4.9.2015 | 21:51
Falsanir Isavia og borgarstjóra
Vegna fréttar á visir.is síðdegis í dag, 4. sept, með fyrirsögninni: "Isavia segir óhætt að loka þriðju flugbraut Reykjavíkurflugvallar", þar sem vitnað er í fréttabréf frá Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, vil ég koma eftirfarandi á framfæri:
Isavia hefur gengið fram með afar óheiðarlegum hætti í þessu máli og skilað niðurstöðum útreikninga um nothæfisstuðul Reykjavíkurflugvallar með aðeins tveimur flugbrautum, án þess að lagðar séu til grundvallar lykilbreytur sem fyrirsjáanlega munu skerða nothæfisstuðulinn verulega. Um er að ræða breyturnar hemlunarskilyrði og vindhviður, sem reglugerð um flugvelli (464/2007) kveður á um að reiknað skuli með en sú reglugerð innleiðir reglur Alþjóða Flugmálastofnunarinnar (ICAO), hvað þetta varðar.
Þannig stenst ekki fyrsta setning þessarar fréttar: "Isavia telur óhætt að loka þriðju braut Reykjavíkurflugvallar þegar horft er til viðmiða Alþjóða flugmálastofnunarinnar." Isavia horfði einmitt alls ekki til viðmiða Alþjóða flugmálastofnunarinnar heldur skautaði vísvitandi fram hjá þeim með það að markmiði að ná þeirri prósentutölu nothæfisstuðuls sem borgarstjóri hampar nú sigri hrósandi.
Þegar nokkrir fulltrúar notenda flugvallarins í áhættumatsnefnd Isavia um þetta mál (undirritaður þeirra á meðal) bentu á þessa annmarka var þeim vikið úr nefndinni og eftir það voru það eingöngu fulltrúar Isavia sem matreiddu þá niðurstöðu sem borgarstjóri vitnar nú til.
Þessir útreikningar voru unnir af Eflu-verkfræðistofu fyrir hönd og að beiðni Isavia. Þegar hefur verið bent á hagsmunatengsl forráðamanna Eflu og Valsmanna (framkvæmdaraðilans á Hlíðarenda). Það er t.a.m. eitt af því sem bent var á í áhættumatsnefndinni áður en til brottvikningar áðurnefndra fulltrúa úr henni kom.
Úrvinnsla Isavia í þessu máli er þannig algerlega einhliða og á skjön við reglur, bæði íslenskar og alþjóðlegar, sem um þetta gilda. Framganga Isavia undir forystu Björns Óla Haukssonar í þessu máli er ekki aðeins vítaverð heldur beinlínis glæpsamleg íhlutun í öryggi allra notenda flugvallarins. Ekki síst notenda sjúkraflugsþjónustunnar. Athugið að það mun ekki koma í hlut þessara sjálfskipuðu "sérfræðinga" að vega og meta hvort lenda skuli með forgangssjúkling, við þær aðstæður þar sem þessarar brautar er þörf eftir að hún verður ekki lengur fyrir hendi. Þessi málsmeðferð hefur þegar verið kærð og niðurstaða þess liggur enn ekki fyrir.
Þá vil ég einnig benda á frétt á visir.is frá því 8. júlí s.l. með fyrirsögninni: "Sjúkraflug er utan áhættumats Isavia"!
Í ljósi ofanritaðs er fróðlegt að lesa eftirfarandi haft eftir borgarstjóranum í fréttinni frá því í dag: "Í fréttabréfinu segir Dagur að þegar metnar eru raunverulegar aðstæður, byggt á nákvæmum og vindmælingum, ástandi flugbrautar, skyggni og skýjahæð og raunverulegri notkun í innanlandsflugi og sjúkraflugi er nýting vallarins miðað við að þriðju brautinni sé lokað enn betri, eða vel yfir 98 prósent." (feitletrun er mín).
Hér lýgur borgarstjórinn hvað ofan í annað. T.d. bara með því að hækka enn frekar og skýringalaust, hina fölsku prósentutölu sem Efla reiknaði út sem "nothæfisstuðul" (97%). Eins og ég hef þegar greint frá eru vindhviður undanskildar í útreikningum Eflu/Isavia á nothæfisstuðli, en hinar "nákvæmu vindmælingar" sýna einmitt fram á nauðsyn þess að fullt tillit sé tekið til þeirra því vindur er einmitt afar byljóttur ef hann blæs af nokkrum krafti í Reykjavík. Sama gildir um hemlunarskilyrði, s.s. ástand flugbrautar, ekkert tillit er tekið til þess í útreikningunum. Og eins og tilvitnuð fréttin frá því 8. júlí sýnir, þá hefur akkúrat engin úttekt farið fram á áhrif þessarar lokunar á sjúkraflugsþjónustu, þó svo ítrekað hafi verið bent á þörfina til þess. Hér birtist okkur enn þessi blygðunarlausa árátta Dags B. Eggertssonar læknis, að afflytja staðreyndir um sjúkraflug, máli sínu til framdráttar.
Hann klykkir svo út með því að skírskota til mildunarráðstafana sem geri "ásættanlegt að loka þriðju brautinni", en á þeim fundum sem ég sat og bryddað var upp á þessu voru allar slíkar ráðstafanir slegnar út af borðinu sem óraunhæfar og ógerlegar.
Vert er að hafa í huga að þessi siðlausa framganga borgarstjórans er í þágu lóðabraskara sem skáka í skjóli íþróttafélags.
Um bloggið
Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ef að innanríkisráðherra tekur ekki flugvallarsvæðið með eignarhaldi, then kiss the airport good bye.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 7.9.2015 kl. 02:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.