Menntahroki forstjóra Eflu!

Guðmundur þorbjörnsson, forstjóri Eflu-verkfræðistofu, var í viðtali á Stöð2 í kvöld vegna skýrslna Eflu sem gefa grænt ljós á það að neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar sé látin víkja fyrir byggð. Hann sá ekkert athugavert við það, hvað þá vanhæfi, að hann væri sjálfur hluthafi í Valsmönnum, að hann hafi átt sæti í vinnuhópi um uppbyggingu á Valssvæðinu (sem byggir einmitt á þeirri forsendu að flugbrautin víki), og ekki heldur að verkfræðistofa hans, Efla, hafi einnig aðkomu að þeim framkvæmdum. Ekkert var í hans huga sjálfsagðara, þrátt fyrir þessi tengsl, en að það væri Efla sem framkvæmdi útreikningana sem réttlæta forsendufalsanir Isavia (bréf forstjóra Isavia frá 13. des. 2013), til að koma þessari flugbraut fyrir kattarnef. Og réttlæting Guðmundar Þorbjörnssonar, forstjóra Eflu, er þessi: "Það er leitað til Eflu vegna þess að við höfum sérfræðiþekkingu á því sviði sem að menn þurftu á að halda". Það svið sem um er að ræða eru útreikningar á nothæfisstuðli flugvallarins, en þeir byggja á því að meta aðstæður til hliðarvindslendinga. Sérfræðiþekking, öllu má nú nafn gefa! Guðmundur Þorbjörnsson og verkfræðingarnir hans hafa aldrei haldið um stýri flugvélar sem lent er í hliðarvindi á hálli flugbraut! Aldrei! Enda eru vinnubrögðin eftir því. Eflu þótti tilhlýðilegt að undanskilja hemlunarskilyrðin og vindhviður í útreikningum sínum, til þess einmitt að ná þeirri niðurstöðu að nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar væri ásættanlegur (97%) án neyðarbrautarinnar.

Þessar niðurstöður metur Isavia svo áreiðanlegar að þær hafa verið sendar Samgöngustofu til samþykktar, í stað þeirrar niðurstöðu sem fyrir lá hjá áhættumatsnefnd Isavia, áður en hún var leyst upp fyrir jól. Í þeirri nefnd voru fulltrúar flugfélaganna sem eru helstu notendur flugvallarins, m.a. undirritaður. Og forlátið mér þó ég segi það sjálfur, en við flugmennirnir erum sérfræðingarnir í málinu! Það erum við sem höfum reynsluna af þessum aðstæðum sem málið fjallar um. Það er okkar að glíma við hliðarvind og hálar flugbrautir, oft á tíðum nálægt getumörkum flugvélanna. Og það er á okkar ábyrgð, ekki Isavia eða "sérfræðinga" Eflu, ef við óvart lendum utan við þessi getumörk, en slíkt getur hæglega skeð þegar flugvélar eru starfræktar nálægt þessum mörkum. Tvö dæmi eru um þess háttar slys á undanförnum þremur árum, bæði raunar í Grænlandi en í annað skiptið með íslenskri flugvél. Hvort tveggja voru tiltölulega stórar farþegaflugvélar. Báðar flugvélarnar eyðilögðust og ekkert annað en mildi forlaganna réði því að ekki urðu slys á fólki.

Sjálfur tiltók ég nýlegt dæmi um þetta á þeim áhættumatsfundum sem ég sat, þar sem flugvél sem ég var sjálfur að lenda (sjúkraflugvél Mýflugs) við ýtrustu skilyrði, en þó innan marka skv. uppgefnum vindi og mældum bremsuskilyrðum, tók að skríða til hliðar undan hliðarvindinum og sífellt nær jaðri flugbrautarinnar, strax eftir lendinguna og því enn á mikilli ferð. Okkur flugmönnunum tókst að afstýra yfirvofandi slysi í það sinn, en eftir á að hyggja kom í ljós að örlítil hitastigsbreyting (um hálf gráða í hlýnun) hafði átt sér stað á þeim stutta tíma frá því athugunin átti sér stað þar til við lentum, með þeim afleiðingum að blautt yfirborð myndaðist ofan á ísingunni svo sandurinn sem dreifður var á brautina fyrir komu okkar hafði síðri áhrif til hálkuvarnar.

Þetta dæmi, ásamt þeim tveimur sem ég nefndi hér að ofan, hefur líklega talist lítilvægt í samanburði við "sérfræðiþekkingu" þeirra Eflumanna, enda er það einmitt þeirra niðurstaða (97% nothæfið altsvo) sem Samgöngustofa er nú að fjalla um og mun líklega samþykkja sem rök fyrir því að óhætt sé að svipta okkur því úrræði, sem flugbraut 06/24 (neyðarbrautin) býður okkur upp á þegar vindar blása hvað mest úr suðvestri eða norðaustri. Athugið að nýskipaður forstjóri Samgöngustofu er einmitt fyrrverandi borgarstjóri, Þórólfur Árnason, yfirlýstur andstæðingur Reykjavíkurflugvallar og skipaður í embættið af fyrrverandi innanríkisráðherra, öðrum fyrrverandi borgarstjóra og öðrum yfirlýstum flugvallarandstæðingi, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Nú ætla ég sem sérfræðingur og þó nokkur reynslubolti í hliðarvindslendingum (þó ég segi það sjálfur, vinsamlegast forlátið) að upplýsa lesanda minn um að hemlunarskilyrði (sbr dæmið mitt hér að ofan) ásamt vindhviðum eru einmitt lykilþættir í mati á því hvort óhætt sé að lenda við tiltekin skilyrði í hliðarvindi. En "sérfræðingunum" hjá Eflu þótti ekki taka því að hafa þessa smámuni með í útreikningunum. Það hefði skemmt niðurstöðuna!

Öllum þeim sem koma að vinnu sem tengist flugöryggi ber skilyrðislaust að láta öryggið njóta alls þess vafa sem upp kann að koma, auk þess að gera ráð fyrir verstu mögulegu uppákomum í athugunum sínum og útreikningum. Sú regla krefst vart skýringa. Isavia ásamt "sérfræðingunum" hjá Eflu hefur nú snúið þessari reglu á haus, því Valsmenn þurfa að byggja! Guðmundur Þorbjörnsson, forstjóri Eflu, getur verið stoltur af "sérfræðiþekkingu" sinni og sinna manna, þegar lóðabraskið hefur náð fram að ganga og blómlega byggðin rís að Hlíðarenda. Eftir stendur að ég og kollegar mínir sitjum uppi með þann myllustein að þurfa að ákveða hvort sé lendandi í Reykjavík eða ekki, við þau veðurskilyrði þar sem aðeins þessi flugbraut er enn í dag opin fyrir okkur á öllu suðvesturlandi. En þegar farþeginn okkar er í hjartaáfalli, eða nýkominn í heiminn langt fyrir tímann, eða með rofna ósæð eftir alvarlegt slys, eða með blóðtappa, og þarf jafnvel á ítrekuðum endurlífgunum að halda á leiðinni suður, ja þá eiga nú "sérfræðingarnir" gott að þurfa ekki að velja um þetta. Eða halda um stýrin þegar flugvélinni er lent við ýtrustu getumörk hennar vegna hviðugjarns hliðarvinds og ekki við ákjósanlegustu brautarskilyrðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Þorkell

Þessi ítarlegi pistill þinn ætti einn og sér að duga til að neyðarbrautinni yrði hlíft og "Valsmönnum" gert að halda sér í skefjum.

Eðlilegast væri auðvitað að íþróttavöllur væri við N/A enda brautarinnar, því einhversstaðar þarf sú aðstaða líka að vera.

Markviss áformin um eyðileggingu Reykjavíkurflugvallar er sláandi dæmi um þá gengdarlausa spillingu og hagsmunagæslu sem tröllríður landi og þjóð.

Jónatan Karlsson, 1.2.2015 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband