xD og þriðji orkupakkinn

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lengi notið þess kjörfylgis sem hann hafði mestalla síðustu öld. Þar munar u.þ.b. þriðjungi og virðist sem forysta flokksins sé farin að gera sér þetta að góðu.

En hvað skyldi valda þessu? Mér þykir það lýsandi sem ég heyri hjá ansi mörgum að þeim finnist þeir eiga góða samleið með málefnaskrá Sjálfstæðisflokksins, en geti því miður ekki treyst því að forysta flokksins framfylgi henni! Þess utan blasir við að mjög afdráttarlausar kröfur almennings í stórum málaflokkum eru hunsaðar af flokknum. Vart er þess að vænta að þetta stjórnmálaafl rétti almennilega úr kútnum meðan bæði almenningur og sjálf grasrót flokksins og jafnvel landsfundir hans eru svo lítilsvirtir sem raunin sýnir. Lítum á nokkur dæmi um þetta.

Á undanförnum fimm árum hefur almenningur skilað stjórnvöldum tveimur stærstu undirskriftasöfnunum í sögu þjóðarinnar.

Í fyrra tilfellinu er um að ræða kröfu um veru flugvallarins í Vatnsmýri í óbreyttri mynd. Ekki er nóg með að borgaryfirvöld sýni þessari kröfu fullkomna lítilsvirðingu, heldur gerðist það síðan að þáv. (og núv.) fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð stærsti gerandinn í skerðingu vallarins með lokun neyðarbrautarinnar. Eftir að ríkið tapaði dómsmáli að tilstuðlan borgaryfirvalda, þar sem nákvæmlega ekkert tillit var tekið til öryggishagsmuna allra landsmanna í málinu, var Bjarni Benediktsson ekki seinn á sér að selja borginni stóran hluta landsins undir þessari flugbraut. Hann gerði ekki hina minnstu tilraun til að grípa til varna fyrir þessa öryggishagsmuni, þó dómurinn gæfi nokkurra mánaða frest einmitt til þess og útlistaði m.a.s. í dómsorðinu hvernig slíku yrði við komið. Mikið lá formanninum á að selja, og það þó gjörningurinn fæli í sér átroðslu á ladsfundarsamþykktum hans eigin flokks auk þess að ganga gegn afdráttarlausri kröfu almennings. Þarna afhjúpaðist einnig stór þáttur í andvara- og aðgerðarleysi Alþingis gagnvart blygðunarlausri aðför borgaryfirvalda því forysta stærsta flokksins þar var eftir allt saman aldrei með þjóðinni í liði í þessu máli.

Seinni krafan sem þjóðin gerði til stjórnvalda með þessum mjög svo skýra hætti var um að setja heilbrigðismálin okkar í öndvegi. Að þau yrðu sett langtum ofar á forgangslista við gerð fjárlaga. Okkur blöskrar nefnilega ástandið í þeim málum almennt, biðlistarnir, lokanirnar og niðurskurðirnir, álagið á starfsfólkinu og tíðni læknamistaka vegna þess, ástand húsakosta og búnaðar, ótrúlega lágkúruleg framkoma við starfsstéttir í þessum geira í kjarabaráttu þeirra, þ.e.a.s. heildarástandið á málaflokknum sem er í sögulegu lágmarki vegna langvarandi og þrúgandi fjársveltis. S.l. fimm ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórn og sjálfur formaðurinn ýmist haft að gera með fjármála- eða forsætisráðuneyti auk þess sem flokkurinn stýrði velferðarráðuneytinu um tíma. Og þótt vissulega megi telja upp eitt og annað afmarkað mál sem fært hefur verið til betri vegar blöskrar okkur enn allt ofantalið. Heilbrigðismálin eru enn ekki í neinu öndvegi og erfitt að sjá að forysta Sjalfstæðisflokksins hafi nokkurn áhuga á að fylgja kjósendum sínum að málum hvað þau varðar.

Nú er í ráði að leggja fyrir Alþingi hinn svokallaða þriðja orkumálapakka ESB. Þessi lagabálkur víkur frá tveggja stoða kerfinu sem verið hefur við lýði í EES-samningnum. ESA, eftirlitsstofnun EES, og ACER, orkumálastofnun ESB, eiga skv. þessum pakka að vinna saman að úrlausn ágreiningsmála EN þó þannig að aðeins ACER fer með allann atkvæðisrétt, komi til slíkrar afgreiðslu. Þetta er klár tilfærsla á valdheimildum og aðkoma ESA þar með eingöngu til málamynda, svona til að friða EES-ríkin. Ekki er nóg með að þetta brýtur gegn EES-samningnum, sem einmitt byggir á tveggja stoða kerfinu, heldur er þessi valdatilfærsla skýlaust brot á stjórnarskránni okkar. En þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur reyndar áður brotið ísinn hvað þetta varðar, með einróma samþykkt samevrópskra persónuverndarlaga fyrr á árinu, sem einnig viku frá tveggja stoða kerfinu. Nú eru öll teikn á lofti um að forysta flokksins stefni að innleiðingu 3. orkupakkans. Á nýlegum fundi hverfafélaga xD í Valhöll um þetta mál, sá varaformaður flokksins (ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra), ekki ástæðu til að tjá sig um málið né sitja fundinn til enda. Á öðrum nýlegum fundi málfundarfélagsins Sleipnis á Akureyri, þar sem voru viðstaddir fimm þingmenn xD og þar af fjórir í framsögu og pallborði, komu fram afar varfærin svör varðandi þetta mál. Spurningu um það hvort þeir treystu sér til að fella frumvarpið á þeirri forsendu að um væri að ræða brot á EES-samningnum og stjórnarskránni var aðeins svarað af einum þingmannanna og á þá leið að ekki væri unnt að svara þessu nema eftir nánari skoðun og umræður! Kötturinn tiplar kring um heita grautinn! Loks hefur einn helsti framámaður flokksins til áratuga undanfarið birt bloggfærslur (einnig á fésbókarsíðu sinni) þar sem hann reynir að fegra þennan væntanlega lagabálk og kallar hann "meinlausan" fyrir okkur. Langir og líflegir umræðuþræðir á fb-síðu hans sýna glöggt hve einangraður hann er með þessar skoðanir sínar. En aðspurður (margítrekað) hvernig hann geti heimfært sviptingu ESA (annarar stoðarinnar í tveggja stoða kerfinu) á atkvæðisrétti sínum í samskiptum við ACER, við fullyrðingu sína um að 3. orkupakkinn falli ekki utan ramma tveggja stoða kerfisins hefur Björn Bjarnason svarað m.a. þannig að ég sé fastur í hjólfari og líði illa, tilsvör mín og allra annarra sem ekki taka undir hans mál séu "innihaldslaus", og nú síðustu daga erum við andstæðingar hans í málinu orðnir "ofstopamenn" og "stuðningsmenn stórfyrirtækja" sem hafa hér víst einhverra annarlegra hagsmuna að gæta! Þetta ásamt fleiru bendir því miður ekki til þess að vænta megi viðspyrnu úr þessari átt í þessu máli.

Skoðanakannanir sýna að almenningur er mjög eindregið á móti 3. orkupakkanum enda öllum ljóst sem kynna sér málið að mikið er í húfi og hagsmunir heimilanna gerðir léttvægir með þessum óskapnaði því við gætum innan fárra ára staðið frammi fyrir jafnræðiskröfu varðandi orkuverð á evrópska vísu! Þá liggur fyrir að andstaða almennings er einmitt eindregnust meðal kjósenda xD og loks blasir við algerlega afdráttarlaus andstaða grasrótarinnar í Sjálfstæðisflokknum gegn 3. orkupakkanum svo sem sjá má í skýrum landsfundarályktunum. Ef áhugi er fyrir því hjá forystu flokksins að hann endurheimti sitt fyrra traust meðal kjósenda, er orðið tímabært að sýna fram á að raunverulegt lýðræði ríki innan flokksins og að treysta megi því sem hann á að standa fyrir. Í stað foringjaræðisins sem Sjálfstæðisflokkurinn býr við í dag er nú komið að því fyrir Bjarna Ben, Þórdísi Kolbrúnu og kó að hlusta á almenning sem og eigin flokksmenn og hafna 3. orkupakkanum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband