21.5.2019 | 18:35
Nammið á spýtunni
"Hin lögfræðilega rétta leið væri að hafna innleiðingunni á þeim forsendum að óvíst sé hvort íslenska stjórnarskráin heimili umrætt valdaframsal sem orkupakkinn boði. Slík synjun myndi hafa í för með sér að málinu yrði vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar til nýrrar meðferðar."
Þeir sem tala fyrir innleiðingu 3ja orkupakkans hafa vísað í sérfræðiálit þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, með þeim orðum að þeir séu hlynntir leið ríkisstjórnarinnar í innleiðingu pakkans. En tilvitnunin í álit sömu manna hér að ofan segir reyndar aðra sögu! Svona skyrrist fólk ekki við að afflytja málið.
Það hefur einnig komið fram í máli þeirra að rétt væri að skoða áhrif op3 á stjórnarskrá okkar, miðað við enga fyrirvara, áður en innleiðingin á sér stað. Engin slík athugun á sér stað. Það er ljóst að fyrirvarabullið er blekkingaleikur og það vakir beinlínis fyrir ríkisstjórninni að keyra þessa innleiðingu í gegn hvað sem tautar. Almannahagur og almannavilji býr ekki að baki þeirri ætlan heldur sérhagsmunir. En það má víst ekki minnast á slíkt því þá er verið að "hjóla í mannin"! Ég skal því ekkert halda á lofti fjölskyldutengslum þeirra Bjarna Ben, Björns Bjarnasonar og Guðlaugs Þórs, varðandi landareignir með vatns- og virkjanarettindum o.s.frv. heldur læt ég nægja að nefna einkavæðingu slíkra réttinda sem vissulega er í farvatninu þar sem stefna og regluverk ESB er annars vegar.
Um þetta snýst þetta mál í hnotskurn, það hvort þjóðin á sjálf að eiga auðlindir sínar, virkja þær og njóta arðsins af þeim, m.a. í formi lágs rekstrakostnaðar heimila sinna, eða hvort fara skuli ESB-leiðina, sem er miðstýrð markaðsvæðing innan regluramma orkupakkanna.
Jafnvel meðal almennra flokksmanna xD ríkir sú skoðun, að þrátt fyrir þá almennu og réttsýnu stefnu flokksins að hlúa skuli að einkaframtaki og einkarekstri á flestum sviðum, þá skuli grunnþarfir samfélagsins eins og t.d. vatnsveita vera á forræði ríkisins. Og það er alveg ljóst að almenningur, þ.á.m. grasrótarhreyfingar stjórnarflokkanna, hefur fyrir sitt leyti skilgreint orkubúskap landsins og heimilanna sem slíkar grunnþarfir. Í því felst réttmætt vantraust á þessa miðstýrðu markaðshugsjón ESB til að gæta hagsmuna íslenskra heimila varðandi þá grunnþörf, að að við getum lýst og hitað upp húsin okkar í því mikla skammdegi og á þeim löngu og köldu vetrum sem við búum við, samanborið við flest önnur evrópuríki, með jafn hagkvæmum hætti og okkur hefur auðnast hingað til með okkar eigin forræði á þessum málaflokki.
En ráðherrar okkar og þingflokkar þeirra ásamt með ESB-sinnuðu flokkunum, vilja ekki sjá þetta með sömu augum og almenningur, því ýmist sjá þeir réttilega mikla nálgun við innlimun í stórríkið með þessari innleiðingu miðstýringar í málaflokknum eða það hangir svo mikið nammi á spýtunni fyrir þá sem ætla sér bita af kökunni, þegar markaðsvæðingin segir til sín.
Ég á því miður enga samleið með þeim stjórnmálamönnum og -öflum sem leyfa sér að traðka með þessum hætti á vilja og hagsmunum almennings.
Um bloggið
Þorkell Ásgeir Jóhannsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.