Afleiðingar niðurbrots Reykjavíkurflugvallar

Frá þeim tíma sem neyðarbrautinni var lokað og þar til ég lét af störfum sem flugmaður á sjúkraflugsvöktum, liðu um 2½ ár. Á því tímabili fékk ég tvö útköll sem vörðuðu hjartasjúkdóma og önnur þrjú með heilablæðingu, allt forgangstilfelli sem ekki reyndist unnt að sinna sem skyldi þar sem ekki var hægt að skila viðkomandi sjúklingum til nauðsynlegra sértækra læknismeðferða í Reykjavík. Vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur var lokaður. Vegna þess að neyðarbrautarinnar naut ekki lengur við. Og engar aðrar ytri aðstæður hömluðu gegn því að koma þessum einstaklingum til þessa áfangastaðar þar sem sértæku hjálparinnar naut við. Aðeins þetta suðvestan hvassviðri sem, ásamt með slökum hemlunarskilyrðum á öðrum brautum vallarins, varð þess valdandi að aðstæður á hinum flugbrautum Reykjavíkurflugvallar voru utan við þolmörk flugvélarinnar. Neyðarbrautin hefði leyst öll þessi mál líkt og hún hafði svo oft gert áður.

Og þetta var aðeins á minni vakt, eða á u.þ.b. fjórðungi þessa tímabils.

Þó ég viti ekki betur en að allir þeir forgangssjúklingar sem ég geri að umtalsefni hér hafi lifað af þessi bráðu veikindi sín var í öllum tilfellum um lífsógnandi ástand að ræða. Þá veit ég til að ekki allir hafa sloppið án varanlegrar heilsuskerðingar og þar með skerðingar lífsgæða, nokkuð sem líklega hefði mátt forða eða alla vega lágmarka, ef hægt hefði verið að skila þessu fólki til LSH innan þess tímaramma sem sjúkraflugsþjónustan býður upp á. Bara ef neyðarbrautin hefði fengið að vera í friði.

Við erum að líða fyrir þetta skemmdarverk á flugvellinum okkar. Það verður að vísu að viðurkennast að það var ekki varað við þessum afleiðingum nema e.t.v. svona þúsund sinnum, bara í nokkrum blaðagreinum og viðtölum með hjálp fjölmiðla og samfélagsmiðla og með því að efna til kynningar samfara undirskriftasöfnun sem aðeins skilaði um 70.000 undirskriftum. Svo það er vart við því að búast að Dagur Bergþóruson læknir og borgarstjóri og hans samstarfsfólk (Píratar, Viðreisn og VG) hafi áttað sig á hættunni sem þau voru að skapa með gerðum sínum.

Og auðvitað var til mikils að vinna, heilu íþróttafélagi var bjargað frá gjaldþroti og ýmsir aðrir hafa notið mikils fjárhagslegs ábata af þessum gjörningi. Ég hef oftsinnis spurt hvort hefur meira vægi hjá þeim sem véla með framtíð flugvallarins okkar, líf og heilsa fólks eða fjárhagslegur ábati lóðabraskara. Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur rækilega svarað því, enda er aðför þeirra að flugvellinum okkar alls ekki lokið. Hún er rétt að byrja og samningar þessa fólks við ríkið (okkur) um flugvöllinn eru marklausir, aðeins blekkingaleikur borgarstjórans og slektis hans eins og hefur sýnt sig í fréttum undanfarinna daga. Og eins og verið hefur alla tíð.

Maður hefði haldið að með svona afglapaslóða í eftirdragi (aðför að einkabílnum, hundrað milljarða borgarlínu sem aldrei mun skila arði, braggahneykslið, algert andvaraleyri í viðhaldi skólahúsnæðis, hörmulega fjármálastöðu o.m.fl.) ættu þeir sér vart viðreisnar von sem þar hafa verið í fararbroddi. Að minnihlutaflokkarnir gæfu nú vaxandi von til endurreisnar. Sér í lagi sá flokkur sem áður fór með hreinan meirihluta í borginni og alla tíð hefur verið kjölfestuafl hennar. En nei, það er nú eitthvað annað. Risið hefur aldrei verið lægra á Sjálfstæðisflokknum. Þannig vill til að bæði oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni og sjálfur formaður flokksins hafa sýnt bæði í orði og verki að stefna flokksins skiptir þau engu máli, hvorki í flugvallarmálinu né öðrum málum. Hildur Björnsdóttir hefur sýnt og sannað að hún telur sig hafna yfir vilja flokkssystkyna sinna eins og hann birtist m.a. í landsfundarsamþykktum. Þessi ólánstími Hönnu Birnu og Gísla Marteins er ekki liðinn meðan Hildar nýtur við. Svo þó Hildur njóti trausts þeirra sem hópuðust á opna prófkjörið til að kjósa hana, gildir klárlega ekki það sama um hinn almenna kjósanda. Og Bjarni Benediktsson, hann hefur orðið flokknum til meiri skaða en gagns. Gengi flokksins í borginni er klárlega að nokkru leyti afleiðing af gerðum hans sem fjármálaráðherra að undanförnu. Og varðandi flugvallarmálið legg ég afglöp Bjarna að jöfnu við eyðingaröflin í borgarstjórn. Þær afleiðingar af lokun neyðarbrautarinnar sem ég reifa hér að ofan, eru m.a. til komnar af því að Bjarni Benediktsson innsiglaði lokun hennar í kjölfar dómsmáls borgarinnar um það mál, með því að selja borginni hið snarasta landið undir hluta brautarinnar, þar sem nú á að byggja jafnvel inn fyrir flugvallargirðinguna! Í stað þess að nýta nokkurra mánaða frest sem dómurinn gaf, til að aðgæta betur möguleika okkar í málinu. Í stað þess að virða í nokkru það mögulega björgunarferli sem fram kemur í sjálfu dómsorðinu. Og í stað þess að nýta styrk þeirra öryggissjónarmiða sem sannarlega var komið þarna á framfæri. Bjarni hafði algerlega í hendi sér að bjarga neyðarbrautinni. En hann kaus að standa með fjármálaöflunum sem ágirntust landið undir henni.

Bjarni Benediktsson, þinn vitjunartími er löngu kominn.

Farðu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Frábær pistill.

Allir þumlar upp..

Sigurður Kristján Hjaltested, 11.5.2022 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband