Yfirklóri Björns Bjarnasonar svarað

Það fór eitthvað fyrir brjóstið á Birni Bjarnasyni greinin sem Morgunblaðið birti frá mér í fyrradag en hún fjallaði um framboð og framkomu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna. Ég greindi nefnilega frá því að þrátt fyrir að sækjast eftir oddvitasæti flokksins í borgarstjórn, þá hugnast konunni ekki að ræða öll mál sem á henni munu brenna, nái hún kjöri, sem m.a. lýsir sér í því að hún hefur valið þann kost að eyða af fésbókarvegg sínum þeim spurningum sem standa í henni, fremur en að svara þeim. Kannski eru þau eitthvað skyld þessi tvö, því sjálfur hefur Björn valið að blokkera viðmælendur sína þegar hann var sjálfur kominn upp að vegg í málefnalegum rökræðum. Gagnrýnin rökræða hentar ekki öllum.

Björn sakar mig um að gera "Hildi og afstöðu hennar til Reykjavíkurflugvallar tortryggilega." Auðvitað hefur Hildur sjálf, með þessari framkomu sinni, gert sig tortryggilega og væri henni í lófa lagið að eyða þeirri tortryggni með því að svara hispurslaust þeim spurningum sem fyrir hana eru lagðar. En það er greinilega ekki hennar tebolli.

Í bloggi Björns í gær er líka þetta að finna: "Flugvöllurinn hverfur ekki á kjörtímabili borgarstjórnar sem hefst 14. maí 2022. Línur hafa verið lagðar um óbreytt ástand til margra ára." Hér er vert að rifja upp að þessar "línur" voru reyndar lagðar með "samkomulagi" milli ríkis og borgar fyrir allnokkrum árum, en síðan hefur þó neyðarbrautin horfið, háreist byggð risið í hennar stað með tilheyrandi vindröstum sem trufla mjög flugumferð, nýtt skipulag um aðra aðþrengjandi háreista byggð er á fullum skriði í Skerjafirði og engar athugasemdir um væntanlegar sams konar truflanir þar fá nokkra athygli, enn eru eigur manna í Fluggörðum í hættu á að verða eytt endurgjaldslaust á allra næstu árum og það sem Björn kallar "til margra ára" varðandi líftíma flugvallarins nær nú aðeins til 2032 skv. aðalskipulagi borgarinnar. Þetta "óbreytta ástand" er því afar teygjanlegt hugtak hjá manninum.

Og hér er rétt að halda því til haga að þessi sorglega þróun, þessi gengdarlausa aðför að flugvellinum okkar allra í Vatnsmýrinni, er að miklu leyti vegna ýmist sleifarlags, þar sem þurft hefði að grípa til varna, eða beinlínis meðvirkni og jafnvel að frumkvæði ýmissa forvígismanna Sjálfstæðisflokksins, sem ég hef m.a. nefnt í mbl-greininni en bæti hér við Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins. Og hvers vegna skyldi það vera? Það liggur fyrir að einstakir þingmenn flokksins hafa átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta, t.d. verið hluthafar í Valsmönnum, félagsins sem stóð fyrir uppbyggingu Hlíðarendareitsins og varð því að losna við neyðarbrautina. Og það er kristaltært að hagsmunir þeir sem Bjarni gætti með sölu landsins í Skerjafirði, í kjölfar dómsmáls borgarinnar gegn ríkinu um neyðarbrautina, það voru einkahagsmunir en á kostnað almannahagsmuna, þ.á.m. öryggishagsmuna. Þó dómurinn félli á þann veg að samningur þáverandi innanríkisráðherra (Hönnu Birnu Kristjánsdóttur) og ríkisins um lokun neyðarbrautarinnar skyldi standa, þá greindi frá því í dómsorðinu hvernig ríkisvaldið gæti borið sig að, stæði vilji til þess að bjarga brautinni og m.a.s. gefinn tímafrestur ef á það reyndi. En nei, Bjarna Benediktssyni lá á að innsigla þetta mál, og þvert ofan í vilja hins almenna sjálfstæðismanns, eins og skýrt kemur fram í margítrekuðum landsfundarsamþykktum, og þvert ofan í vilja kjósenda, sem afdráttarlaust kemur fram í margítrekuðum skoðanakönnunum og einnar af stærstu undirskriftarsöfnunum til þessa um að flugvöllurinn skyldi standa ÓBREYTTUR, kaus Bjarni að selja land ríkisins undir sv-enda neyðarbrautarinnar, á fyrstu vikum eftir að dómurinn féll. Og ekkert af gerðum nokkurs ráðherra xD hefur sýnilega orðið til að sporna við þessari þróun. Ekkert af yfirklóri Björns Bjarnasonar breytir þessum staðreyndum.

Bloggrein Björns endar á þessari sneið til mín: "Þorkell Á. Jóhannesson (manninum væri líka sæmst að fara rétt með nafn þess sem hann kýs að deila við, innsk.) vill að saga Sjálfstæðisflokksins sé að hans höfði." Það að ég leyfi mér að draga fram þennan sorglega slóða forystu sjálfstæðismanna í flugvallarmálinu um leið og ég vek athygli á falskri framkomu enn eins borgarfulltrúa flokksins, sem nú sækist þar eftir oddvitasæti, sýnir væntanlega að ég vil að sú saga sem flokkurinn skilur eftir sig sé eftir höfði þeirra fjölmörgu sem reglulega taka þátt í stefnumótun flokksins, en sé ekki afbökun þess í meðförum þeirra sem síðan stýra för hans. Þegar ég segi afbökun vísast einnig í fleiri mál, s.s. orkupakkamálið og reyndar yfirhöfuð samskipti ríkisvaldsins, með ýmsa sjálfstæðisráðherra í lykilstöðum, við Brusselvaldið.

Lítill aðdáandi er ég Fréttablaðsins, en þessi bloggrein Björns Bjarnasonar er öðrum þræði ádeila á skrif ritstjóra þess. Undanfarið þykir mér þó sem ritstjórn blaðsins hafi verið skipuð með besta móti frá upphafi. Og þegar Björn hnýtir í Sigmund Erni fyrir skrif hans og sakar hann um hreinan hugarburð og "órökstutt gaspur", þá kemur það úr hörðustu átt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott grein.

Undarlegt hvað Björn Bjarnason er hallur undir Samfylkingar-Hildi.  Hann virðist vera Gísli Marteinn undir niðri.

Sjálfstæðisflokkur Engeyinga?

Hvað er hann annað en stimpilstofnun EES/ESB, með það eitt að markmiði að ræna auðlindum lands og þjóðar og koma á sífellt auknum sköttum og vegtollum á þá sömu þjóð og þeir ræna, forhertari en andskotinn sjálfur.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 1.1.2022 kl. 15:14

2 identicon

Sjálfstæðisflokkur Engeyinga?

Flokkur sérhagsmuna. 

Plebbaflokkur pilsfaldakapítalista, í slagtogi með Degi B, Pírötum, Viðreisn og Kola-Kötu.  Í braski með allt það sem þessi vesæla þjóð gat verið stolt af í örfáa áratugi.  Nú, skal það allt sundurhöggvast og niðurlægjast, og almest fullveldi og sjálfstæði lands og þjóðar.

En þetta sjá æ fleiri og fylgið mun halda áfram að hrynjs af plebbaflokki Engeyinga.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 1.1.2022 kl. 15:37

3 identicon

Sjálftaka úr ríkissjóði, s.s. 127% hækkun framlaga til flokkanna á þingi, hefur skilað

Sjálfstæðisflokki Engeyinga svo miklu

að nú þykir fínt að fara í braskið,

þéttingu byggðar,

á lóð Valhallar.

Þeir sem ekki sjá siðleysi sjálftöku plebbanna, sjálftöku pilsfaldakapítalistanna, kjósa vitaskuld áfram sinn plebbaflokk, Sjálfstæðisflokk Engeyinga, flokk að hruni kominn.

Bið svo síðuhafa afsökunar á að hafa sett hér inn 3 athugasemdir í röð.  En mér til málsbóta er að þetta eru aðeins 3 athugasemdir, en gætu mér léttilega verið 300, enda af nægu að taka hvernig Engeyingar hafa rústað þeim flokki sem heiðarlegt fólk treysti áður fyrr og kaus.  Það var á þeim dögum sem Reykjavík var borg hins raunverulega flokks sjálfstæðra manna og naut fylgis 45-50% borgarbúa.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 1.1.2022 kl. 16:09

4 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Sæll Símon Pétur og takk fyrir innlitið. Þér er velkomið að tjá þig hér að vild! Og þó ég hafi ekki nefnt Engeyinga, hvað þá uppnefnt, þá get ég vart annað en verið þér sammála og hef skömm á því hvernig farið er með þann flokk sem ég tel þó hafa bestu málefnaskrá allra flokka í dag. Hér er mikilla breytinga þörf.

Áramótakveðja, Þorkell.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 1.1.2022 kl. 22:31

5 identicon

Sæll Þorkell,

já, það er ömurlegt þegar flokki er beinlínis rænt, og honum turnað til brusselskrar villutrúar, af forystunni í Valhöll.

Og enn ömurlegra er þegar forystan sundurtraðkar hverja landsfundarsamþykktina, gildi og stefnuskrá, á fætur annarri.

Er það lýðræðislegur flokkur?

Ég man þá tíð að landsfundir Sjálfstæðisflokksins voru einar stærstu fjöldasamkomur landsins.

En svo er ekki lengur.

Hvað skyldi valda því?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 2.1.2022 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband