20.8.2016 | 11:32
Hve djúpt ristir sviksemi Bjarna Ben?
Óneitanlega hafa síðustu atburðir í flugvallarmálinu orðið til þess að nú sér maður sögu málsins í nýju ljósi.
Þegar fregnir bárust af því fyrr í sumar að hæstiréttur hefði dæmt innanríkisráðuneytið til að standa við samkomulag þeirra Hönnu Birnu og Jóns Gnarr frá því 2013 um lokun neyðarbrautarinnar, barst samdægurs önnur frétt um viðbrögð ráðuneytisins við dómnum. Sú frétt var sýnu verri því hún gaf til kynna að Ólöf Nordal, sem áður hafði gefið ákveðinn tón til stuðnings flugvellinum í óbreyttri mynd, lét nú undan áreynslulaust með öllu. Ekkert skyldi reynt til að spyrna við fótum þó svo meirihluti Alþingis, sjálft löggjafarvaldið, standi bak við ráðherrann og ríkisstjórnina. Dómstólar dæma jú eftir lögum frá Alþingi. Nei, nú skyldi aðeins lúffað fyrir þeim ofstækisöflum sem taka lóðabrask framar öryggishagsmunum almennings. Þrátt fyrir að öryggishagsmunir landsmanna væru augljóslega hafðir að engu í dómnum. Þrátt fyrir fyrri afdráttarlausar yfirlýsingar um stuðning við flugvöllinn í óbreyttri mynd. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um alvarlega ágalla í undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðrar lokunar brautarinnar ásamt með hagsmunatengslum aðila í þeirri undirbúningsvinnu. Þrátt fyrir skerðingu flugöryggis, sem bent hefur verið á og ekkert mótvægi hefur verið fundið við. Þetta er algjörlega á skjön við þann karakter sem Ólöf hafði sýnt í þessu máli. Atburðirnir í fyrradag sem afhjúpa þátt formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, í þessu ferli öllu, afhjúpa nefnilega fleira sem hefur legið á málinu eins og mara undanfarin misseri. T.d. þessa viðhorfsbreytingu Ólafar.
Annað sem sjá má nú í skýrara ljósi er þráseta manns í sæti forstjóra Isavia, þrátt fyrir yfirgengilega vanhæfni og í raun glæpsamlega framgöngu gegn flugöryggi til að reyna að réttlæta undirbúning lokunar neyðarbrautarinnar með fölsuðum forsendum sem matreiddar voru (af Eflu-verkfræðistofu, sem á hagsmuna að gæta í málinu) á skjön við reglur um flugvelli og útreikninga á nothæfisstuðli flugvalla. Fleiri furðumál tengd Isavia hafa tröllriðið fréttum undanfarið, m.a. misnotkun fjármuna félagsins til að hygla fjölskyldu forstjórans, blygðunarlaus brot á upplýsingalögum, mismunun aðila í útboðum, hreint ótrúlega frjálsleg meðhöndlun mála sem varða flugöryggi þegar kemur að úrvinnslu áhættumatsgerða, svo fáein dæmi séu nefnd og nú síðast að því er virðist hvarf gagna þegar eftir er leitað. En Björn Óli Hauksson situr sem fastast eins og kóngur í ríki sínu í ríkinu og kemst upp með öll misferli sem honum sýnist. Og hvað ætli geti skýrt þá misfellu í sjórnsýslu okkar? Jú hann situr í skjóli fjármálaráðherra sem er handhafi alls hlutafjár Isavia ohf. Þess hins sama sem nú hefur afhjúpað sig sem einn helsta andstæðing landsbyggðar og flugöryggis á Íslandi. Manns sem hefði verið svo í lófa lagið að stýra flugvallarmálinu í farveg eftir vilja almennings og þá ekki síst flokkssystkyna sinna sbr. afdráttalausar stuðningsyfirlýsingar allra landsfunda Sjálfstæðisflokksins mörg undanfarin ár. Svo virðist sem breytni Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, hafi allan tímann verið Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, þóknanlegar.
Við höfum nú haft tveggja flokka ríkisstjórn bróðurpartinn af kjörtímabili, hverra flokkar hafa lýst afdráttalausum stuðningi við óskertan Reykjavíkurflugvöll. Samt horfum við nú upp á það að borgaryfirvöldum og Valsmönnum, með fulltyngi Isavia og Eflu-verkfræðistofu (sem jafnframt er stór hagsmunaaðili í málinu) er að takast að valda þjóðinni óbætanlegu tjóni á flugvellinum okkar allra. Það sem meira er, það er ekkert áþreifanlegt í sjónmáli hjá Alþingi til að sporna við endanlegri eyðileggingu flugvallarins í heild eftir aðeins sex ár í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Það hefur vakið furðu hve seint og illa ríkisvaldið hefur brugðist við þessari ískyggilegu þróun, í raun ekki neitt, þrátt fyrir digurbarkalegar stuðningsyfirlýsingar. Nú sætir þetta engri furðu lengur, því í fyrradag kom í ljós hvers lags þungavigtaraðili er að bregðast okkur.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur leikið tveimur skjöldum. Grasrótin í flokki hans hefur ekkert að segja. Landsfundir flokksins hafa ekkert að segja. Það er hann, formaðurinn, sem stýrir þessu máli og heldur hlífiskildi yfir vanhæfum forstjóra ríkisfyrirtækis til að stýra undirbúningsvinnu gegn flugvellinum til þóknanlegrar niðurstöðu, og afsalar síðan lóðabröskurunum landið undan neyðarbrautinni svo fjármálaöflin hafi sitt fram.
Á kostnað okkar hinna, almúgans.
Hvað finnst almennu sjálfstæðisfólki, t.a.m. sveitar- og bæjarstjórnarfulltrúum flokksins um allt land, um þessa sviksemi formanns flokksins í þessu mikilvæga máli?
Þegar að því kemur að forgangsútkall útheimtir neyðarbrautina til að hægt sé að skila sjúklingnum til lífsnauðsynlegrar aðhlynningar, og missir brautarinnar kemur í veg fyrir að viðkomandi njóti þessarar aðhlynningar, hver sem afleiðing þess kann að verða, vill Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur axla þá miklu ábyrgð? Á Bjarni Benediktsson að komast upp með að varpa þessari ábyrgð á flokkinn sem þó hefur það á stefnuskrá sinni að verja þennan flugvöll?
Um bloggið
Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð grein hjá þér Þorkell.Því má líka bæta við að hvorki heyrist hósti né stuna frá flugvallavinum. Hefur einhver hugsað útí hvað Bretarnir hafa eytt mörgum milljörðum að núvirði í að alla uppfyllinguna í Vatnsmýrinni. Ég held að margur braskarinn myndi fölna ef hann þyrfti að greiða það gjald fyrir lóðirnar þarna. Bara sá þáttur að afhenda svo lóðirnar þarna nánast frítt, bara það er geðbilun á háu stigi.
En það er langt síðan ég áttaði mig á því að Bjarni Ben og flestir aðrir pólitíkusar eru ekkert annað en "puppy dogs" fjármálaaflanna og þessu liði er skítsama um einhvern slatta af mannslífum úti á landi.
Svo eru mörg fleiri atriði sem mætti nefna en læt þetta gott heita í bili.
Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.8.2016 kl. 21:45
Oho - orð í tíma töluð Keli.
Ólöf byrjaði vel greyið, en virðist nú hafa verið barin til hlýðni. Hún hefur þó þá málsbót að hún er ekki kjörinn fulltrúi á þingi, og þarf því ekki endilega að fylgja eigin sannfæringu eins og stjórnaskráin krefst af kjörnum fulltrúum á þingi. Hún getur því látið flokkslínuna ráða (þ.e. línu hins raunverulega valds í flokknum, skítt með grasrótina) án þess að svína á stjórnarskránni.
Bjarni Bulla virðist hinsvegar sýna sinn rétta lit núna. Höfum það hugfast í kosningunum í haust.
Það er margt sem bendir til að næsta stjórn hafi miklu stærri hnöppum að hneppa en einstaka hagsmunum hinna ýmsu byggða, en ef þeim tekst að koma beinu lýðræði á koppinn í einhverri mynd, er loks hægt að bretta upp ermar, grípa skófluna og byrja að moka skít í stórum stíl...
Hálfdán Ingólfsson (IP-tala skráð) 21.8.2016 kl. 23:20
Ég vil taka það fram, að ég er andvígur því að hróflað verði við Reykjavíkurflugvelli; hann á að fá að standa nothæfur með öllum brautum. Því miður hafa stjórnendur Reykjavíkurborgar skellt skollaeyrum við því og mér segir svo hugur um að langtímamarkmið þeirra sé að koma vellinum öllum undir íbúðarbyggingar. Því verði öðrum brautum lokað með klækjabrögðum. En ég verð að segja, að ég skil ekki þessa árás á Bjarna Benediktsson. Greinarhöfundur segir að þáttur hans í ferlinu hafi verið afhjúpaður? Hvenær? Hvernig? Hver var þáttur hans. Líka segir að hann hafi leikið tveimur skjöldum, en hvernig? Ekkert er útskýrt og því get ég enga ályktun af eða á dregið af pistlinum. Og ég spyr, hvað getur ráðherra gert eftir að Hæstiréttur hefur lokað neyðarbrautinni? Hann á engan kost held ég, því miður. Nú er bara að sjá hvort menn standa við stóru orðin frá í vor og leggi fram frumvarp til laga um að Reykjavíkurflugvelli verði þar sem hann er um ókomna tíð með öllum brautunum sex nothæfum.
Ágúst Ásgeirsson, 22.8.2016 kl. 13:52
Las næstu færslu Þorkels Ásgeirs eftir að ég skrifaði innleggið hér fyrir ofan. Þá áttaði ég mig á stóryrðunum um Bjarna Benediktsson. Honum til varnar skal sagt, að eftir dóm Hæstaréttar varðandi lokun Reykjavíkurflugvallar átti hann enga völ. Þau Dagur B. og Katrín Jakobsdóttir þáverandi fjármálaráðherra gerðu nefnilega bindandi samning 1. mars 2013 um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð. Aðeins þyrfti að bíða eftir lokun brautarinnar til að afsal yrði afhent. Það er því Samfylkingin og Vinstri Grænir sem bera sökina í þessu afsalsmáli, eins og í öllum tilraunum til að eyðileggja flugvöllinn. Landsfundarsamþykktir Sjálfstæðisflokksins eru ekki lögum æðri (því maður, væri ég alveg tilbúinn að segja um þær sem varða flugvöllinn).
Eina vonin úr þessu er að flugvallarvinir fái dómstóla til að taka undir með þeim að engin heimild hafi verið fyrir því að seLja OG AFSALA borginni landið.
Ágúst Ásgeirsson, 22.8.2016 kl. 14:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.