Isavia í "góðum" málum.

Það er vissulega ástæða til að gleðjast með starfsfólki Isavia yfir þessum glæsilega árangri. En gleði mín takmarkast því miður við þá staðreynd að í starfi mínu sem flugmaður í sjúkraflugi á ég einatt erindi til flestra annara flugvalla sem Isavia hafur það hlutverk að annast hér á landi.

Og ég vildi að hægt væri að segja jafngóða sögu af frammistöðu Isavia, t.d. í því hversu "vel" er gert við það einvala lið fólks sem ég og kollegar mínir þurfum að kveðja til aðstoðar á öllum tímum sólarhringsins, í öllum veðrum, hátíðisdaga sem aðra, allan ársins hring. Fólks sem við höfum getað treyst til að opna fyrir okkur flugbrautir byggðarlaga sinna í ófærð og illviðrum fyrirvaralaust og leggja á sig mikið erfiði til að öryggiskeðja sjúkraflugsþjónustunnar rofni ekki, þegar til þarf að taka.

Ég vildi geta glaðst yfir því hve vel Isavia rækir hlutverk sitt í viðhaldi þeirra flugvalla landsins þar sem heilar sveitir og byggðarlög reiða sig á þjónustu okkar. Eins og t.a.m. á Norðfirði þar sem staðsett er fjórðungssjúkrahús sem við þurfum oft að sinna og það gjarnan vegna bráðatilfella. En á Norðfirði er einungis aflöng drulluvilpa sem aðeins er brúkleg fyrir okkur sem flugbraut að vetrarlagi ef hún er frosin. Flugvélar okkar hafa orðið fyrir skemmdum þegar við athöfnum okkur þarna. Nú í vetur hefur þessi "flugbraut" verið ónýt mánuðum saman samfellt vegna klakabrynju, sem ekki fæst rudd vegna hættu á að þá yrði yfirborð brautarinnar sjálfrar rutt burt. Þetta ástand brautarinnar hefur verið Isavia fullkunnugt um margra ára skeið en þó heldur ástand hennar sífellt áfram að versna. Það gerist mun oftar vegna ástands þessarar flugbrautar en vegna veðurs, að við verðum að neita því að lenda þarna. Iðulega koma því upp tilfelli þar sem við þurfum að láta keyra sjúklinga frá Norðfirði til Egilsstaða þar sem við getum lent og tekið við þeim. Á þeirri leið verður um ókomin ár, þrátt fyrir ný jarðgöng sem nú eru í smíðum og leysa af hólmi hið illræmda Oddskarð, mikill farartálmi sem heitir Fagridalur. Um hann hafa verið farnar miklar svaðilfarir með sjúklinga frá Norðfirði og til móts við sjúkraflugvél á Egilsstöðum, þar sem sjúkra- og björgunarsveitarbílar í fylgd ruðningstækja vegagerðarinnar hafa verið hætt komnir á snjóflóðasvæðum og veðurhamir verið slíkið að rúður hafa brotnað úr hjólaskóflunni (þar síðustu jólanótt).

Lítið bólar á því að Isavia sýni landsbyggðinni skilning á þörfum hennar fyrir þá öryggiskeðju sem sjúkraflugsþjónustan veitir. Þeim flugvöllum sem enn þjóna áætlunarflugi er haldið í horfinu og naumlega það. Sjúkraflugvélin sækir hins vegar heim mun fleiri flugvelli, en því miður er það svo að þar sem ekki er reglubundið flug, þar hverfur allur metnaður Isavia til að viðhalda mannvirkinu. Sums staðar hefur heimafólk tekið sig til að eigin frumkvæði og haldið mannvirkjum og flugbraut í horfinu, þar sem skyldurækni Isavia brestur. Og hafa jafnvel hlotið skömm fyrir. Ekki verður annað séð en að forráðamenn Isavia sjái sér leik á borði og gangi á lagið til að loka flugvöllum eða láta þá drabbast niður, ef um annars konar samgöngubætur er að ræða á viðkomandi svæði. Mig grunar að þannig eigi hin nýju göng Norðfirðinga að réttlæta þetta fálæti varðandi flugbrautina þar, þrátt fyrir að farartálminn, Fagridalur, sé enn á sínum stað. Þannig fannst Isavia einnig við hæfi að loka Siglufjarðarflugvelli, um leið og Héðinsfjarðargöngin opnuðu. Þá var hugsunin væntanlega sú að nú væri ekkert til fyrirstöðu með að keyra sjúklingum þaðan til Akureyrar. Engu er skeytt um að enn er hættulegur farartálmi á þeirri leið þar sem er snjóflóðasvæðið sunnan Ólafsfjarðarmúla. Ófærð er líka algeng á þessari leið. Og endrum og sinnum lendum við flugmenn Mýflugs í því að fá ekkert samband við þjónustuaðila á þeim stöðum sem eru án áætlunarflugs, en sem Isavia hefur þó það hlutverk að halda við vegna sjúkraflugsþjónustu. Þar er stundum enginn við því Isavia sér ekki þörfina á að tryggja viðveru einhvers til að við getum sinnt því byggðarlagi. Þá er nöturlegt að sjá að þótt góður búnaður til blindaðflugs sé til staðar á tilteknum flugvelli, þá má ekki halda honum í notkun þrátt fyrir að þangað sé flogið áætlunarflug. Þar telur Isavia mikilvægara að spara þennan búnað en að auðvelda flugfélaginu að þjónusta þetta pláss.

Ég tek fram að hér er ekki við starfsfólkið sjálft að sakast á þessum stöðum. Það fólk gengur þvert á móti miklu lengra í framlegð sinni til þessarar samfélagsþjónustu en Isavia sér sóma sinn í að launa því fyrir. Þá eru umdæmisstjórar Isavia á Vestfjörðum, norðurlandi og Austfjörðum milli steins og sleggju vegna sífellt meira fjársveltis. Það skrifast þó ekki á blankheit Isavia. En forráðamenn þessa ríkishlutafélags, sem hefur lögum samkvæmt það hlutverk að reka flugvelli landsins og viðhalda þeim, virðast aðeins sjá þörfina til að vinna vinnuna sína þar sem flæða nógir peningar, sem sagt á stærstu flugvöllunum. Þar af sýnu mest á Keflavíkurflugvelli, samanber meðfylgjandi frétt. Sú afsökun að ekki megi flytja fjármagn milli flugvalla innan landa sem tilheyra ESB og EES er í besta falli fyrirsláttur. Nýleg stjórnvaldsaðgerð sýndi að þessi afsökun er haldlaus. Þetta snýst aðeins um vilja til að þetta fyrirtæki vinni vinnuna sína og leggi nokkurn metnað í hana þó svo flugvöllurinn heiti eitthvað annað en Keflavíkurflugvöllur. Jafnvel þótt hann heiti bara Norðfjörður.

Ég veit fullvel að ég er svona fúll á móti í gagnrýni minni á störf Isavia. Ég hef því miður fulla ástæðu til þess, eins vel og ég þekki til í þessum málaflokki og horfandi á hann frá sjónarhóli landsbyggðarfólks sem vill geta treyst á öryggiskeðjuna sína. Ég vildi að Isavia hefði efni á að berja sér á brjóst, eins og viðhengd frétt gefur tilefni til. Þá myndi ég samgleðjast þeim. 


mbl.is Keflavíkurflugvöllur hlaut viðurkenningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband