Færsluflokkur: Bloggar

Smekkleysa fréttamanna RUV

Þann 7. júní s.l. greindi fréttastofa RUV frá andláti Árna Johnsen, fyrrum fjölmiðla- og alþingismanns með meiru. Árni var litríkur en sannarlega umdeildur maður, breyskur eins og við öll. En þessi fregn RUV var í meira lagi undarleg enda bar hún því klárlega vitni að minning Árna er ekki hátt skrifuð í þessum herbúðum. Eitt af því sem skín í gegn í efnistökum stofnunarinnar er t.d. hin pólitíska slagsíða hennar. Eftirfarandi er orðréttur úrdráttur úr frétt RUV: “Hann sagði af sér þingmennsku árið 2001 eftir að upplýst var að hann hefði nýtt fjármuni bygginganefndar Þjóðleikhússins í eigin þágu. Hann var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í Hæstarétti 2003, en fékk uppreist æru þremur árum síðar.” Nú er ferilskrá Árna heitins ansi löng og fjölbreytt og gegnumsneytt er hún vörðuð leiðarsteinunum húmor, góðvild og hjálpsemi. En RUV, eftir að hafa hlaupið stuttaralega gegn um starfsferil Árna, sér sóma sinn í að fjalla aðeins sérstaklega um það sem miður fór hjá honum. Nú verður fróðlegt að sjá hvort þessi stofnun muni framvegis fjalla með svipuðum hætti um sakamál og dóma hinna látnu í andlátsfréttum þeirra, líka þeirra sem falla að pólitík stofnunarinnar. Mun t.a.m. verða tilgreint að forsætisráðherra gjaldborgarstjórnarinnar hafi verið sakfelld í Hæstarétti, þegar að því kemur að flytja andlátsfrétt hennar? Og þrátt fyrir að hin stuttaralega yfirferð á starfsferli Árna hafi m.a. nefnt þetta: “....og dagskrárgerðarmaður fyrir Ríkisútvarpið og sjónvarpið frá stofnun þess.” datt þessum fréttamönnum ekki í hug að þakka samferðina fyrir hönd stofnunarinnar, eins og þó er til siðs í slíkum tilfellum. Loks fórst alveg fyrir hjá þessari fréttaveitu ríkisins (okkar) að votta aðstandendum samúð, sem þó er einnig til siðs. Ekkert nema hrein andúð skín í gegnum þessi fréttaskrif. Sem skattgreiðandi, og þar með einn þeirra sem náðarsamlegast fá að styrkja þessa stofnun með nefskatti, hlýt ég að eiga kröfu til þess að efnistök fréttaveitu hennar séu hlutlausari, vandaðri og nærgætnari en þetta. Miklu hlutlausari, miklu vandaðri og miklu nærgætnari.


Afleiðingar niðurbrots Reykjavíkurflugvallar

Frá þeim tíma sem neyðarbrautinni var lokað og þar til ég lét af störfum sem flugmaður á sjúkraflugsvöktum, liðu um 2½ ár. Á því tímabili fékk ég tvö útköll sem vörðuðu hjartasjúkdóma og önnur þrjú með heilablæðingu, allt forgangstilfelli sem ekki reyndist unnt að sinna sem skyldi þar sem ekki var hægt að skila viðkomandi sjúklingum til nauðsynlegra sértækra læknismeðferða í Reykjavík. Vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur var lokaður. Vegna þess að neyðarbrautarinnar naut ekki lengur við. Og engar aðrar ytri aðstæður hömluðu gegn því að koma þessum einstaklingum til þessa áfangastaðar þar sem sértæku hjálparinnar naut við. Aðeins þetta suðvestan hvassviðri sem, ásamt með slökum hemlunarskilyrðum á öðrum brautum vallarins, varð þess valdandi að aðstæður á hinum flugbrautum Reykjavíkurflugvallar voru utan við þolmörk flugvélarinnar. Neyðarbrautin hefði leyst öll þessi mál líkt og hún hafði svo oft gert áður.

Og þetta var aðeins á minni vakt, eða á u.þ.b. fjórðungi þessa tímabils.

Þó ég viti ekki betur en að allir þeir forgangssjúklingar sem ég geri að umtalsefni hér hafi lifað af þessi bráðu veikindi sín var í öllum tilfellum um lífsógnandi ástand að ræða. Þá veit ég til að ekki allir hafa sloppið án varanlegrar heilsuskerðingar og þar með skerðingar lífsgæða, nokkuð sem líklega hefði mátt forða eða alla vega lágmarka, ef hægt hefði verið að skila þessu fólki til LSH innan þess tímaramma sem sjúkraflugsþjónustan býður upp á. Bara ef neyðarbrautin hefði fengið að vera í friði.

Við erum að líða fyrir þetta skemmdarverk á flugvellinum okkar. Það verður að vísu að viðurkennast að það var ekki varað við þessum afleiðingum nema e.t.v. svona þúsund sinnum, bara í nokkrum blaðagreinum og viðtölum með hjálp fjölmiðla og samfélagsmiðla og með því að efna til kynningar samfara undirskriftasöfnun sem aðeins skilaði um 70.000 undirskriftum. Svo það er vart við því að búast að Dagur Bergþóruson læknir og borgarstjóri og hans samstarfsfólk (Píratar, Viðreisn og VG) hafi áttað sig á hættunni sem þau voru að skapa með gerðum sínum.

Og auðvitað var til mikils að vinna, heilu íþróttafélagi var bjargað frá gjaldþroti og ýmsir aðrir hafa notið mikils fjárhagslegs ábata af þessum gjörningi. Ég hef oftsinnis spurt hvort hefur meira vægi hjá þeim sem véla með framtíð flugvallarins okkar, líf og heilsa fólks eða fjárhagslegur ábati lóðabraskara. Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur rækilega svarað því, enda er aðför þeirra að flugvellinum okkar alls ekki lokið. Hún er rétt að byrja og samningar þessa fólks við ríkið (okkur) um flugvöllinn eru marklausir, aðeins blekkingaleikur borgarstjórans og slektis hans eins og hefur sýnt sig í fréttum undanfarinna daga. Og eins og verið hefur alla tíð.

Maður hefði haldið að með svona afglapaslóða í eftirdragi (aðför að einkabílnum, hundrað milljarða borgarlínu sem aldrei mun skila arði, braggahneykslið, algert andvaraleyri í viðhaldi skólahúsnæðis, hörmulega fjármálastöðu o.m.fl.) ættu þeir sér vart viðreisnar von sem þar hafa verið í fararbroddi. Að minnihlutaflokkarnir gæfu nú vaxandi von til endurreisnar. Sér í lagi sá flokkur sem áður fór með hreinan meirihluta í borginni og alla tíð hefur verið kjölfestuafl hennar. En nei, það er nú eitthvað annað. Risið hefur aldrei verið lægra á Sjálfstæðisflokknum. Þannig vill til að bæði oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni og sjálfur formaður flokksins hafa sýnt bæði í orði og verki að stefna flokksins skiptir þau engu máli, hvorki í flugvallarmálinu né öðrum málum. Hildur Björnsdóttir hefur sýnt og sannað að hún telur sig hafna yfir vilja flokkssystkyna sinna eins og hann birtist m.a. í landsfundarsamþykktum. Þessi ólánstími Hönnu Birnu og Gísla Marteins er ekki liðinn meðan Hildar nýtur við. Svo þó Hildur njóti trausts þeirra sem hópuðust á opna prófkjörið til að kjósa hana, gildir klárlega ekki það sama um hinn almenna kjósanda. Og Bjarni Benediktsson, hann hefur orðið flokknum til meiri skaða en gagns. Gengi flokksins í borginni er klárlega að nokkru leyti afleiðing af gerðum hans sem fjármálaráðherra að undanförnu. Og varðandi flugvallarmálið legg ég afglöp Bjarna að jöfnu við eyðingaröflin í borgarstjórn. Þær afleiðingar af lokun neyðarbrautarinnar sem ég reifa hér að ofan, eru m.a. til komnar af því að Bjarni Benediktsson innsiglaði lokun hennar í kjölfar dómsmáls borgarinnar um það mál, með því að selja borginni hið snarasta landið undir hluta brautarinnar, þar sem nú á að byggja jafnvel inn fyrir flugvallargirðinguna! Í stað þess að nýta nokkurra mánaða frest sem dómurinn gaf, til að aðgæta betur möguleika okkar í málinu. Í stað þess að virða í nokkru það mögulega björgunarferli sem fram kemur í sjálfu dómsorðinu. Og í stað þess að nýta styrk þeirra öryggissjónarmiða sem sannarlega var komið þarna á framfæri. Bjarni hafði algerlega í hendi sér að bjarga neyðarbrautinni. En hann kaus að standa með fjármálaöflunum sem ágirntust landið undir henni.

Bjarni Benediktsson, þinn vitjunartími er löngu kominn.

Farðu!


Opið bréf til Bjarna Benediktssonar

Nú tók steininn úr. Hneykslið sem umlykur nýlegt söluferli á hlut ríkisins (þjóðarinnar) í Íslandsbnka eins og fnykur af iðralofti, gerir endanlega út um allar þær leifar af trausti til þín sem ég átti eftir. Það mátti reyndar ekki við miklu. Flokkurinn okkar hefur aldrei borið sitt barr undir þinni stjórn. Hann hefur aldrei náð sér upp úr þeirri lægð í kjörfylgi sem hann var í þegar þú tókst við forystu hans. Og hvers vegna ætli það sé? Jú, hann hefur aldrei, undir þinni forystu, náð að vinna upp það traust sem kjósendur báru til hans áður. Flokkurinn sem þó hefur þá bestu málefnaskrá sem flokkaflóran hefur upp á að bjóða. Nú hefur þú ýmist verið fjármála- eða forsætisráðherra samfellt nærri áratug eftir viðskilnað vinstristjórnarinnar sem áður var. Og þennan tíma höfum við, í stað heiðarlegs uppgjörs við þá tíma sem þá voru nýafstaðnir, fengið að horfa upp á hver afglöpin eftir önnur í umsýslu ríkisfjármála, fullveldis og málefnum þeirra sem minna mega sín. Það er nærri jafn átakanlegt að horfa upp á þetta eins og til meirihlutans í höfuðborginni og öll afglöpin þar. Enda gerist það hvað eftir annað að framfylgni þín og flokksforystunnar er þvert á vilja flokksmanna eins og hann birtist okkur m.a. í landsfundarsamþykktum, sbr. orkupakkamálið og fleiri mál sem varða fullveldi okkar gagnvart ESB enda höfum við á þessari vakt þinni orðið vitni að niðurbroti tveggja stoða kerfisins, sem var grundvöllur þess að EES-samningurinn teldist ekki brjóta gegn stjórnarskrá okkar og fullveldi. Fyrir vikið sitjum við m.a. uppi með fáránlega íþyngjandi persónuverndarlög og innflutning á hráum kjötvörum og afsakanir ykkar um að það sé svo erfitt að sporna við innleiðingum evróppskra reglna, þrátt fyrir að um það séu sérstök ákvæði í EES-samningnum. Vart þarf að rifja hér upp stöðu heilbrigðismálanna sem sýnir sig í hræðilega sorglegum fréttum af læknamistökum vegna álagsins og manneklunnar sem þar er við lýði. Og ekki er þar heimsfaraldri um að kenna því svona var ástandið í málaflokknum fyrir þann tíma og hér er vert að minna á að almenningur sýndi fyrir ekki löngu síðan skýran vilja sinn hvað varðar stöðu þessa málaflokks, með einni stærstu undirskriftarsöfnun sem fram hefur farið hér á landi. Ég nefni líka skerðingu Reykjavíkurflugvallar sem þú tókst fullan þátt í í blóra við afdráttarlausan vilja flokksins okkar, og reyndar þjóðarinnar einnig, sem líka kom mjög skýrt fram í undirskriftarsöfnun (þeirri stærstu á þeim tíma), skerðingu sem sér enn ekki fyrir endan á. Framganga þín þarna er á pari við allt falsið og forsendufalsanirnar sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur gengist fyrir í þessu máli. Ég læt vera að rifja upp öll þau mál þar sem hagsmunir almennings rekast á þín einkamál og vina þinna og vandamanna, enda hrjáir þig einatt slíkt minnisleysi þegar þau ber á góma að líklega er það tilgangslaust. En það er kristaltært að þau mál öll eiga sinn þátt í að flokkurinn með sína glæstu málefnaskrá nýtur ekki þess trausts sem honum annars ber. Þú og þínir standa honum fyrir þrifum.

Bjarni Benediktsson, það er ekkert lengur sem réttlætir þig í ábyrgðarstöðu fyrir flokkinn okkar né fyrir þjóðina. Umsýsla þín og umgengni um eigur okkar er ekki boðleg. Þinn vitjunartími er kominn.


Yfirklóri Björns Bjarnasonar svarað

Það fór eitthvað fyrir brjóstið á Birni Bjarnasyni greinin sem Morgunblaðið birti frá mér í fyrradag en hún fjallaði um framboð og framkomu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna. Ég greindi nefnilega frá því að þrátt fyrir að sækjast eftir oddvitasæti flokksins í borgarstjórn, þá hugnast konunni ekki að ræða öll mál sem á henni munu brenna, nái hún kjöri, sem m.a. lýsir sér í því að hún hefur valið þann kost að eyða af fésbókarvegg sínum þeim spurningum sem standa í henni, fremur en að svara þeim. Kannski eru þau eitthvað skyld þessi tvö, því sjálfur hefur Björn valið að blokkera viðmælendur sína þegar hann var sjálfur kominn upp að vegg í málefnalegum rökræðum. Gagnrýnin rökræða hentar ekki öllum.

Björn sakar mig um að gera "Hildi og afstöðu hennar til Reykjavíkurflugvallar tortryggilega." Auðvitað hefur Hildur sjálf, með þessari framkomu sinni, gert sig tortryggilega og væri henni í lófa lagið að eyða þeirri tortryggni með því að svara hispurslaust þeim spurningum sem fyrir hana eru lagðar. En það er greinilega ekki hennar tebolli.

Í bloggi Björns í gær er líka þetta að finna: "Flugvöllurinn hverfur ekki á kjörtímabili borgarstjórnar sem hefst 14. maí 2022. Línur hafa verið lagðar um óbreytt ástand til margra ára." Hér er vert að rifja upp að þessar "línur" voru reyndar lagðar með "samkomulagi" milli ríkis og borgar fyrir allnokkrum árum, en síðan hefur þó neyðarbrautin horfið, háreist byggð risið í hennar stað með tilheyrandi vindröstum sem trufla mjög flugumferð, nýtt skipulag um aðra aðþrengjandi háreista byggð er á fullum skriði í Skerjafirði og engar athugasemdir um væntanlegar sams konar truflanir þar fá nokkra athygli, enn eru eigur manna í Fluggörðum í hættu á að verða eytt endurgjaldslaust á allra næstu árum og það sem Björn kallar "til margra ára" varðandi líftíma flugvallarins nær nú aðeins til 2032 skv. aðalskipulagi borgarinnar. Þetta "óbreytta ástand" er því afar teygjanlegt hugtak hjá manninum.

Og hér er rétt að halda því til haga að þessi sorglega þróun, þessi gengdarlausa aðför að flugvellinum okkar allra í Vatnsmýrinni, er að miklu leyti vegna ýmist sleifarlags, þar sem þurft hefði að grípa til varna, eða beinlínis meðvirkni og jafnvel að frumkvæði ýmissa forvígismanna Sjálfstæðisflokksins, sem ég hef m.a. nefnt í mbl-greininni en bæti hér við Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins. Og hvers vegna skyldi það vera? Það liggur fyrir að einstakir þingmenn flokksins hafa átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta, t.d. verið hluthafar í Valsmönnum, félagsins sem stóð fyrir uppbyggingu Hlíðarendareitsins og varð því að losna við neyðarbrautina. Og það er kristaltært að hagsmunir þeir sem Bjarni gætti með sölu landsins í Skerjafirði, í kjölfar dómsmáls borgarinnar gegn ríkinu um neyðarbrautina, það voru einkahagsmunir en á kostnað almannahagsmuna, þ.á.m. öryggishagsmuna. Þó dómurinn félli á þann veg að samningur þáverandi innanríkisráðherra (Hönnu Birnu Kristjánsdóttur) og ríkisins um lokun neyðarbrautarinnar skyldi standa, þá greindi frá því í dómsorðinu hvernig ríkisvaldið gæti borið sig að, stæði vilji til þess að bjarga brautinni og m.a.s. gefinn tímafrestur ef á það reyndi. En nei, Bjarna Benediktssyni lá á að innsigla þetta mál, og þvert ofan í vilja hins almenna sjálfstæðismanns, eins og skýrt kemur fram í margítrekuðum landsfundarsamþykktum, og þvert ofan í vilja kjósenda, sem afdráttarlaust kemur fram í margítrekuðum skoðanakönnunum og einnar af stærstu undirskriftarsöfnunum til þessa um að flugvöllurinn skyldi standa ÓBREYTTUR, kaus Bjarni að selja land ríkisins undir sv-enda neyðarbrautarinnar, á fyrstu vikum eftir að dómurinn féll. Og ekkert af gerðum nokkurs ráðherra xD hefur sýnilega orðið til að sporna við þessari þróun. Ekkert af yfirklóri Björns Bjarnasonar breytir þessum staðreyndum.

Bloggrein Björns endar á þessari sneið til mín: "Þorkell Á. Jóhannesson (manninum væri líka sæmst að fara rétt með nafn þess sem hann kýs að deila við, innsk.) vill að saga Sjálfstæðisflokksins sé að hans höfði." Það að ég leyfi mér að draga fram þennan sorglega slóða forystu sjálfstæðismanna í flugvallarmálinu um leið og ég vek athygli á falskri framkomu enn eins borgarfulltrúa flokksins, sem nú sækist þar eftir oddvitasæti, sýnir væntanlega að ég vil að sú saga sem flokkurinn skilur eftir sig sé eftir höfði þeirra fjölmörgu sem reglulega taka þátt í stefnumótun flokksins, en sé ekki afbökun þess í meðförum þeirra sem síðan stýra för hans. Þegar ég segi afbökun vísast einnig í fleiri mál, s.s. orkupakkamálið og reyndar yfirhöfuð samskipti ríkisvaldsins, með ýmsa sjálfstæðisráðherra í lykilstöðum, við Brusselvaldið.

Lítill aðdáandi er ég Fréttablaðsins, en þessi bloggrein Björns Bjarnasonar er öðrum þræði ádeila á skrif ritstjóra þess. Undanfarið þykir mér þó sem ritstjórn blaðsins hafi verið skipuð með besta móti frá upphafi. Og þegar Björn hnýtir í Sigmund Erni fyrir skrif hans og sakar hann um hreinan hugarburð og "órökstutt gaspur", þá kemur það úr hörðustu átt.


Svissneskur ostur!

Lesandi góður, má nokkuð bjóða þér ost?
Mig langar nefnilega að kynna svissneskan ost. Ekki það að ég sé orðinn sölumaður eða mjólkurfræðingur, heldur langar mig að kynna hér svokallað „swiss-chese-model“. Kannski þekkja mörg ykkar fyrirbærið, en um er að ræða myndmál eða líkan þar sem setja má upp áhættuþætti er varða ákveðið ferli og er þá ostsneiðunum snúið þannig að götin í henni ýmist opni ferlinu leið í gegn um sneiðina eða stöðvi það. (Svissneskur ostur er nefnilega, eins og flestir vita, mjög götóttur sbr. það þegar Steinríkur spurði Ástrík vin sinn, þegar hann fékk svissneskan ost til að seðja sitt botnlausa hungur: „hvernig á ég að fylla tómarúm með tómarúmi?“). Hver ostsneið táknar áhættuþætti/-varnir sem bregðast ef ferlið nær í gegn um eitthvert gatið og leiðin liggur þannig nær óhappi eða slysi sem bíður nema einhver ostsneiðin stöðvi þetta ferli. Tökum dæmi:

Ostur

 

 

 

 

 

Þessi mynd sýnir þá þekktu staðreynd að slys verða yfirleitt vegna margra samverkandi þátta og því þarf margt að bregðast til að slysið verði. M.ö.o. standa ostsneiðarnar á myndinni fyrir eina fimm þætti flugrekstrar (flugvöll, viðhald, flugumferðaþjónustu, flugvélina sjálfa og flugmenn þ.e. mannlega þáttinn) sem, ef allir bregðast, hamla þá ekki lengur gegn mögulegu slysi. M.ö.o. þarf flugvélin á myndinni að sleppa í gegn um allar ostsneiðarnar á ferli sínum til að ná nöturlegum endalokum. Því fleiri sem sneiðarnar eru, þeim mun meira öryggi, því alltaf er ólíklegra að allar varnir bregðist í einu, því fleiri sem þær eru. Nú langar mig að setja upp eitt svona líkan með hliðsjón af einu dægurmáli þessa dagana hér á Akureyri.

Fyrst þarf ég að segja frá tveimur atvikum sem ég þekki til.

Það fyrra gerðist fyrir allnokkrum árum er flugvél í farþegaflugi varð fyrir hreyfilbilun örskömmu eftir flugtak á Akureyrarflugvelli. Reyndar var um að ræða viðvörun um eld sem leiddi til þess að flugmennirnir urðu að stöðva þennan hreyfli í öryggisskyni. Síðar kom í ljós að viðvörunin var fölsk en það breytti ekki stöðunni á stað og stund, því þessi flugvél hafði nú aðeins annan hreyfilinn til að knýja sig áfram á viðkvæmasta tíma rétt eftir flugtak, meðan hæð hennar var enn mjög lág og hraðinn einnig, vængbörð jafnvel enn niðri þar sem þau nýttust til að auðvelda flugtakið en voru nú aðeins loftmótstaða sem flugvélin mátti síst við í þessari stöðu. Ofan í kaupið var lélegt veður, þ.e. slakt skyggni og lág skýjahæð svo vélin var þá þegar er þetta gerðist, komin í blindflug.

Sé þetta tilfelli sett upp í þetta ostamódel gætu fyrstu ostsneiðarnar staðið fyrir viðhald og ástand þessa viðvörunarbúnaðar og þetta bága veður. Flugvélin er komin í gegn um þessar sneiðar en ferill hennar að mögulegu slysi er síðan stöðvaður með næstu sneið því hún stendur fyrir þjálfun áhafnar, auk þess sem næsta sneið þar á eftir gæti táknað flugumferðaþjónustu. Þetta hvort tveggja, góð þjálfun flugmanna sem og snör og góð viðbrögð flugumferðastjórans (vegna hættuástandsins sem þessi mögulegi eldur skapaði og þess kapphlaups við tímann sem af því leiddi) lögðust nefnilega á sveif með öryggi vélarinnar og tryggðu að ekki fór verr.

Hitt tilfellið er reyndar ekki eitt atvik heldur öllu fremur tímabil bilunar eða vanstillingar sem leyndist í annari flugvél hér á landi, um nokkurra vikna skeið, án þess að flugmenn eða viðhaldsaðili yrðu varir við. Þar var um að ræða búnað til að nauðbeita lofrskrúfu flugvélahreyfils, ef til hreyfilbilunar kemur. Þetta er afar nauðsynlegt til að lágmarka loftmótstöðu flugvélarinnar ef slík bilun á sér stað. Nauðbeiting loftskrúfu verður til þess að öll skrúfublöð hennar snúa frambrún sinni beint upp í loftstreymið á móti flugvélinni og skrúfan stöðvast. Að öðrum kosti gerist það að skrúfublöðin verða sjálf loftmótsstaða og það sem verra er, þau halda áfram að snúast fyrir tilstilli þessa loftstraums sem lendir framan á þeim. Við köllum þetta að skrúfan sé að vindmylla. Þetta verður til þess að allur snúningsflötur loftskrúfunnar verður að loftmótstöðu. Og það er enginn smáræðisflötur. Flestir hafa sjálfsagt horft á flugvélamótor í gangi. Þá sést í raun í gegn um snúningsflöt skrúfunnar en þó sést einnig greinilega „hlemmurinn“ sem er snúningsflötur hennar. Og ef allur þessi hlemmur fer að vinna sem loftmótstaða skerðir það svo mjög afkastagetu flugvélarinnar að ástandið vegna missis hálfs hreyfilaflsins (missis annars af tveimur mótorum) verður hálfu verra. Þunghlaðin flugvél í þessu ástandi gæti t.a.m. misst alla klifurgetu og jafnvel átt í ströggli með að halda hæð sinni, hversu lág sem hún kann að vera. Stefnustjórnun hennar verður auk þess afar erfið og gefur því auga leið hversu mikilvæg þessi nauðbeiting skrúfunnar á biluðum mótor er. Vegna þess hversu mikilvægt það er að nauðbeiting gangi hratt fyrir sig við mótorbilun á viðkvæmum augnablikum eins og til dæmis í flugtaki, er þessi búnaður hafður sjálfvirkur. Þessi sjálfvirki nauðbeitingarbúnaður var semsé óvirkur í þessari tilteknu flugvél um nokkurt skeið, án vitneskju flugmanna. Næsta mynd gefur e.t.v. hugmynd um hvers lags mótstaða hefði getað orkað á flugvélina í þessu ástandi, ef til hreyfilbilunar hefði komið.

Prop II

 

 

 

 

 

 

Fáum okkur nú aðeins ost! Eina sneið fyrir viðhald flugvélarinnar og þessa búnaðar í henni. Aðra fyrir mannlega þáttinn, þar sem enginn hnaut um þessa vanstillingu fyrr en löngu síðar. Ferill þessarar flugvélar í átt til óöryggis er rakleitt í gegn um þessar sneiðar! En síðan koma varnir sem bægja hættunni frá. Þriðja ostsneiðin táknar hönnun og viðhald mótoranna sjálfra sem var í engu ábótavant og því varð, til allrar hamingju, ekki um að ræða neina bilun í þeim á þessu umrædda tímabili. En hefði nú þessi þriðja sneið verið götótt á „réttum“ stað þannig að vélin hefði flogið þarna í gegn líka, þá hefðum við orðið að reiða okkur á mikla færni flugmannanna til að takast á við þennan vanda. Spurning hversu götótt þessi fjórða ostsneið (þjálfun og reynsla áhafnar) hefði þá verið.

Hvað ef þessar flugvélar og þessi tilfelli hefðu nú verið ein og hin sömu? Nú ætla ég að setja það upp í þetta svissneska-ostmódel.

Flugvél er á leið í loftið á Akureyri. Það er víst norðanátt aldrei þessu vant, og henni fylgir úrkoma, aldrei þessu vant. Það er því afar lélegt skyggni, bæði lárétt og lóðrétt. Það eru margir farþegar og vegna slæms veðurs, líka á áfangastað, ákveður flugstjórinn að hafa ríflegan skammt af eldsneyti til öryggis. Skerum okkur nú sneiðar af ostinum. Þær tvær fyrstu eru mjög götóttar og strax liggur ferill þessa flugs beint í gegn um þær, því vélin er þunghlaðin og veðrið afar óhagstætt. Allt er þetta þó innan allra regluramma.

Svissneskur ostur II

 

 

 

 

 

 

 

Síðan hefst flugtakið og einmitt þegar vélin er komin á loft, hjólin hennar á leiðinni upp og of seint að stöðva aftur á flugbrautinni, en vængbörð hennar eru enn niðri, hraði hennar lítill og hæðin einnig, semsagt á verstu augnablikum flugtaksins, þá bilar annar mótorinn. Ostsneiðarnar að baki flugvélinni eru orðnar þrjár og ástandið krítískt.

Svissneskur ostur III

 

 

 

 

 

 

 

En það sem verra er, skrúfan nauðbeitist ekki eins og hún á að gera. Annar mótorinn er dauður og allur snúningsflötur skrúfunnar hans er orðinn að loftmótstöðu í stað þess að knýja vélina áfram. Á meðan er hinn mótorinn á fullu afli svo tilhneyging flugvélarinnar til að snúa sér undan þessu mismunaafli er svínsterk. Það þarf að beita miklu vöðvaafli á stýrin til að sporna gegn því. Vélin er nú komin í gegn um fjórar ostsneiðar og nú er orðið alvarlegt neyðarástand!

Svissneskur ostur IV

 

 

 

 

 

 

 

Flugmennirnir (sem geta að sjálfsögðu verið konur) ganga til verks með sín þjálfuðu neyðarviðbrögð, þar sem annar þeirra sér um að stýra vélinni, eins örðugt og það er nú skyndilega orðið, því augnabliki áður var hann að horfa á umhverfi sitt út um gluggann og þessi snöggu umskipti frá sjónflugi í blindflug þurfa endilega að verða um leið og flugvélin gjörbreytir um flugeiginleika vegna bilunarinnar. Hinn reynir að nauðbeita skrúfunni handvirkt, þegar ljóst er orðið að sjálfvirki búnaðurinn sveik. Hann þarf að vinna sitt verk hratt en þó fumlaust því ella getur ástandið versnað enn. Það eru m.a. til dæmi um það að nauðbeiting hafi í fljótræðinu verið framkvæmd á skrúfu góða mótorsins og þeir því báðir teknir úr leik og flugvélin gerð með öllu afllaus! Til að fyrirbyggja að slík mistök eigi sér stað á þessum viðkvæmu augnablikum þarf sá sem flýgur helst að staðfesta einnig réttar aðgerðir hins og deila þannig athygli sinni einmitt þegar síst skyldi. Og hinn þarf jafnvel að gjóa augunum á blindflugstækin til að hjálpa þeim sem er að fljúga, með ábendingum um sitthvað sem sá þarf að gæta að. Vinnuálagið sem þessir menn fá þarna yfir sig eins og brotsjó er slíkt að útilokað er að rísa undir því nema með mjög markvissri og góðri og reglulegri þjálfun. Það er þó alls ekki svo einfalt að ætla að þessi viðbrögð flugmannanna spretti upp á svipstundu, því þeir eru jú mannlegir og því þurfa þeir fyrst að fara í gegn um það sem á ensku heitir „startle effect“, þ.e.a.s. það líður þarna ákveðinn viðbragðstími meðan þeir eru að meðtaka þá staðreynd að eitthvað alvarlegt hefur átt sér stað, greina það til að leggja niður fyrir sér hvernig þeir þurfa að bregðast við því, og hrinda því síðan í framkvæmd, um leið og þeir þurfa að tryggja að flugvélin haldist á réttum brottflugsferli og það í blindflugi, til að forðast þannig allar hindranir og til að hún haldi einnig áfram að klifra sé þess nokkur kostur vegna aflleysisins. Því þrátt fyrir aflmissinn fer þessi flugvél gegn um loftrýmið á þónokkrum hraða og nálgun við hindranir eða við jörð verður býsna snögg ef menn missa árveknina eða beina athyglinni of mikið og of lengi frá þessum flugferli sínum. Og um leið og tóm gefst þarf að senda út neyðarkall, ásamt með því að lesa viðeigandi gátlista. En lesandi góður, þrátt fyrir þessa alvarlegu uppákomu á alversta tíma, þá er ég að segja þér það að gaurarnir (eða gellurnar) eru að „meika“ þetta! Þrátt fyrir allt eru þessir snillingar að halda flugvél sinni á nokkurnvegin réttum ferli hérna norður úr firðinum, vinna úr því neyðarástandi sem þeir lentu í og lágmarka alla hættu og möguleika á frekari óhöppum. Þeir eru að redda deginum. Sjúkkit!

En má bjóða meiri ost?

Mig langar í eina sneið í viðbót og nú set ég hana þannig inn í þetta módel að ekkert gat í henni opnar flugvélinni leið í meiri nálgun við slysið sem annars bíður hennar. Það er vegna þess að einmitt þegar mest ríður á, þá eiga þessir flugmenn eins og staðan er blessunarlega enn í dag, hindranalaust loftrými framundan sér, jafnvel í þeirri lágu hæð sem þeir þó náðu áður en ósköpin byrjuðu. Þeir þurfa ekki að pæla í einhverjum háhýsum á Oddeyrinni, aðeins í nokkurra sekúndna flugfjarlægð þegar þetta skyndilega stóraukna vinnuálag herjar á þá hvað mest. Og það í blindflugi! Síðasta ostsneiðin bægir hættunni frá.

Svissneskur ostur V

 

 

 

 

 

 

 

Nái hugmyndir um þessi háhýsi fram að ganga er hins vegar augljóst að þessi síðasta ostasneið mun snúa öðruvísi, því yfirvofandi slys er ekki lengur fjarlægur tölfræðilegur möguleiki. Aðeins mikil slembilukka getur nú afstýrt því!

Einmitt, tölfræðin! Nú kann eitthvert gáfnaljós að segja, „en bíðum nú við, hverjar eru líkurnar á því að einmitt þetta, sem hér hefur verið sviðsett, verði einhvern tímann að veruleika“? Jújú, vissulega er flugið mjög öruggur ferðamáti og þetta er sérlega fjarlægur tölfræðilegur möguleiki, ekki satt? En eigum við þá að ganga út frá því að þetta verði bara alls ekki hér? Onei, viðhald flugöryggis byggist einmitt á því að gera ráð fyrir því versta og reyna eftir megni að fyrirbyggja það. Þess vegna viljum við ekki nýjar manngerðar hindranir í flugferlum nærri flugvelli. Síst af öllu í brautarstefnunni.

Nú kann einhver annar að segja, „en halló, hvað ef flugtakið er til suðurs, það er víst eitthvað af fjöllum þar ekki satt“? Ojújú, vissulega, en leiðin til suðurs inn í fjörðin er vörðuð leiðsöguvitum (við Kristnes, Torfur og Nýja Botn) auk aðflugsgeislans sem liggur á sömu leið og sem auðvelt er að fylgja í blindflugi, auk þess sem ríflegar 20 mílur eftir þessari leið eru í lítilli hæð yfir sjávarmáli. Á slíkri vegalengd má vænta að flugmönnum takist að lágmarka neyðarástandið, jafnvel ná aukinni hæð sem í versta falli gæti gefið aukið svigrúm til að snúa vélinni við, eða ná jafnvel uppfyrir fjalltoppa. Ólíklegt er að flugvélin verði bundin við blindflug eingöngu á allri þessari leið svo þá gefst öruggara færi á viðsnúningi þegar flugmennirnir fá jarðsýn. Og á þessari leið er m.a.s. annar flugvöllur sem hægt væri að lenda á ef svo ber undir. Þetta er allt annað mál en sú hindrun sem nú stendur til að bjóða okkur upp á í brautarstefnunni til norðurs (innan skekkjumarka!) og í aðeins um einnar mílu fjarlægð frá brautinni.

Nú kann einhver enn að segja, „en bíddu, eru ekki svipaðar hindranir á Faxakantinum, alltaf þegar stór skemmtiferðaskip koma í heimsókn“? Umm... jújú, vissulega, en þá er fyrst að nefna að komur þessara skipa eru bundnar við sumartímann, meðan þörf fyrir aðflug og brottflug við blindflugsskilyrði er langmest að vetri til. Það skarast að vísu gjarnan um vor og haust auk þess sem þoka er svosem ekkert óþekkt á sumrin. Enda er það svo að sérstakt leyfi gildir fyrir legu skipanna á þessum stað af þessum sökum. Þá bendi ég á að skipin eru færanleg og aðrir möguleikar fyrir hendi til að leggjast hér að, t.d. að Krossanesi. Færanleika háhýsa er hins vegar mjög ábótavant, jafnvel þó mikið liggi við.

Ég vil einnig benda á að sunnan við flugvöllin liggja raflínur þvert um dalinn og þvera þannig flugferla í aðflugi úr suðri. Þessar línur, þó ekki séu þær háar, en í svipaðri fjarlægð til suðurs eins og Oddeyrin er frá vellinum til norðurs, hafa neikvæð áhrif á það hversu lágt má fljúga í blindaðflugi þarna, áður en til fráhvarfsflugs kemur, hafi þá ekki þegar sést til vallarins. Þessar línur hafa alla tíð verið okkur þyrnir í augum og orðin löng biðin eftir því að fá þær ofan í jörðina. Nærri má þá geta hver áhrifin yrðu af ellefu hæða háhýsi að þessu leyti. Það er því ekki aðeins um að ræða reglurnar um hindranafleti umhverfis flugvelli, sem hér þarf að huga að, því þær gilda ekki um þessi lágmörk blindaðflugs. Og einmitt nú er verið að taka í notkun nákvæmnis-blindaðflugsbúnað sem mun lækka verulega þau lágmörk sem hingað til hafa verið í gildi norðan megin frá. Loksins, því þetta hefur okkur einmitt sárvantað alla tíð. En þessu verður rústað með þessum háhýsum á Oddeyrinni. Má reikna með að öll viðbótarhæð nýbygginga umfram þau hús og mannvirki sem eru þarna fyrir, muni hafa neikvæð áhrif á möguleg ný aðflugslágmörk. Og það eftir alla þá miklu umræðu undanfarið, um að markaðsvæða Akureyrarflugvöll fyrir beint millilandaflug, því þessi nýji aðflugsbúnaður er einmitt liður í því. Þetta minnir mig á það þegar bæjaryfirvöld annars staðar á landinu létu mála nýjar og fínar akreinalínur á eina aðalgötuna sína en svo var malbikað yfir þær viku seinna!

Loks má spyrja hvort margir verði líklegir til að sætta sig við það ónæði sem hlýst af því að búa rétt undir aðflugs- og brottflugsferlum, þar sem t.d. sjúkraflugvélar eru á ferð allan sólarhringinn?

cheese

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En þetta vil ég semsagt gefa lesandanum í nesti í þessari umræðu um háhýsi á Oddeyri, með svissneskum osti ofaná. Verðykkuraðví.


Nú skal manninn reyna!

Ég kaus ekki núverandi forseta þjóðarinnar í það embætti. Forsendurnar fyrir því voru aðallega tvær. Annars vegar líkaði mér alls ekki hvað hann gerði lítið úr þeirri baráttu sem þjóðin okkar varð að heyja í þrígang til að öðlast full yfirráð yfir landgrunni okkar og auðlindalögsögu. Hins vegar þykir mér ævinlega tortryggilegt þegar frambjóðendur til þessa embættis reyna að hylma yfir fortíð sína, eins og með því að láta gömul ummæli sín í netheimum hverfa. þeir sem ekki kannast við eigin ummæli né draga þau öðrum kosti til baka með afsökunarbeiðni ef þurfa þykir, eiga að mínu mati lítið erindi í embætti æðsta þjóðhöfðingja landsins.

En Guðni karlinn hefur til þessa vaxið í þessu embætti og reynst yfir höfuð farsæll. Ekki hnökralaus en í heildina farsæll. Aðall hans er alþýðleikinn, hann samsamar sig fólki og tekur sig fjarri því hátíðlega. Hann hefur öðlast vaxandi vinsældir fyrir vikið og það verðskuldað. En til þessa hefur ekki reynt á mannin í embættinu eins og forveri hans fékk að reyna. Enn hefur ekki reynt á það hvort hann, eins og Ólafur Ragnar Grímsson, stendur með þjóð sinni og svarar kalli hennar þegar myndast hefur gjá milli hennar og þingsins. Þetta gæti breyst fyrr en síðar því nú er það að gerast að hyldýpisgjá er orðin milli þings og þjóðar í einu mesta hagsmunamáli hennar síðan Icesavegjörningurinn reið yfir. Sú stórundarlega staða er uppi að ríkisstjórnarflokkarnir hafa allir þrír snúist gegn grasrótarhreyfingum sínum, málefnaskrám og landsfundarsamþykktum í þessu tiltekna máli. Um leið hafa þeir snúist gegn kjósendum sínum og meirihluta þjóðarinnar eins og skýrt kemur fram í skoðanakönnunum um málið. Og eins og þingmaðurinn Ólafur Ísleifsson bendir á í Mbl-grein sinni í dag, "Orkupakkinn fer um hendur forseta Íslands", stefnir í að málið sem þar um ræðir endi á borði forseta. Því þó hér sé á ferðinni þingsályktunartillaga í stað frumvarps, er jafnframt um að ræða milliríkjasamning og því mun forseti verða að ljá málinu undirskrift til að það öðlist gildi. Hann Guðni Thorlacius Jóhannesson forseti mun því finna sig í lykilstöðu varðandi framvindu þessa máls innan skamms ef að líkum lætur.

Nú ætla ég ekki að reifa málið sem um ræðir sem slíkt heldur aðeins benda á nokkur atriði er varða hlutverk forseta í málum sem þessum. Áður en Ólafur greip til málskota sinna birtust ummæli ýmissa málsmetandi manna þess efnis að ef til slíks kæmi hjá forseta væri hann að brjóta hefðarrétt sem fælist í því að málskotsrétti hefði fram að því aldrei verið beitt, og hefðarréttur fæli í sér lagalegt gildi. Annað eins bull og þetta kom m.a. frá fyrrum hæstaréttardómara þrátt fyrir að eitt af allra fyrstu grundvallaratriðum sem byrjendur læra í lögfræðinni er alger forgangur stjórnarskrárinnar (hvar málsskotsrétturinn skipar sinn sess í 26. grein) og jafnframt að hefðarrétturinn skipar eitt af neðstu sætum á forgangslista þessara fræða. Ólafur beitti þessum stjórnarskrárvarða rétti þjóðarinnar (því mun réttara er að tala um málskotsrétt þjóðarinnar fremur en að hann sé forsetans) í þrígang og sætti engum viðurlögum fyrir það, enda var hann vitaskuld að vinna vinnuna sína og virkja lýðræðið í sinni tærustu mynd. Þannig rættist það sem hann sagði í kjölfarið, að stjórnarskráin "er sá rammi sem hélt!"

Ég efa ekki að þeir sem styðja þingið og ríkisstjornina þarna hinum megin við gjána, munu benda á fordæmi hins gagnstæða, sem vissulega er fyrir hendi. Annar fyrrum forseti, Vigdis Finnbogadóttir, beitti aldrei 26. grein stjórnarskrárinnar í sinni embættistíð, þó vissulega hafi reynt á þann möguleika. Þó kom fyrir að hún tæki sér umþóttunartíma en niðurstaða hennar var þó ætíð sú að grípa ekki fram fyrir hendurnar á sitjandi stjórnvöldum. Þó ég hafi verið andvígur þeirri afstöðu hennar, get ég ekki annað en virt hana því hún var í þessu algerlega samkvæm sjálfri sér. Vigdís gerði nefnilega kjósendum sínum fulla grein fyrir þessari afstöðu sinni fyrirfram, strax í sinni kosningabaráttu. Hún sagði: "Ég er þingræðissinni"! Það fór því aldrei á milli mála hvernig hún myndi umgangast þennan málskotsrétt. Og með þetta í farteskinu náði hún kjöri. Kjósendur höfðu þessa afstöðu hennar alltaf á hreinu.

Guðni Th. Jóhannesson hefur hins vegar enga slíka afsökun. Hann kvað aldrei upp úr með það í sinni kosningabaráttu, að hann væri þingræðissinni, líkt og Vigdís gerði. Þvert á móti sló hann úr og í og gaf eitthvað í skyn, t.d. aðspurður um hvernig hann myndi bregðast við hliðstæðu Icesave-málsins, ef reynt var að fá upp afstöðu hans í þessu. Það þýðir einfaldlega að hann getur með engum rétti vikist undan að virkja málskotsrétt þjóðarinnar, ef ríkir hagsmunir og vilji almennings knýja á um það. Og það er ekki hans að meta hvort hagsmunir þeir sem tekist er á um hér eru nógu miklir til að réttlæta þetta. Þjóðin hefur þegar gert það. Allur vafi um slíkt á enda að vera metinn henni í vil. Forsetinn er fulltrúi þjóðarinnar en ekki stjórnvalda eða erlendra ríkjasambanda.


Nammið á spýtunni

"Hin lögfræðilega rétta leið væri að hafna innleiðingunni á þeim forsendum að óvíst sé hvort íslenska stjórnarskráin heimili umrætt valdaframsal sem orkupakkinn boði. Slík synjun myndi hafa í för með sér að málinu yrði vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar til nýrrar meðferðar."

Þeir sem tala fyrir innleiðingu 3ja orkupakkans hafa vísað í sérfræðiálit þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, með þeim orðum að þeir séu hlynntir leið ríkisstjórnarinnar í innleiðingu pakkans. En tilvitnunin í álit sömu manna hér að ofan segir reyndar aðra sögu! Svona skyrrist fólk ekki við að afflytja málið.

Það hefur einnig komið fram í máli þeirra að rétt væri að skoða áhrif op3 á stjórnarskrá okkar, miðað við enga fyrirvara, áður en innleiðingin á sér stað. Engin slík athugun á sér stað. Það er ljóst að fyrirvarabullið er blekkingaleikur og það vakir beinlínis fyrir ríkisstjórninni að keyra þessa innleiðingu í gegn hvað sem tautar. Almannahagur og almannavilji býr ekki að baki þeirri ætlan heldur sérhagsmunir. En það má víst ekki minnast á slíkt því þá er verið að "hjóla í mannin"! Ég skal því ekkert halda á lofti fjölskyldutengslum þeirra Bjarna Ben, Björns Bjarnasonar og Guðlaugs Þórs, varðandi landareignir með vatns- og virkjanarettindum o.s.frv. heldur læt ég nægja að nefna einkavæðingu slíkra réttinda sem vissulega er í farvatninu þar sem stefna og regluverk ESB er annars vegar.

Um þetta snýst þetta mál í hnotskurn, það hvort þjóðin á sjálf að eiga auðlindir sínar, virkja þær og njóta arðsins af þeim, m.a. í formi lágs rekstrakostnaðar heimila sinna, eða hvort fara skuli ESB-leiðina, sem er miðstýrð markaðsvæðing innan regluramma orkupakkanna.

Jafnvel meðal almennra flokksmanna xD ríkir sú skoðun, að þrátt fyrir þá almennu og réttsýnu stefnu flokksins að hlúa skuli að einkaframtaki og einkarekstri á flestum sviðum, þá skuli grunnþarfir samfélagsins eins og t.d. vatnsveita vera á forræði ríkisins. Og það er alveg ljóst að almenningur, þ.á.m. grasrótarhreyfingar stjórnarflokkanna, hefur fyrir sitt leyti skilgreint orkubúskap landsins og heimilanna sem slíkar grunnþarfir. Í því felst réttmætt vantraust á þessa miðstýrðu markaðshugsjón ESB til að gæta hagsmuna íslenskra heimila varðandi þá grunnþörf, að að við getum lýst og hitað upp húsin okkar í því mikla skammdegi og á þeim löngu og köldu vetrum sem við búum við, samanborið við flest önnur evrópuríki, með jafn hagkvæmum hætti og okkur hefur auðnast hingað til með okkar eigin forræði á þessum málaflokki.

En ráðherrar okkar og þingflokkar þeirra ásamt með ESB-sinnuðu flokkunum, vilja ekki sjá þetta með sömu augum og almenningur, því ýmist sjá þeir réttilega mikla nálgun við innlimun í stórríkið með þessari innleiðingu miðstýringar í málaflokknum eða það hangir svo mikið nammi á spýtunni fyrir þá sem ætla sér bita af kökunni, þegar markaðsvæðingin segir til sín.

Ég á því miður enga samleið með þeim stjórnmálamönnum og -öflum sem leyfa sér að traðka með þessum hætti á vilja og hagsmunum almennings.


Fordæmi?

Lítið flugfélag ákvað síðasta vetur að veita betri þjónustu með meira sætaframboði, ekki síst fyrir ferðamannaiðnaðinn, og keypti í því skyni stærri flugvél, 35 sæta vél í stað 19 sæta vélanna sem fyrir voru. Vélin kom til landsins tímanlega fyrir síðasta sumar og hófst þá bæði skráningarferli og þjálfun áhafna. Nýþjálfun hvers flugmanns kostar milli 4 og 5 milljónir og skráningarferlið kostar líka dágóðan fjölda af milljónum, jafnvel tugi. En litla flugfélagið hafði miklar væntingar til þessa nýja atvinnutækis og sumarsins framundan.

Nú skal enginn dómur lagður á það hvað olli töfum á skráningu vélarinnar, en sumarið rann sitt skeið án þess að nýja flugvélin kæmist í gagnið. Líka haustið og raunar árið allt. Þjálfun áhafnanna rann úr gildi án þess að nýtast í eitt einasta flug. Auk þess hvíldi á litla félaginu fjármagnskostnaður nýju vélarinnar án þess að hún ynni neitt fyrir sér. Litla flugfélagið varð fyrir þungum búsifjum vegna þessa.

Loksins, meira en hálfu ári eftir að þessi flugvél hefði átt að hefja störf og stórauka afköst litla flugfélagsins, náðist þessi langþráði áfangi, skráningu vélarinnar lauk og endurþjálfun áhafna einnig og þessi glæsilegi farkostur hóf sig til flugs. Það sást ljós fyrir enda gangnanna.

En hvað gerðist þá? Þessi nýja flugvél, dýrasta og afkastamesta vinnutæki litla flugfélagsins var kyrrsett aðeins örfáum dögum eftir að hún hóf sig til flugs! Það kemur á daginn að Isavia, þetta ohf-þjónustufyrirtæki flugsamgangna á Íslandi, virðist hafa lögregluvald til geðþóttabrúks þar sem kyrrsetning þess á þessari flugvél þurfti engan atbeina sýslumanns. Starfsmenn Isavia gengu bara í verkið, drógu vélina úr flugskýli þar sem hún var í viðhaldi og læstu henni úti vetrarkuldanum, þar sem samningi sem áður var milli þessara aðila um skuld litla flugfélagsins við ohf-ið var rift einhliða af þeim síðarnefnda! Þegar þetta er skrifað eru að verða þrjár vikur frá þessari kyrrsetningu og þrátt fyrir góða viðleitni forráðamanna litla flugfélagsins til að leysa málið kemur allt fyrir ekki.

Litla flugfélagið hefur nýverið fjárfest í betri starfsaðstöðu á Reykjavíkurflugvelli fyrir nálega sömu upphæð og skuld þess við Isavia hljóðar upp á en tilboð um veð í þeim eignum strandar á fáránlegum tækniatriðum. Fáránleikinn í þeim fyrirslætti er svo fjarstæðukenndur að ljóst er að um hreinan útúrsnúning er að ræða. Hvernig sem hægt er að hártoga eignarhaldið á þessari aðstöðu er það litla flugfelagið sem hefur kostað þann mikla virðisauka sem þar er orðinn. Það er þá eitthvað nýtt ef ekki má veðsetja eða verðleggja slík verðmæti.

Ekki frekar en að koma til móts við litla flugfelagið að þessu leyti með húsnæðisveði eða upptöku og nýta þannig þau verðmæti sem flugfélagið stofnaði til, dettur sjálfskipuðu geðþóttalöggunni í hug að kyrrsetja neina af minni vélum litla flugfélagsins í stað þeirrar nýju eða yfirhöfuð reyna að milda þessar innheimtuaðgerðir með nokkrum hætti. Og séu t.d. póliríkusar spurðir um möguleika á að aflétta þessari aðför að litla flugfélaginu er svar þeirra á þessa leið: Það er svo erfitt að gefa þannig fordæmi!

Já einmitt það, fordæmi!!!! En sjáið til, fordæmið liggur fyrir nú þegar. Það liggur í sjálfri kyrrsetningunni því ekkert annað íslenskt flugfélag hefur þurft að sæta aðför eins og þessari. Að undanförnu hefur þó annað flugfélag átt í vök að verjast (en virðist blessunarlega vera að komast fyrir vind) og nemur skuld þess við Isavia u.þ.b. tuttugufaldri upphæðinni sem litla flugfélagið skuldar. Þar á bæ hefur engin flugvél verið kyrrsett. Þessi ohf-stofnun, sem er að fullu og öllu í eigu ríkisins, er með þessu framferði að gefa nýtt fordæmi um grófa mismunun milli skuldara sinna og brot á jafnræðisreglu. Siðferði stjórnenda Isavia rís ekki hærra en þetta. Enda segir einn fyrrverandi deildarstjóri til áratuga hjá Flugmálastjórn Íslands (sem að hluta til er forveri Isavia), Skúli Jón Sigurðarson, um þetta á fb:

"..... Þetta eru aldeilis breyttir tímar. Ég minnist þess ekki að "stóru" flugfélögin hafi fengið svona meðferð. Þetta er skemmdarverk - liggur við að ég segi óhæfuverk. Ég er alveg viss um það, að enginn gömlu flugmálastjóranna sem ég vann undir á sínum tíma, Agnar Kofoed-Hansen, Pétur Einarsson eða Þorgeir Pálsson hefðu staðið fyrir svona meðferð á "litla manninum"".

Og þegar við skoðum forsögu þessa litla flugfélags, sem hefur um langt árabil veitt afar faglega og góða þjónustu bæði hér innanlands og utan, þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem það upplifir þrengingar í rekstri sínum vegna erfiðra ytri aðstæðna, því t.a.m. er innanlandsflug á Íslandi ekkert auðvelt starfsumhverfi. En ævinlega hefur þetta litla flugfélag notið góðvildar, m.a. meðal stjórnmálamanna og -afla, og það verðskuldað. Það er því kristaltært að hér er á ferðinni pólitísk kúvending því þessi aðgerð miðar beinlínis að því að knésetja fyrirtækið. Í því ljósi þarf að sjá það sem hér á sér stað. Nefnilega, þessi kyrrsetning á stærsta og afkastamesta vinnutæki litla flugfélagsins stríðir beinlínis gegn bestu lausninni á skuldastöðu þess. Það er því klárlega annarleg ástæða fyrir þessari aðgerð.

Og hvers vegna tala ég hér um pólitík? Er ekki Isavia opinbert hlutafélag og er ekki einmitt talað um að ohf-stofnanirnar séu ríki í ríkinu sem fari sínu fram hvað sem tautar? Nú er það þannig að þessi ohf-stofnun, Isavia, er eins og aðrar slíkar í reynd ekkert annað en ríkisstofnun! Þetta ohf-fyrirkomulag reynist hins vegar afar vel til að fela pólitíska slóð ráðherra, þegar vinna skal t.d. óvinsæl verk eða verk sem beinlínis stríðir gegn öryggishagsmunum, reglum og alþjóðalögum og yfirlýstum vilja þjóðarinnar skv. skoðanakönnunum og undirskriftasöfnun (neyðarbrautin og aðrar aðfarir að Reykjavíkurflugvelli sem dæmi). Vissulega er slóð forstjóra Isavia skrautleg og einkennist af hreinum afglöpum og þekkingar- og skeytingarleysi gagnvart þörfum fluggeirans og öryggis hans. En þó ég treysti honum sannarlega til þessarar valdníðslu (af fenginni reynslu) býr meira undir en að þessi forstjóri gangi svona fram að eigin frumkvæði. Þessi skrautlegi slóði hans er í pólitíska þágu, en ráðherra felur sig hins vegar bak við þessa mýtu um sjálfstæði þessa "ríkis í ríkinu". Það afhjúpaðist vel eftir dómsuppkvaðningu þess efnis að loka skyldi neyðarbrautinni. Þrátt fyrir að í dómsorðinu væri gefinn þriggja mánaða frestur fyrir ríkið til að bregðast við og jafnvel þótt þar kæmi einnig fram leiðbeining til samgönguyfirvalda til að bjarga brautinni, þá afhjúpaði fjármálaráðherra vilja sinn í málinu með því að selja landið undan brautinni aðeins nokkrum dögum síðar og hunsaði þannig efnislega alla möguleika til varnar þessari flugbraut og þeim öryggishagsmunum sem við hana voru bundnar. Þessi ráðherra var, eins og nú, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Þarna réð gerðum hans eitthvað annað en vilji almennings í landinu og yfirlýst stefna hans eigin flokks eins og landsfundarsamþykktir hafa sýnt í áraraðir. Og það sýnir sig að þrátt fyrir fádæma afglöp og lögbrot (skv. úrskurði ICAO, Alþjóðaflugmálastofnuninnar) í framgöngu Isavia, gegnir forstjórinn enn stöðu sinni. Fjármálaráðherra er einmitt sá sem ræður hlutabréfum ohf-stofnananna og því ljóst að forstjóri þessi situr með velþóknun ráðherrans. Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia hefur staðið sig vel fyrir Bjarna Benediktsson.

Aftur að aðförinni að litla flugfélaginu. Hér þarf að spyrja hverjir hagnast á knésetningu þessa félags? Isavia gerir það ekki með því að kyrrsetja það vinnutæki sem helst getur skilað stofnuninni þessum gjöldum í kassann! Nei þetta er pólitík! Og hverjir eru það sem sjá ofsjónum yfir því að litla flugfélagið sé að stækka og/eða sjá möguleika á knésetningu og yfirtöku þess? Ég kann ekkert óyggjandi svar við því en hitt er ljóst að enginn hefur jafngóða aðstöðu til að stýra þessari atburðarrás en fjármálaráðherra með forráðamenn Isavia í opinberum forgrunni. Og vilji nú einhver kalla þetta samsæriskenningar og efast um að þarna á bakvið standi einhver annarlegur pólitískur vilji, þá skulum við einfaldlega líta á þetta frá öðru sjónarhorni og spyrja: Hver er í betri aðstöðu en Bjarni Benediktsson til að stöðva þessa aðför að litla flugfélaginu? Sjálfur fjármálaráðherra og pólitískur forráðamaður og fjárráðamaður Isavia? Formaður þess flokks sem helst hefur staðið fyrir því að hlúa að einkarekstri og sprotafyrirtækjum? Þ.e.a.s. ef vilji hans stendur til þess?

En kyrrsetningin hefur staðið nærri 3 vikur og ekkert sér fyrir endann á því. Og litla flugfélaginu blæðir.


xD og þriðji orkupakkinn

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lengi notið þess kjörfylgis sem hann hafði mestalla síðustu öld. Þar munar u.þ.b. þriðjungi og virðist sem forysta flokksins sé farin að gera sér þetta að góðu.

En hvað skyldi valda þessu? Mér þykir það lýsandi sem ég heyri hjá ansi mörgum að þeim finnist þeir eiga góða samleið með málefnaskrá Sjálfstæðisflokksins, en geti því miður ekki treyst því að forysta flokksins framfylgi henni! Þess utan blasir við að mjög afdráttarlausar kröfur almennings í stórum málaflokkum eru hunsaðar af flokknum. Vart er þess að vænta að þetta stjórnmálaafl rétti almennilega úr kútnum meðan bæði almenningur og sjálf grasrót flokksins og jafnvel landsfundir hans eru svo lítilsvirtir sem raunin sýnir. Lítum á nokkur dæmi um þetta.

Á undanförnum fimm árum hefur almenningur skilað stjórnvöldum tveimur stærstu undirskriftasöfnunum í sögu þjóðarinnar.

Í fyrra tilfellinu er um að ræða kröfu um veru flugvallarins í Vatnsmýri í óbreyttri mynd. Ekki er nóg með að borgaryfirvöld sýni þessari kröfu fullkomna lítilsvirðingu, heldur gerðist það síðan að þáv. (og núv.) fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð stærsti gerandinn í skerðingu vallarins með lokun neyðarbrautarinnar. Eftir að ríkið tapaði dómsmáli að tilstuðlan borgaryfirvalda, þar sem nákvæmlega ekkert tillit var tekið til öryggishagsmuna allra landsmanna í málinu, var Bjarni Benediktsson ekki seinn á sér að selja borginni stóran hluta landsins undir þessari flugbraut. Hann gerði ekki hina minnstu tilraun til að grípa til varna fyrir þessa öryggishagsmuni, þó dómurinn gæfi nokkurra mánaða frest einmitt til þess og útlistaði m.a.s. í dómsorðinu hvernig slíku yrði við komið. Mikið lá formanninum á að selja, og það þó gjörningurinn fæli í sér átroðslu á ladsfundarsamþykktum hans eigin flokks auk þess að ganga gegn afdráttarlausri kröfu almennings. Þarna afhjúpaðist einnig stór þáttur í andvara- og aðgerðarleysi Alþingis gagnvart blygðunarlausri aðför borgaryfirvalda því forysta stærsta flokksins þar var eftir allt saman aldrei með þjóðinni í liði í þessu máli.

Seinni krafan sem þjóðin gerði til stjórnvalda með þessum mjög svo skýra hætti var um að setja heilbrigðismálin okkar í öndvegi. Að þau yrðu sett langtum ofar á forgangslista við gerð fjárlaga. Okkur blöskrar nefnilega ástandið í þeim málum almennt, biðlistarnir, lokanirnar og niðurskurðirnir, álagið á starfsfólkinu og tíðni læknamistaka vegna þess, ástand húsakosta og búnaðar, ótrúlega lágkúruleg framkoma við starfsstéttir í þessum geira í kjarabaráttu þeirra, þ.e.a.s. heildarástandið á málaflokknum sem er í sögulegu lágmarki vegna langvarandi og þrúgandi fjársveltis. S.l. fimm ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórn og sjálfur formaðurinn ýmist haft að gera með fjármála- eða forsætisráðuneyti auk þess sem flokkurinn stýrði velferðarráðuneytinu um tíma. Og þótt vissulega megi telja upp eitt og annað afmarkað mál sem fært hefur verið til betri vegar blöskrar okkur enn allt ofantalið. Heilbrigðismálin eru enn ekki í neinu öndvegi og erfitt að sjá að forysta Sjalfstæðisflokksins hafi nokkurn áhuga á að fylgja kjósendum sínum að málum hvað þau varðar.

Nú er í ráði að leggja fyrir Alþingi hinn svokallaða þriðja orkumálapakka ESB. Þessi lagabálkur víkur frá tveggja stoða kerfinu sem verið hefur við lýði í EES-samningnum. ESA, eftirlitsstofnun EES, og ACER, orkumálastofnun ESB, eiga skv. þessum pakka að vinna saman að úrlausn ágreiningsmála EN þó þannig að aðeins ACER fer með allann atkvæðisrétt, komi til slíkrar afgreiðslu. Þetta er klár tilfærsla á valdheimildum og aðkoma ESA þar með eingöngu til málamynda, svona til að friða EES-ríkin. Ekki er nóg með að þetta brýtur gegn EES-samningnum, sem einmitt byggir á tveggja stoða kerfinu, heldur er þessi valdatilfærsla skýlaust brot á stjórnarskránni okkar. En þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur reyndar áður brotið ísinn hvað þetta varðar, með einróma samþykkt samevrópskra persónuverndarlaga fyrr á árinu, sem einnig viku frá tveggja stoða kerfinu. Nú eru öll teikn á lofti um að forysta flokksins stefni að innleiðingu 3. orkupakkans. Á nýlegum fundi hverfafélaga xD í Valhöll um þetta mál, sá varaformaður flokksins (ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra), ekki ástæðu til að tjá sig um málið né sitja fundinn til enda. Á öðrum nýlegum fundi málfundarfélagsins Sleipnis á Akureyri, þar sem voru viðstaddir fimm þingmenn xD og þar af fjórir í framsögu og pallborði, komu fram afar varfærin svör varðandi þetta mál. Spurningu um það hvort þeir treystu sér til að fella frumvarpið á þeirri forsendu að um væri að ræða brot á EES-samningnum og stjórnarskránni var aðeins svarað af einum þingmannanna og á þá leið að ekki væri unnt að svara þessu nema eftir nánari skoðun og umræður! Kötturinn tiplar kring um heita grautinn! Loks hefur einn helsti framámaður flokksins til áratuga undanfarið birt bloggfærslur (einnig á fésbókarsíðu sinni) þar sem hann reynir að fegra þennan væntanlega lagabálk og kallar hann "meinlausan" fyrir okkur. Langir og líflegir umræðuþræðir á fb-síðu hans sýna glöggt hve einangraður hann er með þessar skoðanir sínar. En aðspurður (margítrekað) hvernig hann geti heimfært sviptingu ESA (annarar stoðarinnar í tveggja stoða kerfinu) á atkvæðisrétti sínum í samskiptum við ACER, við fullyrðingu sína um að 3. orkupakkinn falli ekki utan ramma tveggja stoða kerfisins hefur Björn Bjarnason svarað m.a. þannig að ég sé fastur í hjólfari og líði illa, tilsvör mín og allra annarra sem ekki taka undir hans mál séu "innihaldslaus", og nú síðustu daga erum við andstæðingar hans í málinu orðnir "ofstopamenn" og "stuðningsmenn stórfyrirtækja" sem hafa hér víst einhverra annarlegra hagsmuna að gæta! Þetta ásamt fleiru bendir því miður ekki til þess að vænta megi viðspyrnu úr þessari átt í þessu máli.

Skoðanakannanir sýna að almenningur er mjög eindregið á móti 3. orkupakkanum enda öllum ljóst sem kynna sér málið að mikið er í húfi og hagsmunir heimilanna gerðir léttvægir með þessum óskapnaði því við gætum innan fárra ára staðið frammi fyrir jafnræðiskröfu varðandi orkuverð á evrópska vísu! Þá liggur fyrir að andstaða almennings er einmitt eindregnust meðal kjósenda xD og loks blasir við algerlega afdráttarlaus andstaða grasrótarinnar í Sjálfstæðisflokknum gegn 3. orkupakkanum svo sem sjá má í skýrum landsfundarályktunum. Ef áhugi er fyrir því hjá forystu flokksins að hann endurheimti sitt fyrra traust meðal kjósenda, er orðið tímabært að sýna fram á að raunverulegt lýðræði ríki innan flokksins og að treysta megi því sem hann á að standa fyrir. Í stað foringjaræðisins sem Sjálfstæðisflokkurinn býr við í dag er nú komið að því fyrir Bjarna Ben, Þórdísi Kolbrúnu og kó að hlusta á almenning sem og eigin flokksmenn og hafna 3. orkupakkanum!


Hve djúpt ristir sviksemi Bjarna Ben?

Óneitanlega hafa síðustu atburðir í flugvallarmálinu orðið til þess að nú sér maður sögu málsins í nýju ljósi.

Þegar fregnir bárust af því fyrr í sumar að hæstiréttur hefði dæmt innanríkisráðuneytið til að standa við samkomulag þeirra Hönnu Birnu og Jóns Gnarr frá því 2013 um lokun neyðarbrautarinnar, barst samdægurs önnur frétt um viðbrögð ráðuneytisins við dómnum. Sú frétt var sýnu verri því hún gaf til kynna að Ólöf Nordal, sem áður hafði gefið ákveðinn tón til stuðnings flugvellinum í óbreyttri mynd, lét nú undan áreynslulaust með öllu. Ekkert skyldi reynt til að spyrna við fótum þó svo meirihluti Alþingis, sjálft löggjafarvaldið, standi bak við ráðherrann og ríkisstjórnina. Dómstólar dæma jú eftir lögum frá Alþingi. Nei, nú skyldi aðeins lúffað fyrir þeim ofstækisöflum sem taka lóðabrask framar öryggishagsmunum almennings. Þrátt fyrir að öryggishagsmunir landsmanna væru augljóslega hafðir að engu í dómnum. Þrátt fyrir fyrri afdráttarlausar yfirlýsingar um stuðning við flugvöllinn í óbreyttri mynd. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um alvarlega ágalla í undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðrar lokunar brautarinnar ásamt með hagsmunatengslum aðila í þeirri undirbúningsvinnu. Þrátt fyrir skerðingu flugöryggis, sem bent hefur verið á og ekkert mótvægi hefur verið fundið við. Þetta er algjörlega á skjön við þann karakter sem Ólöf hafði sýnt í þessu máli. Atburðirnir í fyrradag sem afhjúpa þátt formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, í þessu ferli öllu, afhjúpa nefnilega fleira sem hefur legið á málinu eins og mara undanfarin misseri. T.d. þessa viðhorfsbreytingu Ólafar.

Annað sem sjá má nú í skýrara ljósi er þráseta manns í sæti forstjóra Isavia, þrátt fyrir yfirgengilega vanhæfni og í raun glæpsamlega framgöngu gegn flugöryggi til að reyna að réttlæta undirbúning lokunar neyðarbrautarinnar með fölsuðum forsendum sem matreiddar voru (af Eflu-verkfræðistofu, sem á hagsmuna að gæta í málinu) á skjön við reglur um flugvelli og útreikninga á nothæfisstuðli flugvalla. Fleiri furðumál tengd Isavia hafa tröllriðið fréttum undanfarið, m.a. misnotkun fjármuna félagsins til að hygla fjölskyldu forstjórans, blygðunarlaus brot á upplýsingalögum, mismunun aðila í útboðum, hreint ótrúlega frjálsleg meðhöndlun mála sem varða flugöryggi þegar kemur að úrvinnslu áhættumatsgerða, svo fáein dæmi séu nefnd og nú síðast að því er virðist hvarf gagna þegar eftir er leitað. En Björn Óli Hauksson situr sem fastast eins og kóngur í ríki sínu í ríkinu og kemst upp með öll misferli sem honum sýnist. Og hvað ætli geti skýrt þá misfellu í sjórnsýslu okkar? Jú hann situr í skjóli fjármálaráðherra sem er handhafi alls hlutafjár Isavia ohf. Þess hins sama sem nú hefur afhjúpað sig sem einn helsta andstæðing landsbyggðar og flugöryggis á Íslandi. Manns sem hefði verið svo í lófa lagið að stýra flugvallarmálinu í farveg eftir vilja almennings og þá ekki síst flokkssystkyna sinna sbr. afdráttalausar stuðningsyfirlýsingar allra landsfunda Sjálfstæðisflokksins mörg undanfarin ár. Svo virðist sem breytni Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, hafi allan tímann verið Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, þóknanlegar.

Við höfum nú haft tveggja flokka ríkisstjórn bróðurpartinn af kjörtímabili, hverra flokkar hafa lýst afdráttalausum stuðningi við óskertan Reykjavíkurflugvöll. Samt horfum við nú upp á það að borgaryfirvöldum og Valsmönnum, með fulltyngi Isavia og Eflu-verkfræðistofu (sem jafnframt er stór hagsmunaaðili í málinu) er að takast að valda þjóðinni óbætanlegu tjóni á flugvellinum okkar allra. Það sem meira er, það er ekkert áþreifanlegt í sjónmáli hjá Alþingi til að sporna við endanlegri eyðileggingu flugvallarins í heild eftir aðeins sex ár í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Það hefur vakið furðu hve seint og illa ríkisvaldið hefur brugðist við þessari ískyggilegu þróun, í raun ekki neitt, þrátt fyrir digurbarkalegar stuðningsyfirlýsingar. Nú sætir þetta engri furðu lengur, því í fyrradag kom í ljós hvers lags þungavigtaraðili er að bregðast okkur.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur leikið tveimur skjöldum. Grasrótin í flokki hans hefur ekkert að segja. Landsfundir flokksins hafa ekkert að segja. Það er hann, formaðurinn, sem stýrir þessu máli og heldur hlífiskildi yfir vanhæfum forstjóra ríkisfyrirtækis til að stýra undirbúningsvinnu gegn flugvellinum til þóknanlegrar niðurstöðu, og afsalar síðan lóðabröskurunum landið undan neyðarbrautinni svo fjármálaöflin hafi sitt fram.

Á kostnað okkar hinna, almúgans.

Hvað finnst almennu sjálfstæðisfólki, t.a.m. sveitar- og bæjarstjórnarfulltrúum flokksins um allt land, um þessa sviksemi formanns flokksins í þessu mikilvæga máli?

Þegar að því kemur að forgangsútkall útheimtir neyðarbrautina til að hægt sé að skila sjúklingnum til lífsnauðsynlegrar aðhlynningar, og missir brautarinnar kemur í veg fyrir að viðkomandi njóti þessarar aðhlynningar, hver sem afleiðing þess kann að verða, vill Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur axla þá miklu ábyrgð? Á Bjarni Benediktsson að komast upp með að varpa þessari ábyrgð á flokkinn sem þó hefur það á stefnuskrá sinni að verja þennan flugvöll?


Næsta síða »

Um bloggið

Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur

Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Þorkell Ásgeir Jóhannsson

Höfundur er flugmaður, tónlistamaður, fjölskyldumaður og altmuligtmaður, stjórnarmaður í Hjartanu í Vatnsmýri og áhugamaður um allt mögulegt.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • cheese
  • Svissneskur ostur V
  • Svissneskur ostur IV
  • Svissneskur ostur III
  • Svissneskur ostur II

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband