun o.s.frv. Hvaðan hefur þú 60 mínútur? Og ef þú getur bent á dæmi þar sem við höfum ekki staðið við þennan samning, endilega leyfðu mér að vita af því. Síðan er hreint og beint fáránlegt að halda því fram að hvernig sem mætti gagnrýna framkvæmd þessarar þjónustu, þá sé það einhver afsökun fyrir því að lengja megi flutningstímann með því að fjarlægja þessa perlu, sem við eigum í Vatnsmýrinni. Það eru mörg dæmi í okkar reynslubrunni þar sem fullyrða má að krókurinn til Keflavíkur (og einnig um Hólmsheiði) hefði orðið viðkomandi sjúklingi að aldurtila! Talandi um mínútuspursmál á lokaspretti flutnings, þá tekur það ekki eina mínútu fyrir sjúkling að taka síðasta andvarpið og af því getum við talað af sárri reynslu. Svo þú skalt tala varlega um þetta mál minn kæri. Næst neðsta málsgrein þín Ragnar, sem þú setur hér fram sem fullyrðingu, er hreint alveg furðuleg og algerlega úr öllum takti við staðreyndir. Vertu ekkert að fela fyrir okkur andúð þína á flugvellinum, eins og þú reynir í upphafi máls þíns, úr því þú ert síðan að lepja upp lygaþvættinginn eftir Betri Byggð. Í einmitt þeim tilfellum sem þú tiltekur hérna, og fleirum til, þá er sérstaklega mikilvægt að til skjalanna komi flugvél og þá bæði hraðskreið, því nú liggur mikið á, og einnig með jafnþrýstibúnaði vegna eðlis áverkanna eða veikindanna sem þú nefnir. Og þar sem þú kemur einmitt inn á það líka áréttast hér með að í okkar áhöfnum eru ævinlega bráðaliðar, og síðan eftir atvikum læknar auk t.d. ljósmæðra eða svæfingalækna, barnalækna, allt eftir eðli útkallsins, og mér er óhætt að fullyrða að þetta fólk fellur vel að kröfu þinni um að "Lykilatriðið er að það komi reynt fólk á staðin". 

Svo farðu betur með staðreyndir málsins Ragnar, en þú gerir hér að ofan, því málefnið er mikilvægt og viðkvæmt. 

K. kv. Keli.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 30.8.2013 kl. 09:56

11 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Arnheiður og Jón Páll, bestu þakkir fyrir að líta hér við.

Þetta er einmitt málið Arnheiður, borgaryfirvöld miða allar gerðir sínar að því að Lansinn sé einungis borgarspítali. En fari flugvöllurinn verður sá spítali sem byggður er og rekinn fyrir tilstilli landsbyggðarinnar að vera þar sem við höfum jafn góðan aðgang að honum og að Lansanum í dag. 

Og takk fyrir fræðandi upplýsingar um hátæknisjúkrahús Jón Páll. 

B. kv. Keli.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 30.8.2013 kl. 10:06

12 identicon

Þorkell,

Ég er ekki búinn að éta upp neina þvælu og veit ekkert um "Betri Byggð" eða hvað þú kallar það og ætla ekki að þykjast hafa vit á skipulagsmálum og hef ekkert á móti flugvellinum.

Ef aðalmálið við að hafa sjúkrahúsið þarna er að stytta viðbragðstíma og bjarga lífi sjúklinga þá þarf að skilgreina ferlið ef markmiðið er bæta sjúkraflutninga og hvað er ódýrast og best þar þá ætti í raun að fá sérfræðinefnd að meta þetta en ekki láta hagsmunaðilum þetta í hendur. Klárlega kostar viðbúnaður og augljóslega þarf að nýta hverja krónu sem best eins og það er. En hefur í raun farið eitthvað mat á þessu.

Það mætti benda á ótaldæmi um að það er enginn sjálfsagður sanneleikur að sjúkrahús sé spirrt við flugvöll og þetta hefur verið rannsakað enda Ísland ekki eins sérstakt eins og sumir virðast halda.

Bendi á nágrannalöndin. Td. Noregur Það eru 50-60 km frá Gardemoen (Oslo flyplass) þar sem sjúkraflutningar fara til og sjúkrahúsum Oslo Universitetssykehus. Allir líffæraflutningar í Noregi fara fram á Oslo Universitetssykehus Rikshospitalet og þeir eru stærsta líffæraflutningasentrið í Evrópu (þótt Noregur sé í raun ekki fjölmenn þjóð) enda eina sjúkrahúsið í Noregi. Það eru umfangsmiklir flutningar af sjúklingum eins eru fluttir flutningar. http://www.luftambulanse.no/baser/gardermoen

Gautaborg (500 þús) í Svíþjóð er með 2 flugvelli og það eru 21 og 28 km til Sahlgrenska sjúkrahússins og þeir eru einnig stórir í líffæraflutningum.

Það má einnig nefna Bergen (270 þús) þar eru um 20km frá flugvellinum (Flesland), Þrándheim (með um 180 þús) og þar er verið að klára glænýtt sjúkrahús sem er um 36 km frá flugvellinum (Værnes). Fjórði stærsti bær Noregs Stavanger þar eru um 13 km að (Sola) flugvellinum o og þar er miðstöð við þjónustu við olíuborpolla og aðalbjörgunarmiðstöð Noregs.

Í Noregi er gerður greinarmunur á sjúkraflugi og björgunarflugi. Herinn er með björgunarþyrlur eru að skipta út 3 áratuga gömlum Sea King þyrlum út með nýjum. http://www.tu.no/industri/2013/07/09/to-av-de-mulige-sea-king-erstatterne-er-vraket og þessi Super Puma vandræði þýða væntanlega að Agusta Westland AW101 verði valin fyrir þennan stóra samning.

Noregur er augljóslega miklu stærri og mjög strálbýl og þeir eru með víðfeðm svæði í Norðursjó sem og Svalbarða og Norður Noregi með Finnmörk meðan Ísland er í raun lítil eyja og ég tala ekki um víðfeðm svæði Alaska og Kanada. En væntanlega er Noregur líkst okkur og í raun á mörgum stöðum miklu verri veðurskilyrði hvað varðar kulda og ísingu.

Ragnar (IP-tala skráð) 30.8.2013 kl. 12:44

13 identicon

http://www.oslomipim.no/en/hospital-of-the-future-at-gardermoen/

Dagný (IP-tala skráð) 30.8.2013 kl. 23:48

14 identicon

Dagný þetta er lítið einkarekið sjúkrahús Feiringklinikkensem er m.a. eigu félagasamtaka norskra hjarta og lungnasjúklinga og er núna staðsett í skógunum við ánna Mjøsa ca. 40 km norðan við Gardemoflugvöllinn sem liggur 50 km norðan við Ósló. Íslensk þjóðarsál truflast ef talað er um að einkavæða sjúkrahús eða heilbrigðisþjónstu, meðan þetta er ákaflega útbreitt á norðurlöndum.

Þetta er að hluta verktaka fyrir hið opinbera og einkatryggingafélög eins getur fólk panntað þarna beint og greitt úr eigin vasa. Þetta er svipað og Hjartavernd á Íslandi. Þeir gera hjartaþræðingar og hjartaæðaútvíkkanir og bypass aðgerðir á kransæðum.

http://www.lhl.no/feiringklinikken/

Feiringklinikken Þeir fá sjúklinga frá öllum Noregi og skiljanlega vilja þeir færa sig nær höfuðborginni og flugvellinum og það hefur verið talað um það lengi.

Flugvöllurinn í Gardemoen er í Akershús fylki sem liggur umhverfis Óslo. Það búa um 570 þús manns í Akershus fylki. Fylkissjúkrahúsið í Akershus, Akershus universitetssykehus er glænýtt http://www.ahus.no/omoss/omhelseforetaket/Sider/side.aspx og það var reist í Lørenskog 40 km sunnan við Gardemoen. Til gamans má geta þess að þeir hafa um 8.300 starfsmenn og fá 6,7 miljarða Nkr eða næstum 4 föld fjárlög íslenska Landspítalans og þar er Hulda Gunnlaugsstóttir forstjóri en hún var um skamma tíð forstjóri Landspítalans en hætti eftir "hrun".

Raunar er Akershus universitetssykehus dvergur við hliðina á Oslo universitetssykehus

með 22.000 starfsmenn og stærsta sjúkrahús á norðurlöndum. http://www.oslo-universitetssykehus.no/omoss/english/Sider/side.aspx

Ragnar (IP-tala skráð) 31.8.2013 kl. 01:46

15 identicon

Ísland er auðvitað svo sérstaklega einstakt og Íslendingar svo einstaklega sérstakir að þeir eru að sjálfsögðu ófærir um að nýta sér sjúkraþyrlur - sem þó virðast vera að gera það gott víða um heim:

http://www.state.nj.us/health/ems/ams.shtml

http://www.emergencyairlift.com/media.php

http://www.bbc.co.uk/news/uk-england-22652365

http://www.stars.ca/what-we-do/helicopter-air-ambulance/our-helicopter-fleet

http://www.airambulanceaviation.com/air_ambulance_helicopter.php

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.8.2013 kl. 17:56

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessar athss. mínar munu hafa dottið út hér (við fyrri útgáfu þessa pistils þíns) vegna tæknilegra atriða:

Frábær grein, eins og þín var von og vísa, Þorkell.

Hér skrifaði fagmaður, reyndur flugmaður. Egill þarf að sýna því fulla virðingu.

Svo bendi ég þér á, að Mbl.is er lesið 5-10 meira en blog.is. Með því að tengja pistla á Moggabloggi við fréttir á Mbl.is er unnt að fá mun meiri lestur á viðkomandi bloggi.

Ég hvet þig til að endurbirta þessa grein með tengingu á næstu Mbl.is-frétt af undirskriftasöfnuninni (lending.is), þá sjá menn þessi verðugu og tímabæru skrif þín miklu frekar.

Annars gengur undirskriftasöfnunin aldeilis rjómavel ...

Og margt af því, sem þú skrifaðir hér, vissi ég ekkert um. Svo er um ótal marga.

PS. Það var ógleymanleg upplifun fyrir mig strákinn að sjá gamanleikinn Delirium bubonis eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni á leiksviði í Iðnó. Þeir voru snillingar á þessu sviði -- og þú velur þér hugtakið sem nafn á bloggi þínu!

Jón Valur Jensson, 4.9.2013 kl. 01:13

17 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Sæll aftur Jón og takk fyrir þetta. Já ég á svolitla sögu með þessu nafni, en hef aldrei séð þetta leikrit því miður. Sit um að sjá það næst.

Ragnar, samanburðurinn við Noreg gerir ekkert annað en að styrkja málstað okkar hér, ef rétt er farið með. Norðmenn notast mikið við þyrlur, rétt er það, en flugvélar eru engu að síður í aðalhlutvrkinu þegar kemur að því að flytja sjúklinga langar leiðir. Hins vegar eru stór og vel búin sjúkrahús nokkur í þessu landi en við höfum bara eitt (og eigum í basli með að halda því gangandi). Þetta þýðir að jafnaðarlega er sjúklingur í Noregi kominn á næsta spítala þar á skemmri tíma en gerist og gengur hér á landi. Varðandi upptalninguna á fjarlægð flugvalla frá bæjum og borgum þar, þá sé ég ekki enn rökin fyrir því að við eigum að fara að herma eftir því, og get t.a.m. frætt þig á því að færsla flugvallarins í Osló upp til heiða þar voru mistök sem nojararnir hafa grátið allar götur síðan. 

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 4.9.2013 kl. 02:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband