27.5.2014 | 08:09
Siðleysi Dags B. Eggertssonar, læknis.
Formaður borgarráðs og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, læknir, hefur m.a. boðið okkur upp á eftirfarandi fullyrðingar varðandi flugvöllinn okkar í Vatnsmýri og sjúkraflug tengt honum:
1. "Það hefur aldrei verið sannað að nálægð flugvallar við sjúkrahús hafi bjargað mannslífum"!
Á opnum kynningarfundi um nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar, ráðhúsinu, 30 maí, 2013.
2. "Lega flugvallar og sjúkrahúss fara ekki saman"!
Sama tækifæri, en engar skýringar fylgdu þessari fullyrðingu.
3. "Í flestum tilfellum hefur tímalengd flutnings ekki áhrif á líðan sjúklings"!
Á ráðstefnu um Reykjavíkurflugvöll, sem haldin var af HR á hótel Loftleiðum, þ. 19. janúar 2012. Einnig þar svaraði Dagur því til, aðspurður úr sal af fyrrum héraðslækni á Akureyri, að lega Landspítala tæki ekki mið af legu flugvallarins. Þessu fylgdu engar skýringar.
4. "Aðeins er þörf á flýti fyrir fyrstu aðkomu á vettvang slysa eða veikinda. Eftir það liggur ekkert á"!
Á áðurnefndri ráðstefnu HR.
Varðandi lið 1. er það að segja mér er til efs að Dagur sé tilbúinn að bera ábyrgð á því ef við eigum að framkvæma tilraunir til að uppfylla einhverja sönnunarbyrði hvað þetta varðar. Ég held að fæstir lesenda minna þarfnist frekari skýringa á því, þar sem fórnarkostnaður slíkra tilrauna mælist í mannslífum og / eða möguleikum á bata hjá þeim sem þarna yrðu gerðir að tilrauna"dýrum".
Fullyrðingin í lið 2. er eins og áður segir með öllu órökstudd.
Fullyrðingin í lið 3. er ótrúlega lágkúruleg "röksemdafærsla" þótt hún kunni að vera "rétt" að nokkru leyti, þar sem hún skilur eftir þessa spurningu: Hvað verður þá um hina, þessa fæstu sem út af standa? Nefnilega, "flest tilfelli" taka aðeins til hluta þess fólks sem flutt er í sjúkraflugi til Reykjavíkur, en ekki allra, svo þá er eftir að vita hvað á að verða um hina sem verða út undan. Að því hef ég spurt Dag lækni í opnu bréfi til hans og við fleiri tækifæri, en honum finnst líklega ekki taka því að svara svona smámunasemi. Gera verður því að óbreyttu ráð fyrir því, að honum þyki þetta ásættanlegur fórnarkostnaður.
En það sem Dagur læknir segir í lið 4. er í raun kveikjan að þessum pistli. Hér er nefnilega um meinlega staðreyndavillu að ræða. Og það veit Dagur læknir ósköp vel svo ljóst er að hann talar gegn betri vitund. Það er ekki lengra síðan en í gærkveldi (þegar þetta er ritað, 26. maí, 2014), að ég flaug sjúkraflug með erlendan ferðamann austan af landi til Reykjavíkur, og á sömu stundu og flugvélin snerti flugbrautina þar syðra urðu læknir og bráðaliði í áhöfn minnin að hefja lífgunartilraunir, sem stóðu síðan sleitulaust gegn um flutninginn síðasta spölinn með sjúkrabílnum að bráðamóttöku landsspítalans og allnokkurn tíma eftir komuna þangað, án þess þó að bera árangur.
Nú hef ég áður spurt Dag lækni, án þess hann hafi í nokkru hirt um að svara því, hvernig mögulegt er að láta þessa fullyrðingu hans, sem fram kemur í lið 4. hér að ofan, ríma við það þegar sjúklingar hafa orðið að þiggja endurlífgun á lokametrum flutningsins, ýmist með eða án árangurs.
Enginn þarf að segja mér að Degi B. Eggertssyni sé ókunnugt um þær æpandi staðreyndir sem standa naktar gegn þessari fullyrðingu hans. En fullyrðingin ásamt með hinum, sem hér voru raktar, sem og framganga hans gegn flugvellinum, í blóra við meirihlutavilja borgarbúa og landsmanna (sem sýnir sig afdráttarlaust í margendurteknum skoðanakönnunum undanfarinna ára sem og í stærstu undirskriftasöfnun landsins til þessa) lýsir slíkri mannfyrirlitningu maður verður orðlaus.
Ég get ekki flokkað þetta öðruvísi en sem hreina siðblindu.
Og þetta gæti, ef svo fer sem horfir, orðið næsti borgarstjóri, í þessari höfuðborg Íslands. Eitt af fáum vopnum sem kjósendur hafa gegn þessu siðlausa ofríki er að sniðganga flokk Dags B. Eggertssonar, ekki aðeins í borginni heldur alls staðar á landinu. Það sama þarf að gera varðandi samstarfsflokk hans, "Bjarta framtíð", sem og VG, þar sem borgarfulltrúar þeirra, núverandi og væntanlegir, skirrast einskis til að halda áfram á sömu braut.
Meginflokkur: Samgöngur | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Glætan í þessum fullyrðingum DBE, og þetta á að heita læknir!! Það var þá læknirinn, segi ég þá! Ég er líka löngu búin að fá mig fullsadda af bullinu og þvælunni í honum og farin úr flokknum líka. Ég ætla ekki að kjósa hann fyrir allt það skipulagsrugl, sem hann er svo óforskammaður að bjóða okkur borgarbúum upp á, og að ætla að taka flugvöllinn frá okkur líka er hreint glapræði. Það er svo fjarri því, að hann eigi þann stuðning skilið, sem virðist vera í kortunum núna, en skoðanakannanir eru ekki kosningar. Vonandi átta kjósendur sig á því í tíma, hvílíkt glapræði það væri að kjósa þetta yfir okkur áfram. Svona strákur, sem að auki titlar sig sem lækni, má alls ekki verða borgarstjóri.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2014 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.