27.1.2019 | 21:53
Fordæmi?
Lítið flugfélag ákvað síðasta vetur að veita betri þjónustu með meira sætaframboði, ekki síst fyrir ferðamannaiðnaðinn, og keypti í því skyni stærri flugvél, 35 sæta vél í stað 19 sæta vélanna sem fyrir voru. Vélin kom til landsins tímanlega fyrir síðasta sumar og hófst þá bæði skráningarferli og þjálfun áhafna. Nýþjálfun hvers flugmanns kostar milli 4 og 5 milljónir og skráningarferlið kostar líka dágóðan fjölda af milljónum, jafnvel tugi. En litla flugfélagið hafði miklar væntingar til þessa nýja atvinnutækis og sumarsins framundan.
Nú skal enginn dómur lagður á það hvað olli töfum á skráningu vélarinnar, en sumarið rann sitt skeið án þess að nýja flugvélin kæmist í gagnið. Líka haustið og raunar árið allt. Þjálfun áhafnanna rann úr gildi án þess að nýtast í eitt einasta flug. Auk þess hvíldi á litla félaginu fjármagnskostnaður nýju vélarinnar án þess að hún ynni neitt fyrir sér. Litla flugfélagið varð fyrir þungum búsifjum vegna þessa.
Loksins, meira en hálfu ári eftir að þessi flugvél hefði átt að hefja störf og stórauka afköst litla flugfélagsins, náðist þessi langþráði áfangi, skráningu vélarinnar lauk og endurþjálfun áhafna einnig og þessi glæsilegi farkostur hóf sig til flugs. Það sást ljós fyrir enda gangnanna.
En hvað gerðist þá? Þessi nýja flugvél, dýrasta og afkastamesta vinnutæki litla flugfélagsins var kyrrsett aðeins örfáum dögum eftir að hún hóf sig til flugs! Það kemur á daginn að Isavia, þetta ohf-þjónustufyrirtæki flugsamgangna á Íslandi, virðist hafa lögregluvald til geðþóttabrúks þar sem kyrrsetning þess á þessari flugvél þurfti engan atbeina sýslumanns. Starfsmenn Isavia gengu bara í verkið, drógu vélina úr flugskýli þar sem hún var í viðhaldi og læstu henni úti vetrarkuldanum, þar sem samningi sem áður var milli þessara aðila um skuld litla flugfélagsins við ohf-ið var rift einhliða af þeim síðarnefnda! Þegar þetta er skrifað eru að verða þrjár vikur frá þessari kyrrsetningu og þrátt fyrir góða viðleitni forráðamanna litla flugfélagsins til að leysa málið kemur allt fyrir ekki.
Litla flugfélagið hefur nýverið fjárfest í betri starfsaðstöðu á Reykjavíkurflugvelli fyrir nálega sömu upphæð og skuld þess við Isavia hljóðar upp á en tilboð um veð í þeim eignum strandar á fáránlegum tækniatriðum. Fáránleikinn í þeim fyrirslætti er svo fjarstæðukenndur að ljóst er að um hreinan útúrsnúning er að ræða. Hvernig sem hægt er að hártoga eignarhaldið á þessari aðstöðu er það litla flugfelagið sem hefur kostað þann mikla virðisauka sem þar er orðinn. Það er þá eitthvað nýtt ef ekki má veðsetja eða verðleggja slík verðmæti.
Ekki frekar en að koma til móts við litla flugfelagið að þessu leyti með húsnæðisveði eða upptöku og nýta þannig þau verðmæti sem flugfélagið stofnaði til, dettur sjálfskipuðu geðþóttalöggunni í hug að kyrrsetja neina af minni vélum litla flugfélagsins í stað þeirrar nýju eða yfirhöfuð reyna að milda þessar innheimtuaðgerðir með nokkrum hætti. Og séu t.d. póliríkusar spurðir um möguleika á að aflétta þessari aðför að litla flugfélaginu er svar þeirra á þessa leið: Það er svo erfitt að gefa þannig fordæmi!
Já einmitt það, fordæmi!!!! En sjáið til, fordæmið liggur fyrir nú þegar. Það liggur í sjálfri kyrrsetningunni því ekkert annað íslenskt flugfélag hefur þurft að sæta aðför eins og þessari. Að undanförnu hefur þó annað flugfélag átt í vök að verjast (en virðist blessunarlega vera að komast fyrir vind) og nemur skuld þess við Isavia u.þ.b. tuttugufaldri upphæðinni sem litla flugfélagið skuldar. Þar á bæ hefur engin flugvél verið kyrrsett. Þessi ohf-stofnun, sem er að fullu og öllu í eigu ríkisins, er með þessu framferði að gefa nýtt fordæmi um grófa mismunun milli skuldara sinna og brot á jafnræðisreglu. Siðferði stjórnenda Isavia rís ekki hærra en þetta. Enda segir einn fyrrverandi deildarstjóri til áratuga hjá Flugmálastjórn Íslands (sem að hluta til er forveri Isavia), Skúli Jón Sigurðarson, um þetta á fb:
"..... Þetta eru aldeilis breyttir tímar. Ég minnist þess ekki að "stóru" flugfélögin hafi fengið svona meðferð. Þetta er skemmdarverk - liggur við að ég segi óhæfuverk. Ég er alveg viss um það, að enginn gömlu flugmálastjóranna sem ég vann undir á sínum tíma, Agnar Kofoed-Hansen, Pétur Einarsson eða Þorgeir Pálsson hefðu staðið fyrir svona meðferð á "litla manninum"".
Og þegar við skoðum forsögu þessa litla flugfélags, sem hefur um langt árabil veitt afar faglega og góða þjónustu bæði hér innanlands og utan, þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem það upplifir þrengingar í rekstri sínum vegna erfiðra ytri aðstæðna, því t.a.m. er innanlandsflug á Íslandi ekkert auðvelt starfsumhverfi. En ævinlega hefur þetta litla flugfélag notið góðvildar, m.a. meðal stjórnmálamanna og -afla, og það verðskuldað. Það er því kristaltært að hér er á ferðinni pólitísk kúvending því þessi aðgerð miðar beinlínis að því að knésetja fyrirtækið. Í því ljósi þarf að sjá það sem hér á sér stað. Nefnilega, þessi kyrrsetning á stærsta og afkastamesta vinnutæki litla flugfélagsins stríðir beinlínis gegn bestu lausninni á skuldastöðu þess. Það er því klárlega annarleg ástæða fyrir þessari aðgerð.
Og hvers vegna tala ég hér um pólitík? Er ekki Isavia opinbert hlutafélag og er ekki einmitt talað um að ohf-stofnanirnar séu ríki í ríkinu sem fari sínu fram hvað sem tautar? Nú er það þannig að þessi ohf-stofnun, Isavia, er eins og aðrar slíkar í reynd ekkert annað en ríkisstofnun! Þetta ohf-fyrirkomulag reynist hins vegar afar vel til að fela pólitíska slóð ráðherra, þegar vinna skal t.d. óvinsæl verk eða verk sem beinlínis stríðir gegn öryggishagsmunum, reglum og alþjóðalögum og yfirlýstum vilja þjóðarinnar skv. skoðanakönnunum og undirskriftasöfnun (neyðarbrautin og aðrar aðfarir að Reykjavíkurflugvelli sem dæmi). Vissulega er slóð forstjóra Isavia skrautleg og einkennist af hreinum afglöpum og þekkingar- og skeytingarleysi gagnvart þörfum fluggeirans og öryggis hans. En þó ég treysti honum sannarlega til þessarar valdníðslu (af fenginni reynslu) býr meira undir en að þessi forstjóri gangi svona fram að eigin frumkvæði. Þessi skrautlegi slóði hans er í pólitíska þágu, en ráðherra felur sig hins vegar bak við þessa mýtu um sjálfstæði þessa "ríkis í ríkinu". Það afhjúpaðist vel eftir dómsuppkvaðningu þess efnis að loka skyldi neyðarbrautinni. Þrátt fyrir að í dómsorðinu væri gefinn þriggja mánaða frestur fyrir ríkið til að bregðast við og jafnvel þótt þar kæmi einnig fram leiðbeining til samgönguyfirvalda til að bjarga brautinni, þá afhjúpaði fjármálaráðherra vilja sinn í málinu með því að selja landið undan brautinni aðeins nokkrum dögum síðar og hunsaði þannig efnislega alla möguleika til varnar þessari flugbraut og þeim öryggishagsmunum sem við hana voru bundnar. Þessi ráðherra var, eins og nú, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Þarna réð gerðum hans eitthvað annað en vilji almennings í landinu og yfirlýst stefna hans eigin flokks eins og landsfundarsamþykktir hafa sýnt í áraraðir. Og það sýnir sig að þrátt fyrir fádæma afglöp og lögbrot (skv. úrskurði ICAO, Alþjóðaflugmálastofnuninnar) í framgöngu Isavia, gegnir forstjórinn enn stöðu sinni. Fjármálaráðherra er einmitt sá sem ræður hlutabréfum ohf-stofnananna og því ljóst að forstjóri þessi situr með velþóknun ráðherrans. Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia hefur staðið sig vel fyrir Bjarna Benediktsson.
Aftur að aðförinni að litla flugfélaginu. Hér þarf að spyrja hverjir hagnast á knésetningu þessa félags? Isavia gerir það ekki með því að kyrrsetja það vinnutæki sem helst getur skilað stofnuninni þessum gjöldum í kassann! Nei þetta er pólitík! Og hverjir eru það sem sjá ofsjónum yfir því að litla flugfélagið sé að stækka og/eða sjá möguleika á knésetningu og yfirtöku þess? Ég kann ekkert óyggjandi svar við því en hitt er ljóst að enginn hefur jafngóða aðstöðu til að stýra þessari atburðarrás en fjármálaráðherra með forráðamenn Isavia í opinberum forgrunni. Og vilji nú einhver kalla þetta samsæriskenningar og efast um að þarna á bakvið standi einhver annarlegur pólitískur vilji, þá skulum við einfaldlega líta á þetta frá öðru sjónarhorni og spyrja: Hver er í betri aðstöðu en Bjarni Benediktsson til að stöðva þessa aðför að litla flugfélaginu? Sjálfur fjármálaráðherra og pólitískur forráðamaður og fjárráðamaður Isavia? Formaður þess flokks sem helst hefur staðið fyrir því að hlúa að einkarekstri og sprotafyrirtækjum? Þ.e.a.s. ef vilji hans stendur til þess?
En kyrrsetningin hefur staðið nærri 3 vikur og ekkert sér fyrir endann á því. Og litla flugfélaginu blæðir.
Um bloggið
Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.