Mótrökin sem vantaði.

Þór Saari finnst ekkert að marka undirskriftarsöfnunina á lending .is, úr því við sem að henni stöndum, Hjartað í Vatnsmýri, leyfum okkur að undanskilja rök flugvallarandstæðinga í umfjöllun okkar á vefsíðunni (Flugvallarmálið og stóra samhengið, Fbl. 31.8). Þar sem við vorum svona glámskyggnir við gerð síðunnar, þá er ekki úr vegi að bæta úr því hér með. Byrjum t.d. á nokkrum slagorðum sem fræg hafa orðið, m.a. frá samtökunum um Betri Byggð því þau frómu samtök hafa haft sig einna mest í frammi í þessu máli og Þór hampar þeim einmitt í grein sinni:

"Það er ábyrgðalaust og siðferðilega rangt að flytja sjúklinga í vængjuðu flugi. Alla bráðveika sjúklinga á að flytja með þyrlum". (Fjölmargar blaðagreinar Arnar Sigurðssonar og Gunnars H. Gunnarssonar.) Á þessu byggist sú "röksemd" að engin þörf sé á flugvelli í borginni vegna sjúkraflugs, heldur aðeins þyrlupöllum við spítalana.

"Sjúkraflugsþjónustan eru þröngir sérhagsmunir". (Sömu einstaklingar í mbl-grein "Bábiljum svarað", 8. janúar 2010).

"Í lang flestum tilfellum er engin hætta á ferðum fyrir sjúkling þótt ferðatíminn lengist, m.a. ef krækja þarf með sjúkraflugi til Keflavíkur". (Áðurnefnd samtök oftsinnis, ásamt Degi B. Eggertssyni en hann lét þessi orð falla á ráðstefnu HR þ. 19 janúar 2012).

"Aðeins er þörf á að viðhafa flýti fyrir fyrstu aðkomu á vettvag slysa eða bráðra veikinda, en eftir fyrstu umönnun þar liggur ekkert á". (Samtök um B.B. enn og aftur og einnig Dagur B. Eggrtsson á sömu ráðstefnu og nefnd var hér að ofan).

Eitt til viðbótar frá Degi B. Eggrtssyni, á kynningarfundi um nýt aðalskipulag Reykjavíkur þ. 30 maí s.l: "Það hefur aldrei verið sannað að nálægð flugvallarins við sjúkrahús bjargi mannslífum".

"Verðmæti landsins í Vatnsmýri nemur hundruðum milljarða". (Tölur að vísu nokkuð mikið á reiki. Samtök um B.B. ítrekað. Til glöggvunar kostuðu 11 hektarar lands í Skerjafirði í nýlegri sölu, 400 milljónir).

Í Vatnsmýrinni á að rísa 70 þúsund manna byggð í stað flugvallarins. (Samtök um B.B. Nýja aðalskipulagið gerir ráð fyrir um 20 þúsund manna byggð þar).

"Dreifð byggð skapar offituvandamál". (Fulltrúi samtakanna um B.B. á kynningarfundi um skoðanakönnun á vegum F-listans, í Norræna húsinu haustið 2005).

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs, gaf þetta út í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2, 26.8. s.l., eftir að hafa sagst skilja áhyggjur fólks vegna sjúkraflugsins: "...en málið er bara það að fyrir Reykjavík, þá er mjög mikilvægt að þétta borgina. Og þetta er ofboðslega mikilvægur hluti í því og eiginlega órjúfanlegur hluti þess að Reykjavík verði þétt og góð borg".

Og Þór Saari leggur sjálfur til nokkur "rök" í grein sinni, fyrst þetta um í hvaða röð honum finnst borga sig að vinna þessi mál (en hér þarf að hafa í huga að skv. aðalskipulagi því sem nú er í auglýsingaferli verður flugvöllurinn eyðilagður eftir þrjú ár): "....fyrsta skrefið er breyting á aðalskipulagi þeirra sem fara með skipulagsvald á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborgar. Næstu skref eru svo útfærsluatriði sem vinnast í ákveðinni röð í samvinnu borgaryfirvalda og ríkisvaldsins, þar með talið hvort annar flugvöllur verði byggður á Hólmsheiði, flugið flutt til Keflavíkur, hvernig samgöngur verða tryggðar við nýja staðsetningu flugvallar og síðast en ekki síst með hvaða hætti sjúkrafluginu verður fyrirkomið."

"Háværustu talsmenn óbreytts ástands eru sérhagmunaöfl af ýmsum toga svo sem flugmenn, flugumferðarstjórar, flugáhugafólk, einkaflugsgeirinn og nokkrir alþingismenn sem nota innanlandsflugið eins og strætó til og frá vinnu." (Þór Saari, sama grein).

"Ýmislegt bendir einnig til þess að fingarför ritstjóra Morgunblaðsins séu á málinu og væri það vægast sagt kaldhæðni örlagana ef það kemur upp úr dúrnum að vel meinandi landsbyggðafólk hefur nú með undirskrift sinni stutt Sjálfstæðisflokkinn til valda í Reykjavík með Friðrik Pálsson sem borgarstjóraefni og þar með gleypt við smjörklípu sem á sér sennilega enga hliðstæðu." (Þór Saari, sama grein).

"Það að taka svona einstök dæmi um hugsanlegar afleiðingar þess að færa flugvöllinn og þess vegna eigi hann að vera þarna um aldur og ævi er bara asnalegt og ómálefnalegt...". (Þór Saari í færslu á fésbók 19.8 s.l.).

"Þetta mál þarf að ræða af skynsemi og leysa af skynsemi en ekki með svona vitleysistali um einstaka flutninga á fólki". (Þór Saari í færslu á fésbók 19.8 s.l.).

Fréttastofa Stöðvar 2 lagði svo nokkuð til málanna s.l. mánudag þegar stuðst var við þessa tilvitnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjúkraflug, sem kom út þá um daginn: "Mikilvægt er að hafa í huga að þó mínútur geti skipt sköpum í sjúkraflutningum hefur aðbúnaður sjúklinga og aðstaða lækna, sjúkraflutningamanna og aðstandenda veruleg áhrif." (skáletrun mín). Með þessari klausu taldi fréttastofan sannað að framburður okkar sem stöndum að undirskriftasöfnuninni, um að mínútur geti skipt sköpum í sjúkraflugi, væri rangur sbr. fyrirsögn fréttarinnar: "Ósamræmi er í málflutningi talsmanna flugvallarins í Vatnsmýri ef litið er til nýútkominnar skýrslu ríkisendurskoðunar um sjúkraflug."

Ég vona að mér fyrirgefist þó eitthvað vanti upp á að þessi yfirferð á mótrökum gegn flugvellinum sé tæmandi , en þetta var svona það helsta sem rifjaðist upp við ritun þessarar greinar. Svona fyrir utan nýyrðið sem nú loðir við okkur sem höfum m.a. stutt rökin okkar um mikilvægi sjúkraflugsins; "tilfinningaklám".


mbl.is Framtíðarstefnu skortir í sjúkraflugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég vil byrja að taka það fram að ég er flugdellukarl og vil hafa sem flesta flugvelli á landinu. Ég vil gjarnan hafa flugvöllinn í Reykjavík en núverandi lega hans þykir mér ekki heppileg. Það þarf að gera breytingar á honum svo hann geti dafnað þar áfram.

Það sem helst vantar í umræðuna er að ræða valkosti sem eru í boði. Það eru til margar útfærslur, sumar jafnvel þannig að flugvöllurinn verði þarna áfram en bara með breyttu sniði. Hingað til hefur þetta verið svart og hvít. Annað hvort fer flugvöllurinn, sjúklingar deyja og allt flug á Íslandi leggst af eða flugvöllurinn verður þarna áfram nákvæmlega eins og hann er og bæði lífum og flugi verði bjargað.

www.lending.is síðan leggur þetta dálítið upp þannig. Athugaðu að ég er ekki að gagnrýna framtakið, sem ég styð, heldur hversu mikið af upplýsingum vantar til þess að taka upplýsta ákvörðun. En kannski er það ekki markmiðið með síðunni.

Þessi umræða um flugvöllinn er ekki ný af nálinni. Það er búið að gera ótal skýrslur, útreikninga og uppdrætti. Einhver þarf að taka sig til og safna öllu þessu saman og setja fram með skýrum hætti þannig að fólk eigi auðveldara með að átta sig um hvað umræðan snýst raunverulega.

Með og á móti hóparnir hafa báðir ágætis rök. Það eru margir innan flugsins og læknastéttarinnar sem vilja skoða breytingar á flugvellinum - það eru ekki bara lattelepjandi miðbæjarfólk sem vill það.

Ef ég þekki þetta "kerfisfólk" sem tekur á móti athugasemdum við deiliskipulag, þá verða allar þessar undirskriftir meðhöndlaðar sem ein athugasemd. Því gætu fimm aðrir sent sínar athugasemdir, hver úr sínu horni, sem allar hafa jafn mikið vægi.

En þetta átak hefur skapað umræðu og meðvitund um flug og heilbrigðismál á Íslandi. Það eitt og sér er frábært.

Sumarliði Einar Daðason, 4.9.2013 kl. 09:30

2 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Sæll Sumarliði. Það er rétt sem þú segir að fleiri hugmyndir hafa orðið til um legu flugvallarins og það jafnvel nánast á sama stað. Þær hgmyndir hafa þó allar verið afgreiddar út af borðinu, m.a. af samráðsnefnd ríkis og borgar sem skilaði sínum afrakstri 2007. Hvers vegna þær hugmyndir voru afgreiddar þannig veit ég ekki, hef aldrei séð forsendurnar fyrir því. En fyrir vikið eru einu "lausnirnar" í boði annars vegar Hólmsheiði (sem er í raun útilokuð) og Keflavík (sem er fáránleg). Þetta er það sem almenningur er að mótmæla þessa dagana. Þetta er það sem lending.is er að benda á, um leið og við reynum að leiðrétta mýtur og bábiljur eins og t.d. um þyrlurnar o.fl. Og í brennidepli er að sjálfsögðu sjúkraflugsþjónustan sem andstæðingar vallarins reyna nú að gera sem minnst úr með afbökun á öllum staðreyndum um hana.

B. kv. Keli.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 4.9.2013 kl. 09:52

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi.

Til að mynda var mér sagt, fyrir um það bil hálfu ári síðan, að það væri útilokað að Landhelgisgæslan yrði flutt að hluta til Akureyrar og FSA yrði eflt sem bráðasjúkrahús. Núna er fólk innan hið opinbera farið að ræða þetta fyrir alvöru og beinlínis að mæla með því.

Það sama gildi um flugvallamálið í Reykjavík.

Sumarliði Einar Daðason, 4.9.2013 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband