10.5.2015 | 17:41
Ábyrgur "fréttaflutningur"?
Í Reykjavík Vikublaði í gær (09.05.2015) getur að líta grein á bls. 10 og 11 sem ber fyrirsögnina "Upphlaup og áróður" og er skrifuð af Atla nokkrum Þór Fanndal. Þeir sem eru með þetta "upphlaup og áróður" eru víst allir þeir sem hafa andæft þeim framkvæmdum að Hlíðarenda, sem þegar eru hafnar, og eiga að enda með 4ra til 5 hæða húsum upp við enda flugbrautar 06/24, sem fengið hefur gælunafnið "neyðarbrautin". Með þessu yrði bundinn endir á notkun þessarar flugbrautar og notkunarstuðull Reykjavíkurflugvallar mun skerðast verulega, en það hefur orðið tilefni til margháttaðra athugasemda og mótmæla varðandi framgöngu borgaryfirvalda og fleiri aðila í þessu furðulega máli.
"Rökin" sem Atli þessi notar eru t.d. þessi setning sem höfð er eftir Guðna Sigurðssyni, talsmanni Isavia: "Framkvæmdirnar sem standa yfir núna hafa engin áhrif á flugið á 06/24 brautinni". Hér er einn hængur á, því þessar framkvæmdir "núna" eru aðeins undanfari frekari framkvæmda sem munu enda með því að þessi flugbraut verður ónothæf og er óskiljanlegt hvers vegna þessi talsmaður Isavia sér ástæðu til að gera lítið úr þessu. Isavia er nefnilega einmitt sá aðili sem á að gæta hagsmuna flugvallarins og notenda hans í þessu máli. Ekki hafa þó forráðamenn Isavia séð ástæðu til ábendinga varðandi þetta, eins og innanríkisráðuneytið sendi frá sér nýverið. Þetta er sem sagt meginstef "blaðagreinarinnar", að úr því þessar framkvæmdir sem hafnar eru séu aðeins til undirbúnings, þá sé andúðin gegn þessari ráðstöfun "upphlaup og áróður". Til hvers er þá þetta verk sem hafið er ef ekki er að vænta þess framhalds sem búið er að skipuleggja og á að enda með 4ra til 5 hæða byggingum við enda neyðarbrautarinnar og eyðileggja þannig notkunarmöguleika hennar?
Þessi sömu "rök" liggja víst til grundvallar þessari setningu í upphafi greinarinnar: "Bréf innanríkisráðherra til borgarinnar þar sem skorað er á borgina að virða skipulagsreglur og stjórnsýslumeðferð virðist því byggt á afar veikum grunni". Það væri e.t.v. ekki úr vegi fyrir blaðamann þennan að lesa þetta bréf innanríkisráðherra, áður en hann gerir svona lítið úr því. Þá gæti hann t.a.m. séð að þar er vísað til þess að þessar framkvæmdir, sem þegar eru hafnar, byggjast á deiliskipulagi borgarinnar fyrir þetta svæði sem gengur út frá lokun brautarinnar, án þess að enn liggi fyrir úrskurður Samgöngustofu varðandi áhættumat um þessa skerðingu flugvallarins, sem ber að framkvæma skv. reglugerð um flugvelli (25. gr. laga nr. 464/2007) og að ennfremur brýtur þetta í bága við Skipulagsreglur um Reykjavíkurflugvöll (682/2009), sem kveða á um takmörkun hindrana í nágrenni flugvallarins, aukinheldur með tilvitnun í 2. mgr 59. gr. laga nr. 60/1996 um loftferðir. Ljóst er alla vega að þetta hefur farið fram hjá blaðamanninum svo ekki hefur hann lesið gaumgæfilega þetta bréf, því í niðurlagi greinarinnar stendur þetta: "Bréf innanríkisráðherra krefur borgina um að fylgja lögum en skilgreinir ekki hvernig framkvæmdaleyfið gengur gegn lögum eða samkomulagi"! Dæmi hver fyrir sig um gæði þessarar blaðamennsku Atla Þórs Fanndal.
Loks kemur fram aftarlega í greininni fullyrðing sem ekki verður betur séð en að eigi við um braut 06/24, og segir: "Þá er i gildi samkomulag um að brautin verði í notkun til ársins 2022". Hér bendi ég á "litla" sérsamkomulagið sem þau Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, undirrituðu sín á milli eingöngu, í Hörpu þann 25. október 2013, samhliða undirritun stærri samnings með þáttöku forsætisráðherra og forstjóra Icelandair, en þessi minni samningur tvímenninganna gengur einmitt út á að þessari flugbraut sé gert að víkja. Hér er því blessaður blaðamaðurinn staddur úti á túni.
Þá er þessum blaðamanni RV bersýnilega í nöp við samtökin Hjartað í Vatnsmýri. Hann eignar þeim samtökum nafngiftina "neyðarbrautin" og segir: "Með nafngiftinni er þriðju braut vallarins sem áður hefði eflaust verið kölluð varabraut aukið vægi. Þá gefur nafnið sjálfkrafa til kynna að lokun brautarinnar sé lífshættuleg ákvörðun enda aðeins nýtt í neyð". Ég get ekki þakkað heiðurinn fyrir hönd samtakanna, þó ég sé bendlaður við þau, þar sem fullyrðing Atla Þórs um þetta er ekki rétt. Hjartað í vatnsmýri var stofnað 8. júlí 2013, eftir skamman undirbúningstíma það sumar, en nafngiftin var vel þekkt löngu áður enda til komin vegna þeirrar ráðstöfunar sem hefur gilt í áraraðir, að leyfa notkun brautarinnar aðeins í þeim tilfellum þegar aðrar flugbrautir vallarins eru ill- eða ónýtanlegar vegna aðstæðna og þar með í neyðartilfellum. Ég leyfi mér hér með að vitna í grein um málefni flugvallarins í Dagblaðinu Vísi (DV) þ. 29.11.1996, bls. 16, þar sem þessi setning er höfð eftir Þorvaldi S. Þorvaldssyni, forstöðumanni Borgarskipulags Reykjavíkur: "Það hefur verið talsverð umræða um þessa braut og hvort henni verði haldið inni sem neyðarbraut og notuð sem slík". Meistari Fanndal blaðamaður var því ekki enn á fermingaraldri þegar hugtakið "neyðarbraut" var orðið til í stjórnsýslu borgarinnar og íslenskum fjölmiðlum, í umfjöllun um flugbraut 06/24 í Reykjavík. Ég bendi því blessuðum manninum aftur á þann möguleika að hann kynni sér umfjöllunarefni sín betur áður en hann geypar um þau á opinberum vettvangi.
En þó langt sé til jafnað, þá eru ummæli Atla Þórs um undirskriftasöfnun Hjartans í Vatnsmýri dæmalausust alls þess sem hann býður okkur upp á í þessari "blaðagrein". Það hefur tíðkast um langt skeið að gefa fólki kost á nafnleynd í öllum stærri og vandaðri undirskriftasöfnunum. Það á m.a. við um eina sem nú er í gangi og telur nú yfir 30.000 manns. Öllum kúnstarinnar reglum var beitt til að tryggja sem best áreiðanleika listans sem Hjartað í Vatnsmýri stóð fyrir, en svo virðist að þessum Atla Þór blaðamanni sé ekki mikið í mun að kynna sér allar staðreyndir í þessu frekar en öðru, áður en hann lætur vaða. Eða alla vega er honum ekki í mun að hleypa þeim öllum að í umfjöllun sinni. Slíkt er kallað að fara með hálfsannleik. Og þykir öllu jöfnu ekki bera vott um vandaða blaðamennsku.
Fleira "fróðlegt" um flugvallarmálið týnir Atli Þór til í máli sínu, t.a.m. einhver spörð um s.k. sparnað, minnkun slysatíðni og mengunar, ef byggð rís í stað flugvallarins og vitnar þar í skýrslu frá 2007. Burt séð frá því hversu umdeilanlegar niðurstöður þessarar skýrslu eru hvað þetta varðar, þá er t.d. ekki tekið mið af því að verið sé að úthýsa u.þ.b. 1000 manna vinnustað og arðsemisáhrif þess, né heldur nokkur gaumur gefinn að því að með lokum innanlandsflugs í Reykjavík muni umferðarálag á þjóðvegakerfinu stóraukast með tilheyrandi aukinni mengun og slysatíðni. Það sem Atli Þór blaðamaður kallar "Umtalsverðan þjóðhagslegan ábata" er því í besta falli "borghagslegur" ábati, ef það þá nær því að kallast ábati. "Þjóðhagslegur ábati" verður þetta alls ekki. Um það gæti hlutlaus og gagnrýnin fréttamennska vitnað.
Enn fleira kemur fram í "blaðagrein" meistara Fanndals blaðamanns en það sem ég hef nefnt hér, en ég verð að játa að ég satt að segja skildi það ekki allt. Svo þetta læt ég nægja að sinni.
Þessi "blaðagrein" er ekki fréttamiðlun í þeim skilningi að hún grundvallist á fagmennsku fréttamanns, heldur er þetta pistill fullur af persónulegri óskhyggju, gersneiddur hlutlausri gagnrýni. Enda er svona hálfsannleikur í bland við hreinar rangfærslur ekkert annað en fréttafölsun. Reykjavík Vikublað er enn einn fjölmiðillinn sem lætur sér sæma að troðast óboðinn í póstlúgur hjá stórum hluta landsmanna, en sé þessi "fréttaflutningur" Atla Þórs Fanndal dæmigerður fyrir það sem lesendur blaðsins eru mataðir á, þá rís blaðið ekki undir þeirri ábyrgð að flytja vandaðar fréttir. Og það var vart á bætandi í þessari deild íslenskrar fjölmiðlunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2015 | 11:35
Gísli Marteinn bloggar!
Ekki fer drengnum vel að tjá sig um flugvallarmálið, því hann velur að beita fyrir sig hálfsannleik og sá málstaður sem beitir slíku fyrir sig er illa á vegi staddur.
Gísli Marteinn hjólar í Kristján L. Möller, fyrrum samgönguráðherra, fyrir að sá síðarnefndi skyldi leyfa sér að orða þann möguleika að lögbann verði sett á framkvæmdir sem hafnar eru við Hlíðarenda, í nágrenni neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Gísli Marteinn tiltekur í gagnrýni sinni samninga sem Kristján, ásamt fleirum, gerði gerði í ráðherratíð sinni um lokun flugbrautar 06/24 (neyðarbrautarinnar), en svo virðist sem það henti drengnum síður að halda því til haga að þessir samningar gengu út á að opna hliðstæða flugbraut á Keflavíkurflugvelli, en frá þeirri ráðstöfun var horfið, m.a. vegna kostnaðar. Það ásamt fleiru, m.a. viðsnúningi borgaryfirvalda varðandi þessi mál, hefur kippt öllum stoðum undan þeim samningum sem kváðu á um lokun þessarar flugbrautar.
Hálfsannleikur er heil lygi, Gísli Marteinn.
Þá er það einnig svo að þessar framkvæmdir við Hlíðarenda brjóta í bága við reglugerð nr 682/2009 (skipulagsreglur um Reykjavíkurflugvöll), en þær reglur kveða á um takmörkun hindrana í nágrenni flugvallarins. Kristján var einmitt sá ráðherra sem skrifaði undir þessar reglur þ. 23. júlí, 2009. Það liggur fyrir að framkvæmdirnar sem eru hafnar á þessu svæði, eiga að enda með allt að fimm hæða byggingum, rétt við enda flugbrautar 24 á Reykjavíkurflugvelli. Skyldu nú vera forsendur til að ganga út frá því að óhætt sé að hindra aðflugslínu þessarar flugbrautar og þar með loka henni? Nei, fjarri fer því. Áhættumat Isavia, sem fjallar um þetta mál hefur enn ekki hlotið úrskurð Samgöngustofu. En skv. reglugerð um flugvelli nr 464/2007 ber að áhættugreina þessa skerðingu á flugvellinum áður en til hennar kemur. Sama reglugerð kveður einnig skýrt á um framkvæd útreikninga á nothæfisstuðli flugvalla, en eftir því var ekki farið í vinnu Isavia (eða Eflu-verkfræðistofu f.h. Isavia) og ekki er ég grunlaus um að þetta standi svolítið í þeim embættismönnum sem nú fjalla um málið hjá Samgöngustofu, enda drátturinn sem orðinn er á úrskurðinum þaðan orðinn vægast sagt óhóflegur.
Sá gerningur borgaryfirvalda að gefa út leyfi fyrir þessum framkvæmdum án þess að þetta áhættumat liggi fyrir er í besta falli flumbrugangur og reyndar yfirgengileg óvirðing við flugöryggi. En hann er einnig klárt lögbrot. Hér eru til nefndar tvær reglugerðir sem verið er að traðka á með þessari framgöngu. Svo varla verður annað séð en Kristján L. Möller sé fyllilega samkvæmur sjálfum sér með hugrenningum þeim, sem Gísli Marteinn bloggaði um og stílfærði með hálfsannleik sínum í gær. Skyldi Gísli e.t.v. geta rökstutt það að setja ekki lögbann á framkvæmdir sem svona er ástatt um?
Vildi loka flugbrautinni sem ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2015 | 21:52
Isavia í "góðum" málum.
Það er vissulega ástæða til að gleðjast með starfsfólki Isavia yfir þessum glæsilega árangri. En gleði mín takmarkast því miður við þá staðreynd að í starfi mínu sem flugmaður í sjúkraflugi á ég einatt erindi til flestra annara flugvalla sem Isavia hafur það hlutverk að annast hér á landi.
Og ég vildi að hægt væri að segja jafngóða sögu af frammistöðu Isavia, t.d. í því hversu "vel" er gert við það einvala lið fólks sem ég og kollegar mínir þurfum að kveðja til aðstoðar á öllum tímum sólarhringsins, í öllum veðrum, hátíðisdaga sem aðra, allan ársins hring. Fólks sem við höfum getað treyst til að opna fyrir okkur flugbrautir byggðarlaga sinna í ófærð og illviðrum fyrirvaralaust og leggja á sig mikið erfiði til að öryggiskeðja sjúkraflugsþjónustunnar rofni ekki, þegar til þarf að taka.
Ég vildi geta glaðst yfir því hve vel Isavia rækir hlutverk sitt í viðhaldi þeirra flugvalla landsins þar sem heilar sveitir og byggðarlög reiða sig á þjónustu okkar. Eins og t.a.m. á Norðfirði þar sem staðsett er fjórðungssjúkrahús sem við þurfum oft að sinna og það gjarnan vegna bráðatilfella. En á Norðfirði er einungis aflöng drulluvilpa sem aðeins er brúkleg fyrir okkur sem flugbraut að vetrarlagi ef hún er frosin. Flugvélar okkar hafa orðið fyrir skemmdum þegar við athöfnum okkur þarna. Nú í vetur hefur þessi "flugbraut" verið ónýt mánuðum saman samfellt vegna klakabrynju, sem ekki fæst rudd vegna hættu á að þá yrði yfirborð brautarinnar sjálfrar rutt burt. Þetta ástand brautarinnar hefur verið Isavia fullkunnugt um margra ára skeið en þó heldur ástand hennar sífellt áfram að versna. Það gerist mun oftar vegna ástands þessarar flugbrautar en vegna veðurs, að við verðum að neita því að lenda þarna. Iðulega koma því upp tilfelli þar sem við þurfum að láta keyra sjúklinga frá Norðfirði til Egilsstaða þar sem við getum lent og tekið við þeim. Á þeirri leið verður um ókomin ár, þrátt fyrir ný jarðgöng sem nú eru í smíðum og leysa af hólmi hið illræmda Oddskarð, mikill farartálmi sem heitir Fagridalur. Um hann hafa verið farnar miklar svaðilfarir með sjúklinga frá Norðfirði og til móts við sjúkraflugvél á Egilsstöðum, þar sem sjúkra- og björgunarsveitarbílar í fylgd ruðningstækja vegagerðarinnar hafa verið hætt komnir á snjóflóðasvæðum og veðurhamir verið slíkið að rúður hafa brotnað úr hjólaskóflunni (þar síðustu jólanótt).
Lítið bólar á því að Isavia sýni landsbyggðinni skilning á þörfum hennar fyrir þá öryggiskeðju sem sjúkraflugsþjónustan veitir. Þeim flugvöllum sem enn þjóna áætlunarflugi er haldið í horfinu og naumlega það. Sjúkraflugvélin sækir hins vegar heim mun fleiri flugvelli, en því miður er það svo að þar sem ekki er reglubundið flug, þar hverfur allur metnaður Isavia til að viðhalda mannvirkinu. Sums staðar hefur heimafólk tekið sig til að eigin frumkvæði og haldið mannvirkjum og flugbraut í horfinu, þar sem skyldurækni Isavia brestur. Og hafa jafnvel hlotið skömm fyrir. Ekki verður annað séð en að forráðamenn Isavia sjái sér leik á borði og gangi á lagið til að loka flugvöllum eða láta þá drabbast niður, ef um annars konar samgöngubætur er að ræða á viðkomandi svæði. Mig grunar að þannig eigi hin nýju göng Norðfirðinga að réttlæta þetta fálæti varðandi flugbrautina þar, þrátt fyrir að farartálminn, Fagridalur, sé enn á sínum stað. Þannig fannst Isavia einnig við hæfi að loka Siglufjarðarflugvelli, um leið og Héðinsfjarðargöngin opnuðu. Þá var hugsunin væntanlega sú að nú væri ekkert til fyrirstöðu með að keyra sjúklingum þaðan til Akureyrar. Engu er skeytt um að enn er hættulegur farartálmi á þeirri leið þar sem er snjóflóðasvæðið sunnan Ólafsfjarðarmúla. Ófærð er líka algeng á þessari leið. Og endrum og sinnum lendum við flugmenn Mýflugs í því að fá ekkert samband við þjónustuaðila á þeim stöðum sem eru án áætlunarflugs, en sem Isavia hefur þó það hlutverk að halda við vegna sjúkraflugsþjónustu. Þar er stundum enginn við því Isavia sér ekki þörfina á að tryggja viðveru einhvers til að við getum sinnt því byggðarlagi. Þá er nöturlegt að sjá að þótt góður búnaður til blindaðflugs sé til staðar á tilteknum flugvelli, þá má ekki halda honum í notkun þrátt fyrir að þangað sé flogið áætlunarflug. Þar telur Isavia mikilvægara að spara þennan búnað en að auðvelda flugfélaginu að þjónusta þetta pláss.
Ég tek fram að hér er ekki við starfsfólkið sjálft að sakast á þessum stöðum. Það fólk gengur þvert á móti miklu lengra í framlegð sinni til þessarar samfélagsþjónustu en Isavia sér sóma sinn í að launa því fyrir. Þá eru umdæmisstjórar Isavia á Vestfjörðum, norðurlandi og Austfjörðum milli steins og sleggju vegna sífellt meira fjársveltis. Það skrifast þó ekki á blankheit Isavia. En forráðamenn þessa ríkishlutafélags, sem hefur lögum samkvæmt það hlutverk að reka flugvelli landsins og viðhalda þeim, virðast aðeins sjá þörfina til að vinna vinnuna sína þar sem flæða nógir peningar, sem sagt á stærstu flugvöllunum. Þar af sýnu mest á Keflavíkurflugvelli, samanber meðfylgjandi frétt. Sú afsökun að ekki megi flytja fjármagn milli flugvalla innan landa sem tilheyra ESB og EES er í besta falli fyrirsláttur. Nýleg stjórnvaldsaðgerð sýndi að þessi afsökun er haldlaus. Þetta snýst aðeins um vilja til að þetta fyrirtæki vinni vinnuna sína og leggi nokkurn metnað í hana þó svo flugvöllurinn heiti eitthvað annað en Keflavíkurflugvöllur. Jafnvel þótt hann heiti bara Norðfjörður.
Ég veit fullvel að ég er svona fúll á móti í gagnrýni minni á störf Isavia. Ég hef því miður fulla ástæðu til þess, eins vel og ég þekki til í þessum málaflokki og horfandi á hann frá sjónarhóli landsbyggðarfólks sem vill geta treyst á öryggiskeðjuna sína. Ég vildi að Isavia hefði efni á að berja sér á brjóst, eins og viðhengd frétt gefur tilefni til. Þá myndi ég samgleðjast þeim.
Keflavíkurflugvöllur hlaut viðurkenningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2015 | 22:22
Menntahroki forstjóra Eflu!
Guðmundur þorbjörnsson, forstjóri Eflu-verkfræðistofu, var í viðtali á Stöð2 í kvöld vegna skýrslna Eflu sem gefa grænt ljós á það að neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar sé látin víkja fyrir byggð. Hann sá ekkert athugavert við það, hvað þá vanhæfi, að hann væri sjálfur hluthafi í Valsmönnum, að hann hafi átt sæti í vinnuhópi um uppbyggingu á Valssvæðinu (sem byggir einmitt á þeirri forsendu að flugbrautin víki), og ekki heldur að verkfræðistofa hans, Efla, hafi einnig aðkomu að þeim framkvæmdum. Ekkert var í hans huga sjálfsagðara, þrátt fyrir þessi tengsl, en að það væri Efla sem framkvæmdi útreikningana sem réttlæta forsendufalsanir Isavia (bréf forstjóra Isavia frá 13. des. 2013), til að koma þessari flugbraut fyrir kattarnef. Og réttlæting Guðmundar Þorbjörnssonar, forstjóra Eflu, er þessi: "Það er leitað til Eflu vegna þess að við höfum sérfræðiþekkingu á því sviði sem að menn þurftu á að halda". Það svið sem um er að ræða eru útreikningar á nothæfisstuðli flugvallarins, en þeir byggja á því að meta aðstæður til hliðarvindslendinga. Sérfræðiþekking, öllu má nú nafn gefa! Guðmundur Þorbjörnsson og verkfræðingarnir hans hafa aldrei haldið um stýri flugvélar sem lent er í hliðarvindi á hálli flugbraut! Aldrei! Enda eru vinnubrögðin eftir því. Eflu þótti tilhlýðilegt að undanskilja hemlunarskilyrðin og vindhviður í útreikningum sínum, til þess einmitt að ná þeirri niðurstöðu að nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar væri ásættanlegur (97%) án neyðarbrautarinnar.
Þessar niðurstöður metur Isavia svo áreiðanlegar að þær hafa verið sendar Samgöngustofu til samþykktar, í stað þeirrar niðurstöðu sem fyrir lá hjá áhættumatsnefnd Isavia, áður en hún var leyst upp fyrir jól. Í þeirri nefnd voru fulltrúar flugfélaganna sem eru helstu notendur flugvallarins, m.a. undirritaður. Og forlátið mér þó ég segi það sjálfur, en við flugmennirnir erum sérfræðingarnir í málinu! Það erum við sem höfum reynsluna af þessum aðstæðum sem málið fjallar um. Það er okkar að glíma við hliðarvind og hálar flugbrautir, oft á tíðum nálægt getumörkum flugvélanna. Og það er á okkar ábyrgð, ekki Isavia eða "sérfræðinga" Eflu, ef við óvart lendum utan við þessi getumörk, en slíkt getur hæglega skeð þegar flugvélar eru starfræktar nálægt þessum mörkum. Tvö dæmi eru um þess háttar slys á undanförnum þremur árum, bæði raunar í Grænlandi en í annað skiptið með íslenskri flugvél. Hvort tveggja voru tiltölulega stórar farþegaflugvélar. Báðar flugvélarnar eyðilögðust og ekkert annað en mildi forlaganna réði því að ekki urðu slys á fólki.
Sjálfur tiltók ég nýlegt dæmi um þetta á þeim áhættumatsfundum sem ég sat, þar sem flugvél sem ég var sjálfur að lenda (sjúkraflugvél Mýflugs) við ýtrustu skilyrði, en þó innan marka skv. uppgefnum vindi og mældum bremsuskilyrðum, tók að skríða til hliðar undan hliðarvindinum og sífellt nær jaðri flugbrautarinnar, strax eftir lendinguna og því enn á mikilli ferð. Okkur flugmönnunum tókst að afstýra yfirvofandi slysi í það sinn, en eftir á að hyggja kom í ljós að örlítil hitastigsbreyting (um hálf gráða í hlýnun) hafði átt sér stað á þeim stutta tíma frá því athugunin átti sér stað þar til við lentum, með þeim afleiðingum að blautt yfirborð myndaðist ofan á ísingunni svo sandurinn sem dreifður var á brautina fyrir komu okkar hafði síðri áhrif til hálkuvarnar.
Þetta dæmi, ásamt þeim tveimur sem ég nefndi hér að ofan, hefur líklega talist lítilvægt í samanburði við "sérfræðiþekkingu" þeirra Eflumanna, enda er það einmitt þeirra niðurstaða (97% nothæfið altsvo) sem Samgöngustofa er nú að fjalla um og mun líklega samþykkja sem rök fyrir því að óhætt sé að svipta okkur því úrræði, sem flugbraut 06/24 (neyðarbrautin) býður okkur upp á þegar vindar blása hvað mest úr suðvestri eða norðaustri. Athugið að nýskipaður forstjóri Samgöngustofu er einmitt fyrrverandi borgarstjóri, Þórólfur Árnason, yfirlýstur andstæðingur Reykjavíkurflugvallar og skipaður í embættið af fyrrverandi innanríkisráðherra, öðrum fyrrverandi borgarstjóra og öðrum yfirlýstum flugvallarandstæðingi, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Nú ætla ég sem sérfræðingur og þó nokkur reynslubolti í hliðarvindslendingum (þó ég segi það sjálfur, vinsamlegast forlátið) að upplýsa lesanda minn um að hemlunarskilyrði (sbr dæmið mitt hér að ofan) ásamt vindhviðum eru einmitt lykilþættir í mati á því hvort óhætt sé að lenda við tiltekin skilyrði í hliðarvindi. En "sérfræðingunum" hjá Eflu þótti ekki taka því að hafa þessa smámuni með í útreikningunum. Það hefði skemmt niðurstöðuna!
Öllum þeim sem koma að vinnu sem tengist flugöryggi ber skilyrðislaust að láta öryggið njóta alls þess vafa sem upp kann að koma, auk þess að gera ráð fyrir verstu mögulegu uppákomum í athugunum sínum og útreikningum. Sú regla krefst vart skýringa. Isavia ásamt "sérfræðingunum" hjá Eflu hefur nú snúið þessari reglu á haus, því Valsmenn þurfa að byggja! Guðmundur Þorbjörnsson, forstjóri Eflu, getur verið stoltur af "sérfræðiþekkingu" sinni og sinna manna, þegar lóðabraskið hefur náð fram að ganga og blómlega byggðin rís að Hlíðarenda. Eftir stendur að ég og kollegar mínir sitjum uppi með þann myllustein að þurfa að ákveða hvort sé lendandi í Reykjavík eða ekki, við þau veðurskilyrði þar sem aðeins þessi flugbraut er enn í dag opin fyrir okkur á öllu suðvesturlandi. En þegar farþeginn okkar er í hjartaáfalli, eða nýkominn í heiminn langt fyrir tímann, eða með rofna ósæð eftir alvarlegt slys, eða með blóðtappa, og þarf jafnvel á ítrekuðum endurlífgunum að halda á leiðinni suður, ja þá eiga nú "sérfræðingarnir" gott að þurfa ekki að velja um þetta. Eða halda um stýrin þegar flugvélinni er lent við ýtrustu getumörk hennar vegna hviðugjarns hliðarvinds og ekki við ákjósanlegustu brautarskilyrðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2014 | 23:24
"Keisarans skegg"
Brynjar Harðarson, framkv.stj. Valsmenn hf. er einn þeirra sem telja sig þess umkomna að tjá sig á opinberum vettvangi og dæma um mál sem greinilega eru þeim þó framandi. Í mbl í dag á bls. 4 segir hann blákalt að Rögnunefndin hafi einungis það hlutverk að finna nýtt stæði fyrir flugvöllinn í heild sinni og því sé það útúrsnúningur á umræðunni þegar bent sé á að brottfall einnar flugbrautar hafi áhrif á framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Hið rétta er að Rögnunefndin hefur lýst því afdráttarlaust yfir að Vatnsmýrin sé einn þeirra valkosta sem séu í skoðun hjá nefndinni (sjá frétt 1. okt. s.l.). Þar af leiðir að það hlýtur að þurfa að horfa til vallarins þar eins og í öðrum valkostum, í heild sinni eins og Brynjar orðar það sjálfur. Þetta orðalag um útúrsnúning á umræðunni á því vel við um þennan málflutning Brynjars.
En þar á eftir kemur fullyrðing sem á líklega að réttlæta það í hans huga, að þessi skerðing flugvallarins nái fram að ganga, sem sé að flugbrautin (06/24) sé afar sjaldan notuð. Tvennt skiptir máli í þessu sambandi. Annars vegar er það skilgreining þessarar brautar (útgefin af Isavia) sem neyðarbraut, sem hefur í för með sér að notkun hennar takmarkast einmitt við það að helst sé engum öðrum kostum til að dreyfa, t.d. vegna afar sterkra vinda sem standa best einmitt á þessa braut, og sér í lagi ef slök hemlunarskilyrði eru því samfara. Og hins vegar það sem þessi nafngift felur í sér, neyðarbraut, en það hefði maður haldið að undirstrikaði nauðsyn hennar. Hún hefur m.a. gert það að verkum að aldrei, frá því Mýflug tók við rekstri sjúkraflugsþjónustu í byrjun árs 2005, hefur hin sérútbúna sjúkraflugvél félagsins orðið að snúa frá Reykjavíkurflugvelli án þess að geta lent þar með farþega sína. Hefði brautarinnar ekki notið við þennan tíma, væru þeir orðnir allnokkrir sem ekki hefðu t.d. fengið hjartaþræðingu, meðferð við heilablæðingu eða nýburaaðstoð, í tíma til að eiga raunhæfann kost á bata eða jafnvel lífi. Því ef þessarar flugbrautar nýtur ekki við í tilteknum veðurskilyrðum, þá er hvergi hægt að lenda á suðvesturparti landsins!
Áðurnefndur Brynjar heldur svo enn áfram að deila af viskubrunni sínum: "Á veturna er hún (flugbrautin, innsk.) oft ekki hreinsuð og fróðlegt væri að vita hversu oft brautin hefur verið nýtt í sjúkraflugi síðustu ár. Hér er verið að deila um keisarans skegg". Hér er því til að svara að hreinsun brautarinnar fer yfirleitt eftir vindáttum sem oft gefa ekki endilega tilefni til þess, en einnig hafa starfsmenn Isavia einatt brugðist vel við beiðnum um það frá notendum, t.d. sjúkraflugmönnum, ef svo ber undir af sérstökum ástæðum. Á þetta hefur oft reynt vegna sjúkraflugsins. Varðandi tíðni í notkun sjúkraflugsins á brautinni læt ég hér nægja að segja, að meðan tilfellin eru eitt eða fleiri, þá tel ég það næg rök fyrir því að brautin haldi sér. Eða ætli Brynjar þessi telji að skilgreina megi hversu fá tilfelli réttlæti þá mannfórn sem hér stefnir í? Hér er hann nefnilega búinn að skipa sér í raðir þeirra sem telja að lóðaverðmæti vegi þyngra en líf og heilsa þeirra sem njóta sjúkraflugsþjónustunnar, að ekki sé talað um aðra farþega sem um völlinn fara og njóta einnig þess öryggis sem hann býður upp á í núverandi mynd, í nánast öllum veðurskilyrðum.
Þessi deila um keisarans skegg snýst um þetta, peninga eða öryggi flugfarþega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2014 | 08:09
Siðleysi Dags B. Eggertssonar, læknis.
25.5.2014 | 16:25
Varaflugvöllurinn í Vatnsmýri.
Segja flugvöllinn aðalkosningamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.4.2014 | 13:45
Þöggunin.
Nú er allt reynt til að þagga flugvallarmálið niður fyrir kosningar. Það er einmitt tilgangurinn með þessu "samkomulagi" milli ríkis og borgar í haust, setja málið í nefnd og geta sagt síðan að þetta mál sé í farvegi og sé því ekki kosningamál í ár.
En lesandi góður, þetta er hins vegar ekki í samræmi við það sem gerist nú bak við tjöldin í borgarkerfinu. Siðan þessi "samningur" var gerður hefur verið unnið baki brotnu að því að eyðileggja þessa perlu í Vatnsmýrinni. Nýtt deiliskipulag hefur dúkkað upp sem brytjar niður eina flugbrautina og í svörum við athugasemdum við þetta deiliskipulag kemur fram að þetta hafi sérstaklega verið skoðað með tilliti til þarfa sjúkraflugsins. Það er lygi því forsendurnar sem þar eru lagðar til grundvallar eru falskar, enda þótti víst ekki taka þvi að fara að lögum í þessum útreikningum (um nothæfisstuðul m.t.t. hliðarvinds ofl.) eða leita samráðs við við framkvæmdaaðila sjúkraflugsins! Eyðilegging brautarinnar er á dagskrá þegar á þessu ári. Þá stendur til að útrýma heilu hverfi af flugskýlum, skólum, verkstæðum og flugklúbbum, strax á næsta ári. Flugnám, sem er með því dýrasta, sérhæfðasta og tæknilegasta sem hægt er að velja sér á nokkrum námsferli, og sem státar af nemendafjölda sem toppar margar fjölmennustu námsbrautir háskólanna hér, er víst ekki nógu fínt í fræðasamfélagi borgarinnar. Þessi eyðilegging flugstarfseminnar í Vatnsmýrinni bitnar á allri þjóðinni, því einmitt þarna er lagður grunnurinn að einni af mikilvægustu atvinnugreinum okkar, því ferðamannaiðnaðurinn byggist jú á flugi. Þarna á þungamiðjan í grasrót flugsins á Íslandi heima. Og allt er þetta gert þvert á anda "samkomulagsins" sem nú á að heita að sé í gildi milli ríkis og borgar. Nefndin atarna á nefnilega að skoða alla kosti í stöðunni út þetta ár, en annar samningsaðilinn er á fullu á meðan, við að eyðileggja perluna okkar og þá um leið mögulega valkosti til breyttrar legu flugvallarins. Það er sem sé eftir að ljúka þessari nefndarvinnu, auk þess sem áhættumatsferli varðandi lokun flugbrautarinnar sem ég nefndi áðan er ekki lokið. Mikil ósköp sem þessum eyðingaröflum liggur á!
Allt er þetta gert til að hægt verði að troða tugþúsund nýjum íbúum ofan í þessa mýri, sem verður eitt allra dýrasta byggingarland íslandssögunnar. Rökin fyrir þessari vitleysu eru þau að það eigi að minnka akstur í borginni. og þar með fækka slysum og minnka mengun, hvernig sem þær fullyrðingar standast, ég er nú of tregur til að skilja það. Það liggur hins vegar fyrir að með þessu leggst innanlandsflugið að miklu leyti niður, og hvað þá? Eykur það ekki akstur á þjóðvegum landsins með tilheyrandi mengun og slysatíðni? Jafnvel þó þessar forsendur flugvallarandstæðinga um minni mengun og fækkun slysa í borginni (sem ég er of tregur til að skilja), þá hefur þessum vandamálum ekki verið eytt heldur einfaldlega verið sópað út fyrir borgarmörkin.
Til glöggvunar, svo lesandur mínir hafi það á hreinu, þá eru eyðingaröflin þessi: Samfylkingin (með Dag B. Eggertsson, lækni í fararbroddi), "Björt" framtíð (ég bið ykkur ekkert að afsaka gæsalappirnar mínar, þær eru af gefnu tilefni), Vinstri Græn (Sóley Tómasdóttir í efsta sæti, svarinn flugvallarandstæðingur til margra ára), og listi Sjálfstæðismanna er því miður ekki björgulegur að þessu leyti heldur, þótt blandaður sé hvað varðar afstöðuna til flugvallarins. Lítið lið hefur verið af efsta manni þess lista fram að þessu a.m.k, honum finnst mikilvægara að fjasa um ólæsi í heilsíðuauglýsingum sínum, eins og þeir sjallar ætli að fara að stunda móðurmálskennslu í borginni.
Ég veit lítið enn um afstöðu Dögunar og Pírata í þessu máli, vonandi verður það ekki þessi fyrirsláttur um að þetta mál sé ekki á oddinum í þessum kosningum! Í hvert sinn sem sú firring heyrist frá nokkrum frambjóðanda til borgarstjórnar bið ég lesendur að horfa til þeirra verka sem nu eiga sér stað, mulningsvél skipulagsráðs er á fullri ferð, hvað sem tautar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2014 | 09:36
Þöggunin.
Nú er allt reynt til að þagga flugvallarmálið niður fyrir kosningar. Það er einmitt tilgangurinn með þessu "samkomulagi" milli ríkis og borgar í haust, setja málið í nefnd og geta sagt síðan að þetta mál sé í farvegi og sé því ekki kosningamál í ár.
En lesandi góður, þetta er hins vegar ekki í samræmi við það sem gerist nú bak við tjöldin í borgarkerfinu. Siðan þessi "samningur" var gerður hefur verið unnið baki brotnu að því að eyðileggja þessa perlu í Vatnsmýrinni. Nýtt deiliskipulag hefur dúkkað upp sem brytjar niður eina flugbrautina og í svörum við athugasemdum við þetta deiliskipulag kemur fram að þetta hafi sérstaklega verið skoðað með tilliti til þarfa sjúkraflugsins. Það er lygi því forsendurnar sem þar eru lagðar til grundvallar eru falskar, enda þótti víst ekki taka þvi að fara að lögum í þessum útreikningum (um nothæfisstuðul m.t.t. hliðarvinds ofl.) eða leita samráðs við við framkvæmdaaðila sjúkraflugsins! Eyðilegging brautarinnar er á dagskrá þegar á þessu ári. Þá stendur til að útrýma heilu hverfi af flugskýlum, skólum, verkstæðum og flugklúbbum, strax á næsta ári. Flugnám, sem er með því dýrasta, sérhæfðasta og tæknilegasta sem hægt er að velja sér á nokkrum námsferli, og sem státar af nemendafjölda sem toppar margar fjölmennustu námsbrautir háskólanna hér, er víst ekki nógu fínt í fræðasamfélagi borgarinnar. Þessi eyðilegging flugstarfseminnar í Vatnsmýrinni bitnar á allri þjóðinni, því einmitt þarna er lagður grunnurinn að einni af mikilvægustu atvinnugreinum okkar, því ferðamannaiðnaðurinn byggist jú á flugi. Þarna á þungamiðjan í grasrót flugsins á Íslandi heima. Og allt er þetta gert þvert á anda "samkomulagsins" sem nú á að heita að sé í gildi milli ríkis og borgar. Nefndin atarna á nefnilega að skoða alla kosti í stöðunni út þetta ár, en annar samningsaðilinn er á fullu á meðan, við að eyðileggja perluna okkar og þá um leið mögulega valkosti til breyttrar legu flugvallarins. Það er sem sé eftir að ljúka þessari nefndarvinnu, auk þess sem áhættumatsferli varðandi lokun flugbrautarinnar sem ég nefndi áðan er ekki lokið. Mikil ósköp sem þessum eyðingaröflum liggur á!
Allt er þetta gert til að hægt verði að troða tugþúsund nýjum íbúum ofan í þessa mýri, sem verður eitt allra dýrasta byggingarland íslandssögunnar. Rökin fyrir þessari vitleysu eru þau að það eigi að minnka akstur í borginni. og þar með fækka slysum og minnka mengun, hvernig sem þær fullyrðingar standast, ég er nú of tregur til að skilja það. Það liggur hins vegar fyrir að með þessu leggst innanlandsflugið að miklu leyti niður, og hvað þá? Eykur það ekki akstur á þjóðvegum landsins með tilheyrandi mengun og slysatíðni? Jafnvel þó þessar forsendur flugvallarandstæðinga um minni mengun og fækkun slysa í borginni (sem ég er of tregur til að skilja), þá hefur þessum vandamálum ekki verið eytt heldur einfaldlega verið sópað út fyrir borgarmörkin.
Til glöggvunar, svo lesandur mínir hafi það á hreinu, þá eru eyðingaröflin þessi: Samfylkingin (með Dag B. Eggertsson, lækni í fararbroddi), "Björt" framtíð (ég bið ykkur ekkert að afsaka gæsalappirnar mínar, þær eru af gefnu tilefni), Vinstri Græn (Sóley Tómasdóttir í efsta sæti, svarinn flugvallarandstæðingur til margra ára), og listi Sjálfstæðismanna er því miður ekki björgulegur að þessu leyti heldur, þótt blandaður sé hvað varðar afstöðuna til flugvallarins. Lítið lið hefur verið af efsta manni þess lista fram að þessu a.m.k, honum finnst mikilvægara að fjasa um ólæsi í heilsíðuauglýsingum sínum, eins og þeir sjallar ætli að fara að stunda móðurmálskennslu í borginni.
Ég veit lítið enn um afstöðu Dögunar og Pírata í þessu máli, vonandi verður það ekki þessi fyrirsláttur um að þetta mál sé ekki á oddinum í þessum kosningum! Í hvert sinn sem sú firring heyrist frá nokkrum frambjóðanda til borgarstjórnar bið ég lesendur að horfa til þeirra verka sem nu eiga sér stað, mulningsvél skipulagsráðs er á fullri ferð, hvað sem tautar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2013 | 16:32
Ódýrari flugeldar?
Þessi frétt gefur tilefni til smáhugvekju einmitt núna!
Í helgarblaði Fréttablaðsins birtist opnuauglýsing frá einhverjum flugeldaheildsala (Alvöru flugeldar) sem ég kann engin deili á, enda ekkert gefið upp um það. Það eitt er ljóst að tilgangurinn með þessari flugeldasölu er enginn annar en sá að þyngja pyngju þessa heildsala, hver sem hann er. Þetta er því miður einn af nokkrum aðilum sem sjá sóma sinn í að efna til samkeppni við björgunarsveitirnar okkar í flugeldasölu. Í auglýsingunni segir:"Ég mótmæli háu verði á flugeldum". Enda gengur auglýsingin út á undirboð í samkeppni við flugeldasölu björgunarsveitanna. Skoðum aðeins hvað fæst fyrir peninginn þarna.
Þegar afurðir þessarar flugeldasölu eru tendraðar fáum við fallega skrautsýningu sem varir í fáeinar sekúndur í hvert sinn, e.t.v. mínútur þegar stærstu terturnar eiga í hlut. Síðan er öllu lokið. Þessi viðskipti skilja þá ekki eftir sig annað en skammæja minningu um þessi púðurljós, en um leið aðeins feitari heildsala, jafnvel þótt hann hafi tekið minna fyrir söluna en björgunarsveitirnar. Hann mun njóta afraksturs síns í faðmi fjölskyldu, í hægindastólnum sínum, eða akandi um á jeppanum sínum, eða í rúminu sínu með breitt yfir haus, á meðan samkeppnisaðilar hans, björgunarsveitirnar, verja sínum feng í eldsneytis- og tækjakostnað í okkar þágu þegar hamfaraveður ganga yfir og þökin losna af húsunum okkar, einhver af meðbræðrum og systrum okkar týnist eða slasast fjarri byggð, eða ef flytja þarf sjúka og slasaða til læknisþjónustu við aðstæður þar sem venjulegum sjúkrabílum verður ekki komið við vegna aðstæðna. Sem sagt, þegar við kaupum "dýrari" flugeldana hjá björgunarsveitunum, þá fáum við ekki aðeins þessa fallegu skrautsýningu vörunnar sjálfrar, heldur svo miklu meira. Til marks um það er fréttin sem hér er bloggað um ásamt nokkrum fyrirsögnum fjölmiðla undanfarna daga:
"Leituðu 7 ára stúlku sem ekki skilaði sér" þar sem segir frá útkalli á Ísafirði á öðrum í jólum, en barnið fannst heilt á húfi skömmu síðar.
"Pakkarnir biðu fram á nótt" um annríki björgunarsveita á suðurlandi fram eftir aðfangadagskvöldi vegna ófærðar.
"Hátt í 200 manns björguðu jólunum" þar sem fram kemur hversu víðtækar aðgerðir björgunarsveita urðu um allt land um hátíðarnar.
"Björguðu 40 manns af heiðinni" varðandi útkall kl 5 á aðfangadag til hjálpar fólki á Mosfellsheiði.
"Árangurslaus leit að manninum" um leit að skipverja flutningaskips sem hvarf frá borði á Reyðarfirði skömmu fyrir jól.
"Björgunarsveitir kallaðar út" um eitt af fjölmörgum útköllum sem verða vegna ófærðar á Víkurskarði ásamt öðrum fjallvegum nyrðra hvern vetur.
"Sjúkraflug á jólanótt stóð tæpt" þar sem segir frá því er björgunarsveitir á austurlandi ásamt sjúkraflutningamönnum, læknum og vegagerðarmönnum lentu í ótrúlegum hrakningum þegar bráðveikur sjúklingur var fluttur frá Djúpavogi og í veg fyrir sjúkraflug á Egilsstöðum í fárviðri og ófærð. M.a. varð að flytja svæfingalækni frá Norðfirði í veg fyrir sjúklinginn á Reyðarfirði en þar á milli er einn torsóttasti fjallvegur landsins í svona hríðarbyljum, Oddskarð. Þar á eftir lá leiðin yfir Fagradal í fylgd stórrar vélskóflu en á þeirri leið fuku upp rúður í vélskóflunni auk þess sem sjúkrabíllinn bilaði á snjóflóðasvæði. Ekki kom til álita að þyrla LHG næði í sjúklinginn austur vegna fárviðrisins og því var eingöngu um landleiðina til Egilsstaðaflugvallar að ræða þrátt fyrir þessar kolómögulegu aðstæður. Aldrei var þó snúið við heldur var sjúklingnum skilað með sjúkraflugvél Mýflugs til Reykjavíkur undir morgun á jóladag.
"Erfiðir sjúkraflutningar yfir Fjarðarheiði" segir frá öðru sjúkraflugstilfelli til Egilsstaða síðar á jóladag en þá kom sjúklingurinn frá Seyðisfirði og þurfti því hjálp björgunarsveitar til að flytja hann yfir kolófæra Fjarðarheiði, einnig í hinu versta veðri.
Hér er engan vegin um að ræða tæmandi úttekt á afrekum björgunarsveita okkar í hrakviðrunum undanfarna hátíðardaga, en hvergi nokkurs staðar má sjá að liðveisla hafi borist frá öðrum þeim sem stunda flugeldasölu, en björgunarsveitunum. Ekki frá KR, ekki frá "Alvöru flugeldar" né nokkrum öðrum sem hasla sér völl í flugeldasölu. Aðeins frá björgunarsveitum Landsbjargar. Og ekki aðeins njótum við liðveislu þeirra þegar mest á reynir, heldur er hún endurgjaldslaus, hún byggist alfarið á sjálfboðavinnu hvers og eins félaga þessara sveita. Þetta fólk leggur frá sér námsbækur, jólapakka og víkur frá sinni vinnu og segir skilið við þægindaramma hversdagsins hvenær sem kallið berst og gefur allt sitt framlag í okkar þágu. En breyttu jepparnir og snjóbílarnir og vélsleðarnir og allur annar sérhæfður búnaður sem nýtist þessu ósérhlífna fólki við að koma okkur til hjálpar, að ekki sé minnst á eldsneytiskostnaðinn, allt er þetta kostað af flugeldasölu þessara sveita. Þarna er innifalinn svo gríðarlegur bónus sem við fáum í viðskiptum við sveitirnar okkar um hver áramót. Við fáum ekki aðeins skrautsýninguna okkar heldur einnig svo óendanlega miklu meira.
Ég vona að þeir sem versla annars staðar en hjá björgunarsveitunum finni til öryggis þegar þeir þurfa að kalla eftir liðsinni og jafnvel neyðarhjálp KR-inga, "Alvöru flugelda" og annara tækifærissinnaðra flugeldaheildsala.
Eigið öll gleðilegt ár og slysalaus áramót.
Slasaðist á Ingólfsfjalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar