Ódýrari flugeldar?

Þessi frétt gefur tilefni til smáhugvekju einmitt núna!

Í helgarblaði Fréttablaðsins birtist opnuauglýsing frá einhverjum flugeldaheildsala (Alvöru flugeldar) sem ég kann engin deili á, enda ekkert gefið upp um það. Það eitt er ljóst að tilgangurinn með þessari flugeldasölu er enginn annar en sá að þyngja pyngju þessa heildsala, hver sem hann er. Þetta er því miður einn af nokkrum aðilum sem sjá sóma sinn í að efna til samkeppni við björgunarsveitirnar okkar í flugeldasölu. Í auglýsingunni segir:"Ég mótmæli háu verði á flugeldum". Enda gengur auglýsingin út á undirboð í samkeppni við flugeldasölu björgunarsveitanna. Skoðum aðeins hvað fæst fyrir peninginn þarna.

Þegar afurðir þessarar flugeldasölu eru tendraðar fáum við fallega skrautsýningu sem varir í fáeinar sekúndur í hvert sinn, e.t.v. mínútur þegar stærstu terturnar eiga í hlut. Síðan er öllu lokið. Þessi viðskipti skilja þá ekki eftir sig annað en skammæja minningu um þessi púðurljós, en um leið aðeins feitari heildsala, jafnvel þótt hann hafi tekið minna fyrir söluna en björgunarsveitirnar. Hann mun njóta afraksturs síns í faðmi fjölskyldu, í hægindastólnum sínum, eða akandi um á jeppanum sínum, eða í rúminu sínu með breitt yfir haus, á meðan samkeppnisaðilar hans, björgunarsveitirnar, verja sínum feng í eldsneytis- og tækjakostnað í okkar þágu þegar hamfaraveður ganga yfir og þökin losna af húsunum okkar, einhver af meðbræðrum og systrum okkar týnist eða slasast fjarri byggð, eða ef flytja þarf sjúka og slasaða til læknisþjónustu við aðstæður þar sem venjulegum sjúkrabílum verður ekki komið við vegna aðstæðna. Sem sagt, þegar við kaupum "dýrari" flugeldana hjá björgunarsveitunum, þá fáum við ekki aðeins þessa fallegu skrautsýningu vörunnar sjálfrar, heldur svo miklu meira. Til marks um það er fréttin sem hér er bloggað um ásamt nokkrum fyrirsögnum fjölmiðla undanfarna daga:

"Leituðu 7 ára stúlku sem ekki skilaði sér" þar sem segir frá útkalli á Ísafirði á öðrum í jólum, en barnið fannst heilt á húfi skömmu síðar.

"Pakkarnir biðu fram á nótt" um annríki björgunarsveita á suðurlandi fram eftir aðfangadagskvöldi vegna ófærðar.

"Hátt í 200 manns björguðu jólunum" þar sem fram kemur hversu víðtækar aðgerðir björgunarsveita urðu um allt land um hátíðarnar.

"Björguðu 40 manns af heiðinni" varðandi útkall kl 5 á aðfangadag til hjálpar fólki á Mosfellsheiði.

"Árangurslaus leit að manninum" um leit að skipverja flutningaskips sem hvarf frá borði á Reyðarfirði skömmu fyrir jól.

"Björgunarsveitir kallaðar út" um eitt af fjölmörgum útköllum sem verða vegna ófærðar á Víkurskarði ásamt öðrum fjallvegum nyrðra hvern vetur.

"Sjúkraflug á jólanótt stóð tæpt" þar sem segir frá því er björgunarsveitir á austurlandi ásamt sjúkraflutningamönnum, læknum og vegagerðarmönnum lentu í ótrúlegum hrakningum þegar bráðveikur sjúklingur var fluttur frá Djúpavogi og í veg fyrir sjúkraflug á Egilsstöðum í fárviðri og ófærð. M.a. varð að flytja svæfingalækni frá Norðfirði í veg fyrir sjúklinginn á Reyðarfirði en þar á milli er einn torsóttasti fjallvegur landsins í svona hríðarbyljum, Oddskarð. Þar á eftir lá leiðin yfir Fagradal í fylgd stórrar vélskóflu en á þeirri leið fuku upp rúður í vélskóflunni auk þess sem sjúkrabíllinn bilaði á snjóflóðasvæði. Ekki kom til álita að þyrla LHG næði í sjúklinginn austur vegna fárviðrisins og því var eingöngu um landleiðina til Egilsstaðaflugvallar að ræða þrátt fyrir þessar kolómögulegu aðstæður. Aldrei var þó snúið við heldur var sjúklingnum skilað með sjúkraflugvél Mýflugs til Reykjavíkur undir morgun á jóladag.

"Erfiðir sjúkraflutningar yfir Fjarðarheiði" segir frá öðru sjúkraflugstilfelli til Egilsstaða síðar á jóladag en þá kom sjúklingurinn frá Seyðisfirði og þurfti því hjálp björgunarsveitar til að flytja hann yfir kolófæra Fjarðarheiði, einnig í hinu versta veðri.

Hér er engan vegin um að ræða tæmandi úttekt á afrekum björgunarsveita okkar í hrakviðrunum undanfarna hátíðardaga, en hvergi nokkurs staðar má sjá að liðveisla hafi borist frá öðrum þeim sem stunda flugeldasölu, en björgunarsveitunum. Ekki frá KR, ekki frá "Alvöru flugeldar" né nokkrum öðrum sem hasla sér völl í flugeldasölu. Aðeins frá björgunarsveitum Landsbjargar. Og ekki aðeins njótum við liðveislu þeirra þegar mest á reynir, heldur er hún endurgjaldslaus, hún byggist alfarið á sjálfboðavinnu hvers og eins félaga þessara sveita. Þetta fólk leggur frá sér námsbækur, jólapakka og víkur frá sinni vinnu og segir skilið við þægindaramma hversdagsins hvenær sem kallið berst og gefur allt sitt framlag í okkar þágu. En breyttu jepparnir og snjóbílarnir og vélsleðarnir og allur annar sérhæfður búnaður sem nýtist þessu ósérhlífna fólki við að koma okkur til hjálpar, að ekki sé minnst á eldsneytiskostnaðinn, allt er þetta kostað af flugeldasölu þessara sveita. Þarna er innifalinn svo gríðarlegur bónus sem við fáum í viðskiptum við sveitirnar okkar um hver áramót. Við fáum ekki aðeins skrautsýninguna okkar heldur einnig svo óendanlega miklu meira.

Ég vona að þeir sem versla annars staðar en hjá björgunarsveitunum finni til öryggis þegar þeir þurfa að kalla eftir liðsinni og jafnvel neyðarhjálp KR-inga, "Alvöru flugelda" og annara tækifærissinnaðra flugeldaheildsala.

Eigið öll gleðilegt ár og slysalaus áramót.


mbl.is Slasaðist á Ingólfsfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hverju orði sannara Þorkell.

Geir Jón Þorsteinsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 16:50

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir þessa færslu!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 29.12.2013 kl. 18:13

3 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Hverju orði sammála góð grein.

Sigurlaugur Þorsteinsson, 29.12.2013 kl. 21:14

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eg hefði viljað sjá gjaldskrá björgunarsveita fyrir veitta þjónustu fremur en þessa dæmalausu flugeldasölu.

Flugeldar geta verið stórhættulegir í höndum óvita. Þeir eru framleiddir í Kína sjálfsagt við misjafnar aðstæður þar sem öryggismál eru kannski ekki upp á marga fiska, vinnutími óhóflegur og launakjör fyrir neðan allar hellur. Flugeldar hafa mengun í för með sér.

Er þetta góður grunnur til að byggja starfsemi björgunarsveita á?

Víða um heim er almenningi bannað að brúka flugelda bæði vegna slysahættu. Þá eru það sveitarfélög í samvinnu við herinn og björgunarsveitir sem standa að skipulagðri flugeldasýningu.

Við getum minnst alvarlegra kjarrelda vegna flugelda í Skorradal fyrir ári síðan. Þar hefði getað farið verr.

Mér finnst löngu vera kominn tími að þessi mál séu skoðuð.

Guðjón Sigþór Jensson, 29.12.2013 kl. 22:47

5 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Flott færsla, takk fyrir þetta...

Eiður Ragnarsson, 29.12.2013 kl. 23:04

6 Smámynd: corvus corax

Flottur pistill Þorkell. Það er akkúrat þetta sem þú lýsir sem vekur mér notalega kennd þegar ég versla við björgunarsveitirnar og hreint út sagt borga ég nokkrum þúsundköllum meira fyrir viðskiptin með mikilli ánægju af því að ég veit hvert ég get leitað ef í nauðirnar rekur. Frábær starfsemi, unnin af frábæru fólki og yfirleitt við hinar verstu aðstæður. Verslum við björgunarsveitirnar, þannig fáum við mest fyrir peningana hver sem verðmiðinn er á fírverkinu.

corvus corax, 29.12.2013 kl. 23:25

7 identicon

Guðjón Sigþór, þarna get ég ekki verið þér alveg sammála. Gjaldtaka fyrir að bjarga fólki á að mínu mati ekki rétt á sér. Það mun bara valda meiri vandræðum ef fólk þarf að fara að reikna út hvert það hefur efni á að láta bjarga sér eða ekki. Þetta gæti svo orðið til þess að fólk fer að leita til vina og kunningja um aðstoð og hvað höfum við þá, bara stærra vandamál. Fólk getur alltaf lent í þeirri aðstöðu að þurfa að fá aðstoð hversu vel sem það er búið og ferðin vel undirbúin. Er ekki líka alveg nóg fyrir fólk að vera í erfiðum aðstæðum þó það þurfi ekki að bæta við það peningaáhyggjum.

Hvað flugeldaframleiðslu í Kína varðar þá er hún eftir ströngum kröfum hvað varðar gæði og öryggi enda fengjust þessir flugeldar ekki fluttir inn til Evrópu án þeirra.

Ég get hinsvegar verið sammála með mengun af flugeldum og hættu sem þeir skapa og það mun koma að því að það verður þrengt mjög að þessu. Það er ljóst að eitthvað annað þarf að koma í staðinn og því kannski orðið tímabært að fara að huga að slíku.

Eitt er alveg á hreinu, látum okkur ekki detta í hug að láta Ríkið fara að reka björgunarsveitirnar því þá mætti alveg eins leggja þær niður strax.

Björn björgunarsveitarmaður (IP-tala skráð) 30.12.2013 kl. 14:23

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvernig væri að skoða þetta betur Björn björgunarsveitarmaður? Hvers vegna setja björgunarsveitir sér ekki sanngjarna gjaldskrá sem færi eftir umfangi? Lágt gjald fyrir aðstoð og hærra þegar um er að ræða kæruleysi og allt að því léttúð gagnvart aðstæðum? Ef fólk er tilbúið að kaupa flugelda fyrir tugi ef ekki hundruði þúsunda ætti þetta sama fólk að geta greitt fyrir björgun og leit.

Er betra að selja varhugaverða hluti eins og flugelda? Mikil mengun stafar af þeim og þeir hafa reynst mjög varhugaverðir. Nánast um hver áramót slasast alltaf einhverjir og sumir jafnvel mjög alvarlega, annað hvort af kæruleysi en ekki er unnt að útiloka galla á flugeldunum.

Við ættum að fylgja öðrum þjóðum hvað þetta varðar. Eg þykist vita hvernig þessum málum er háttað í Austurríki, Þýskalandi og Sviss. Þar verður að greiða fyrir veitta aðstoð.

Guðjón Sigþór Jensson, 3.1.2014 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband