5.12.2015 | 19:45
Lúmskt hættuástand.
Þegar tíðin er eins og núna er ekki úr vegi að rifja upp eina lúmska hættu samfara því að festast og bíða hjálpar í bíl. Athugið því þessa tilvitnun úr bók Hákonar Aðalsteinssonar, "Það var rosalegt", bls. 58:
"Dæmi um þetta var þegar bíll var að koma yfir Fjarðarheiði frá Seyðisfirði um miðjan dag í vondu veðri. Við vissum af bílnum og veltum því fyrir okkur hvort senda ætti snjóbíl á móti honum. Þá bárust fréttir af því að snjóbíll væri væntanlegur frá Seyðisfirði með fólk sem þurfti að komast í flugvél á Egilsstöðum og þar með var óþarfi að senda bíl frá Egilsstöðum upp eftir. Þegar snjóbíllinn frá Seyðisfirði kom að jeppanum voru allir sem í honum voru dánir, fjórar manneskjur. Bíllinn hafði stöðvast í skafli og verið hafður í gangi meðan beðið var aðstoðar. Kolsýringur hafði borist í bílinn og fólkið ekki gætt að sér og liðið út af."
Hættan sem um er að ræða felst í því að bíllinn er hafður í gangi meðan fennir að honum og á endanum á útblástur hans ekki greiða leið burtu frá honum heldur lokast undir honum. Púströr geta jafnvel hreinlega stýflast af snjó. Þá smjúga eiturefnin gegn um allar glufur sem kunna að vera til staðar, m.a inn í hann þar sem þéttigúmmí með hurðum eða umhverfis gírstöng eru slitin, ryðgöt eru komin í gólf o.s.frv. Annað sem eykur á hættuna er að kolsýringur er bragð- og lyktarlaus, ósýnilegur og ertir ekki og gerir því á engan hátt vart við sig. Þetta er svo lúmsk eitrun að ef ekki er höfð gát á þar sem minnsta hætta er á þessu geta afleiðingarnar orðið eins og í lýsingu Hákonar heitins hér að ofan.
Rifur á gluggum geta gert gæfumuninn í svona aðstæðum en það gerir líka árvekni gagnvart einkennum eitrunarinnar, eða súrefnisskortsins sem er afleiðing hennar, en þær eru bláar varir og neglur, flökurleiki og önnur einkenni lík flensu, sjóntruflanir o.fl. en ef einkennin ná að þróast að einhverju marki daprast líka dómgreindin til að bregðast við hættunni. Því er nauðsynlegt að þekkja hana.
Um bloggið
Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.