Opið bréf til Bjarna Benediktssonar

Nú tók steininn úr. Hneykslið sem umlykur nýlegt söluferli á hlut ríkisins (þjóðarinnar) í Íslandsbnka eins og fnykur af iðralofti, gerir endanlega út um allar þær leifar af trausti til þín sem ég átti eftir. Það mátti reyndar ekki við miklu. Flokkurinn okkar hefur aldrei borið sitt barr undir þinni stjórn. Hann hefur aldrei náð sér upp úr þeirri lægð í kjörfylgi sem hann var í þegar þú tókst við forystu hans. Og hvers vegna ætli það sé? Jú, hann hefur aldrei, undir þinni forystu, náð að vinna upp það traust sem kjósendur báru til hans áður. Flokkurinn sem þó hefur þá bestu málefnaskrá sem flokkaflóran hefur upp á að bjóða. Nú hefur þú ýmist verið fjármála- eða forsætisráðherra samfellt nærri áratug eftir viðskilnað vinstristjórnarinnar sem áður var. Og þennan tíma höfum við, í stað heiðarlegs uppgjörs við þá tíma sem þá voru nýafstaðnir, fengið að horfa upp á hver afglöpin eftir önnur í umsýslu ríkisfjármála, fullveldis og málefnum þeirra sem minna mega sín. Það er nærri jafn átakanlegt að horfa upp á þetta eins og til meirihlutans í höfuðborginni og öll afglöpin þar. Enda gerist það hvað eftir annað að framfylgni þín og flokksforystunnar er þvert á vilja flokksmanna eins og hann birtist okkur m.a. í landsfundarsamþykktum, sbr. orkupakkamálið og fleiri mál sem varða fullveldi okkar gagnvart ESB enda höfum við á þessari vakt þinni orðið vitni að niðurbroti tveggja stoða kerfisins, sem var grundvöllur þess að EES-samningurinn teldist ekki brjóta gegn stjórnarskrá okkar og fullveldi. Fyrir vikið sitjum við m.a. uppi með fáránlega íþyngjandi persónuverndarlög og innflutning á hráum kjötvörum og afsakanir ykkar um að það sé svo erfitt að sporna við innleiðingum evróppskra reglna, þrátt fyrir að um það séu sérstök ákvæði í EES-samningnum. Vart þarf að rifja hér upp stöðu heilbrigðismálanna sem sýnir sig í hræðilega sorglegum fréttum af læknamistökum vegna álagsins og manneklunnar sem þar er við lýði. Og ekki er þar heimsfaraldri um að kenna því svona var ástandið í málaflokknum fyrir þann tíma og hér er vert að minna á að almenningur sýndi fyrir ekki löngu síðan skýran vilja sinn hvað varðar stöðu þessa málaflokks, með einni stærstu undirskriftarsöfnun sem fram hefur farið hér á landi. Ég nefni líka skerðingu Reykjavíkurflugvallar sem þú tókst fullan þátt í í blóra við afdráttarlausan vilja flokksins okkar, og reyndar þjóðarinnar einnig, sem líka kom mjög skýrt fram í undirskriftarsöfnun (þeirri stærstu á þeim tíma), skerðingu sem sér enn ekki fyrir endan á. Framganga þín þarna er á pari við allt falsið og forsendufalsanirnar sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur gengist fyrir í þessu máli. Ég læt vera að rifja upp öll þau mál þar sem hagsmunir almennings rekast á þín einkamál og vina þinna og vandamanna, enda hrjáir þig einatt slíkt minnisleysi þegar þau ber á góma að líklega er það tilgangslaust. En það er kristaltært að þau mál öll eiga sinn þátt í að flokkurinn með sína glæstu málefnaskrá nýtur ekki þess trausts sem honum annars ber. Þú og þínir standa honum fyrir þrifum.

Bjarni Benediktsson, það er ekkert lengur sem réttlætir þig í ábyrgðarstöðu fyrir flokkinn okkar né fyrir þjóðina. Umsýsla þín og umgengni um eigur okkar er ekki boðleg. Þinn vitjunartími er kominn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Sæll Þorkell Ásgeir

Ég tek undir hvert orð í því sem þú ritar hér. Þegar BB stóð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn studdi Icesave III svik Jóhönnu stjórnarinnar var mér öllum lokið og sagði ég mig úr flokknum. Síðan þá hef ég ekki séð nokkra ástæðu til að snúa til baka þar sem BB hefur sýnt að honum er ekki treystandi fyrir velferð þjóðarinnar.

BB hefur aldrei getað gefið ákveðin svör um afstöðu hans til ESB aðildar svo dæmi sé tekið. Ljóst er að fleiri eru á sömu skoðun þar sem fylgi flokksins hefur hrunið í formanns tíð hans. En ég skil ekki að flokksmenn sem enn eru að reyna að halda flokknum á floti skuli ekki gera gangskör að því að skipta um mann í brúnni, þeir elta hann á röndum eins og ekki sé um neinn annan að ræða sem gæti tekið að sér að sigla fleyinu í örugga höfn.

Það er sorglegt að horfa uppá flokk sem hefur verið kjölfesta í íslenskum stjórnmálum steyta á skeri og vera komin að því að sökkva.

Að lokum óska ég þér gleðilegs sumars.

Tómas Ibsen Halldórsson, 20.4.2022 kl. 13:30

2 Smámynd: Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Sæll Tómas og takk fyrir þetta. Einmitt þetta sem þú segir um stuðning við Icesave-óhroðann gefur mér enn óbragð í munninn. Þá er til marks um það hve hliðhollur maðurinn er okkur almúgafólkinu, að enginn þingmaður er eins grimmur varðhundur verðtryggingarinnar en hann. Það er komið nóg af honum. 

Gleðilegt sumar til þín og þinna.

Kveðja að norðan. 

Þorkell Ásgeir Jóhannsson, 26.4.2022 kl. 08:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband