"Mýflug 77, heimil lending braut 06".

Ég fæ ekki oft þessa heimild því þessi flugbraut Reykjavíkurflugvallar (eða braut 24 sem er þó sama brautin í gagnstæða stefnu) er sú stysta af þeim þremur og minnst notuð þess vegna. En þegar ég þarf að nota hana, þá stendur sérstaklega á. Þessi braut nýtist nefnilega þegar kári blæs af hvað mestum móð, annað hvort af norðaustri eða suðvestri. Slíkt gerist af og til. Og þá er veðurlag gjarnan þannig á landinu að fréttnæmt þykir, aðvaranir um storm gefnar út af veðurstofunni o.s.frv. Og þegar hvössustu byljirnir ganga yfir Faxaflóasvæðið, þá blása þeir semsagt oft af norðaustri eða suðvestri, sem einmitt gerir þessa gömlu, litlu flugbraut nauðsynlega. Því án hennar væri þá ekki hægt að lenda eða taka á loft í borginni, og raunar hvergi á suðvesturhorni landsins. Þessu er sýndur sá skilningur af núverandi borgaryfirvöldum og innanríkisráðherra að nú á að láta þessa flugbraut víkja og troða í hennar stað 3000 manna íbúðarhverfi í litlum krika, sem þá verður til inn af Skerjafjarðarhverfinu. Það þarf nefnilega að "þétta byggðina". Það er víst mikilvægara en að flugstarfsemi geti áfram farið fram af jafnmiklu öryggi í Vatnsmýrinni eins og hingað til. Nú verð ég  biðja lesendur forláts á "tilfinningaklámi", áður en lengra er haldið, vegna þess að þeir farþegar sem ég flyt til borgarinnar í vinnunni minni, eiga oftast brýnna erindi þangað en flestir aðrir flugfarþegar. Erindi þeirra er að komast í hjartaþræðingu, fæðingarhjálp eða nýburagjörgæslu, meðferð vegna alvarlegra meiðsla og ýmislegt fleira í þeim dúr. Og mikilvægi þessara aðgerða rýrnar ekkert þó kári blási hraustlega hvort heldur það er af norðaustri eða suðvestri. Það hvað þessum kúnnum mínum liggur á minnkar ekki heldur. Þess vegna er ómetanlegt að geta lent á braut 06 eða 24, þegar svo ber undir. Stundum kemur sér einnig vel að hafa val um þessa braut vegna ókyrrðar, en ég og kollegar mínir þurfum stundum að leggja okkur fram um að forðast hana, til að hlífa kúnnum okkar sem t.d. hafa hlotið alvarleg beinbrot. Á síðustu vaktatörn minni kom ég suður með konu í barnsnauð og stóð þannig á að allhvass vindur stóð af austri og braut í notkun var 13, þ.e.a.s. sú sem stefnir í suðaustur. En þar sem vindstefnan var mitt á milli brauta 06 (NA) og 13 (SA) kaus ég og fékk að nota gömlu brautina (06) vegna þess að aðflugið að henni bauð upp á mun kyrrara loft og þ.a.l. mýkra flug, heldur en gjarnan vill verða í aðflugi að 13 í þessari vindátt. Nú hef ég ekki reynslu af því að vera óléttur (þó annað megi virðast að sögn sumra) og þaðan af síður af því að hafa misst vatnið, sem mér skilst að geti skapað óþægindi fyrir bæði móður og barn, en ég held samt að þetta val mitt hafi verið til bóta fyrir þau tvö í þessu tilfelli. Og nú skora ég á þær Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, Hildi Sverrisdóttur, Áslaugu Maríu Friðriksdóttur, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og aðrar kynsystur þeirra í hópi "þéttinga byggðarsinna" að reka þetta ofan í mig ef ég fer hér með fleipur, ef þeim finnst að engu hefði breytt þótt ég léti hina verðandi móður hristast með krílið sitt inni í sér, dempunarlaust, niður lokaaðflugið að braut 13. 

Ýmis hugtök gerast teygjanleg þessi misserin og má sjá nýjasta dæmið um það í þessu svokallaða samkomulagi sem gert var milli ríkis og borgar um flugvöllinn nýverið. Þar segir borgarstjórinn að "flugvöllurinn muni verða starfræktur í núverandi mynd til 2022" skv. þessu samkomulagi. Þessi "núverandi mynd" er þó með þessum annmörkum, að braut 06/24 á að víkja strax á þessu ári fyrir tilstuðlan hans sjálfs og m.a. þeirra kvenna sem ég minntist á hér að ofan,  en þrjár þeirra bjóða sig fram í prófkjöri xD sem fram fer í dag. 

Góða helgi.

mbl.is Ný 800 íbúða byggð í Skerjafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband